Ég veit ekki hvert í fjáranum allir þessir dagar sem hér renna upp hver á fætur öðrum fara eiginlega. Ég kemst aldrei í neitt. Ég hef alltaf bara eina og hálfa mínútu til þess að gera hina og þessa hluti og þá er ég trufluð.

Það er bara pirrandi og hananú. Klukkan er hálf eitt og ég er of þreytt til að meika sens. Tími ekki að vakna mega snemma til að gera allt sem mig langar að gera því ég vil ekki vera þreytt, allt verður erfitt, líka að draga andan, ef ég er þreytt.

Ætlaði í dag að eyða deginum í að vera heima hjá mér og hekla, prjóna, teikna, vefa vefsíður, blogga og hitt og þetta sem ég er aldrei að komast í.

Dagurinn fór hinsvegar bara í tvennt. Búðarferð og þrif. Búðarferðin var hinum lík, þá hinum búðarferðunum. Fyrir utan að aftanívagninum okkar hefur verið stolið, sem gerir stærri búðarferðir erfiðari en ella. Ég, ásamt sennilega öllum hinum í Kaupmannahöfn, fór í Bilka og þurfti að hringja heim og láta Þrettándann og Sprengjuna koma til að hjálpa mér þegar ég uppgötvaði að ég er síðan ekki með þrjár hendur. Eina til að ýta barnavagninum, aðra til að draga innkaupakerruna og þá þriðju til að halda á Bjútíbínu sem var orðin þreytt og svöng undir það síðasta.

Þetta tók bara uppundir þrjá tíma. Ég hélt í alvöru að ég yrði ekki eldri.

Þegar ég kom heim og ætlaði bara að henda vörunum á sinn stað og kannski éta smá og fara svo í verkefni dagsins sem voru að hekla, prjóna og teikna, þá varð það eiginlega þannig að ég gat ekki sett vörurnar í skítugan ísskápinn og fyrst það var svona lítið í honum þá eiginlega var ekki um annað að ræða en að þrífa hann.

Ísskápsþrifin tóku 4 tíma. Það var ekki útaf því að hann var svona skítugur eða ég byrjaði að bursta hann með tannbursta Eiginmannsins. Nei, það var útaf því að þegar ísskápurinn var orðinn hreinn þá leit afgangurinn af eldhúsinu svo illa út að ég varð að munda tuskuna á öllum skápum og skrúbba gólfið á hnjánum með þvottasvampi.

Þegar eldhúsið var orðið glansandi þá passaði auðvitað ekki restin af pleisinu inní hið nýja lúkk, svo í alvörunni áður en ég vissi af, þá var klukkan orðin sex og ég búin að þrífa stofuna og baðherbergið líka… OG skipa krakkaskrílnum sem var heima við að taka til í þeirra vistarverum.

Svo hljóp tíminn svoleiðis áfram, rétt eins og honum þætti það gaman og híaði á mig í leiðinni. Klukkan 22, enginn sofnaður, enginn tími og ég átti ennþá eftir að gera allt sem mig langaði svo til að gera.

Eitt af því var að setja inná þetta blogg myndir frá síðustu dögum. Það er náttúrulega skandall að æstur múgurinn fái ekki að upplifa allt sem ég upplifði!

Á morgun ætla ég úr húsfreyjugallanum. Ég ætla ekki að taka neitt til. Ég hef ekki ákveðið ennþá hvort ég vilji bara bíta úr nálinni á mánudaginn og þurfa þá að taka til eða hvort ég ætla að skipa lýðnum að ganga frá hverju einasta snitti… vera búin að garga á þau áður en flíkin nær detta í gólfið. Mun ná að grípa þau glóðvolg áður en hlandið lendir utan á klósettinu en ekki ofan í því. Mun skutla undir sokkana sem eru við að falla til jarðar þvottakörfunni.