Ég hugsa alveg jafn mikið um hvernig nammifíknin hefur lagt mig af velli þó ég hafi ekki skrifað um það í smá tíma. Mér hefur ekki ennþá tekist að hætta að borða nammi. Ég veit ekki hvort það á eftir að takast yfir höfuð.

Staðan er samt skrítin í augnablikinu. Það eru matartegundir, eins og tyggigúmmí og kartöflur, sem ég hef t.d ekki étið í margar vikur. Hef ekki keypt mjólkurvöru aðrar en ost, smjör og ab-mjólk. Hef ekki keypt “búðabrauð” lengi. Réttir eins og eitthvað með hakki, sama hvað það er, erum við öll búin að fá ógeð á. Ég veit að ég vil ekki borða en veit ekki hvað annað ég get borðað svo einhvern veginn endar með að ég borða bara ekki neitt.

Eftir að ég kom heim hinsvegar úr ferðalagi mínu um landið hef ég bakað brauð. Svo sem oft gert það áður. Brauðin eru spelt brauð og það er auðveldara að baka þau heldur en að fara útí búð og kaupa búðabrauð. Það tekur líka styttri tíma að baka svona brauð. Ekkert ger, svo það þarf ekki að  blanda deigið og geta ekki borðað brauðið fyrr en fimm tímum síðar. Mun auðveldara að baka brauð á morgnana eða brauð með matnum.. svona þegar maður er skyndiákvarðanatakari varðandi kvöldmat.

Hér kemur þá uppskrift að brauði. Ekki nein original uppskrift frá mér, heldur bara aðlöguð að mér.

2dl gróf malað spelt
3dl fínmalað spelt
2dl fræ eða/og hnetur, möndlur, haframjöl
3tsk vínsteinslyftiduft
smá salt
Sletta ólívu eða kókosolía (kannski 1-2msk)
1 1/2 AB-mjólk (eða tilfallandi yogurt, mjólk, hrísmjólk…)
1 1/2 heitt vatn

Fyrst öllu þurr blandað saman. Svo hitt sett oní og hrært eins lítið og mögulegt er. Það á að halda brauðinu léttu og óklesstu. Ég hef stundum látið stóra matskeið af hunangi bráðna í heitavatninu áður en ég set það oní. Svo má setja í það bara whatever.. oreganó krydd, hvítlauk, sólþurrkaða, ólívur og eiginlega bara það sem manni dettur í hug. Ég setti kanil í það áðan.

Bakað, ekki með blæstri, á 180 – 200°c í eitthvað um 30 mínútur.

Brauðið er gott og mUUUUUn hollara en búðabrauð, sem eru síðan rándýr. Besta við þetta er að allt sem í brauðið þarf finnst í Bónus. Ekkert lengur að ferðast á milli verslana, sveitt á milli rasskinnanna við að finna vínsteinslyftiduft.. sem ég vissi ekki einusinni hvernig var á litin fyrir 8 árum síðan.

Það hefur oft verið rætt um svo ég hef heyrt hvað það er dýrt að kaupa lífrænt og hve erfitt getur verið að fá og finna svona “heilsubúðarvörur” og þú veist… “treysti ég þessu?”. En ég er ekki að finna fyrir því að það sé dýrara að versla í heilsubúðum svokallaðar heilsuvörur né þegar ég vel að kaupa lífrænt og þar fram eftir götunum. Mér finnst bara huggulegra að borða það sem er ekki útatað í eiturefnum. Ég sé engan vinning í því að éta eitraðan mat. Það er bara einfalt.

Plús. Ef ég eitra kroppinn minn stanslaust daginn út og daginn inn, þá enda ég jú á sjúkrahúsi eða bara hreinlega í gröfinni og þessvegna sé ég heldur ekki að það kallist sparnaður. Ég hef ýmsar skoðanir á þessu þó ég úði í mig nammi.