Daninn gengur fyrir annarri klukku en Íslendingurinn. Það er maður alltaf að reka sig á. Eða ekki beint reka sig á heldur að taka eftir.

Ég var á æfingu áðan og það var verið að ráðgera aukaæfingu á annan í hvítasunnu, þar sem það eru tónleikar bráðum.

Allir gátu komið en hjá einni var vandinn að hún vildi helst að við myndum öll mæta klukkan 19. Því jánkuðu allir nema einn, hann vildi vera kominn heim til sín klukkan 20.

Þar sem ég er fædd og uppalin eftir íslenskri klukku, þá lyftust nú aðeins á mér augabrúnirnar. Vill vera kominn heim klukkan átta á annan í hvítasunnu… hann vill, eftir tvær vikur, vera kominn heim klukkan átta.

Úr varð að við öll myndum mæta klukkan 18.

Þetta ræðum við títt hér. Börn gera leikdeit með 3 vikna fyrirvara og standa við það. Ég sá jólatónleikaauglýsingu áðan, þann 11. maí 2015, en jólatónleikarnir eru 12.desember 2015.  Hér eru allir með danskt vegabréf búnir að skipuleggja hvert á að fara í sumarfríinu. Enginn veit ekki hvað nákvæmlega hann er að fara að gera alla dagana allar næstu amk fjórar vikur… eða fram að jólum, það kæmi mér ekkert á óvart.

Íslenska klukkan slær hratt og óvægið, þú ert með eða ekki, að hika er í alvöru það sama og tapa. Í dönsku klukkunni er ekkert hik, það kemur nefnilega aldrei neitt óvænt upp, það er allt fyrirfram ákveðið.

Kannski verð ég þannig einn góðan veður dag, en enn sem komið er, þá get ég ekki með nokkru móti ákveðið hvað ég er að gera í júní, þ.e næsta mánuði, hvað ef ég er síðan ekki í stuði fyrir það sem ákveðið var akkúrat þá?

Mér finnst þetta samt ekki asnalegt. Ástæðan fyrir því að hann vildi vera kominn heim klukkan átta var að hann er að fara í stórt próf, les til lögfræði, daginn eftir.

Á gengi íslensku klukkunnar, skiptir einhvernveginn allt meira máli heldur en skuldbindingin við sjálfan sig. Ég t.d hefði sagt já við að mæta á æfingu þó það væri klukkan miðnætti, þó svo að mér þyki orðið best að vera búin að sofa í svona tvo klukkara þá. Öllu einhvernveginn fórnað. Kannski ekki skrítið að maður þurfi að læra einhverskonar sjálfsumhyggju svona ef maður gengur fyrir þeirri íslensku.

2015-05-01 16.39.07Þessi er svona íslendingur. Vill svakalega mikið troða sér þar sem hún ekki passar. HEHE.