Bara rétt að tékka inn elskurnar. Aðallega sakna ég ykkar bara svo mikið að ég bara varð að poppa við.

Ég lauk við þetta sjal um daginn. Örugglega samt 3 vikur síðan eða eitthvað. En það er rosa fallegt finnst mér, svo skemmtilega mjúkt og líka svo sumarlegt á litinn. Talandi um sumar… hér í maí (sem líkamsklukkan í mér vill ennþá, líka eftir allan þennan tíma, meina að sé vormánuður) hefur verið frá 15-25 stiga hiti og flennu sól alla daga í tvær vikur.

Var ég búin að tæpa á þessu kannski? Heldurðu að, fyrir þig sem ert “á klakanum”, það sé leiðinlegt að næstu 4-5 mánuðina mun ég fjasa um hve dúndrandi gott veður sé og svakalega heitt?.. Heldurðu að þetta verði mjög pirrandi?

Ég hef verið að hugsa hitt og þetta, mjög random:

Yoga

Nú þegar ég get ekki gert jóga, eða amk ekki þá jógategund sem ég stundaði þá hef ég mikið verið að hugsa hversu hippókrítískt jóga getur verið. Eins og í Ashtanga yoga, sem ég btw bæði stundaði og kenndi, á fyrst að róa hugann með því að mastera ákveðnar æfingar. Sem er gott og vel, en þú kemst aldrei áfram, áfram í fyrirheitna landið, uppúr streðinu, inní Nirvana og bliss-sæluástand nema að kroppurinn þinn geti gert hinar og þessar æfingar. Í Ashtanga er það meira að segja þannig að ef kroppurinn getur ekki ALLAR æfingarnar, þá ferð þú bara ekkert áfram í næstu seríu (er byggt á seríum) og þar af leiðandi munt þú ekki ná fullkomnun eins og hún er borin fram fyrir jógaiðkandann.

Þetta finnst mér í raun og veru fáránlegt. Bara heilbrigður kroppur sem er mjög, mjög sveigjanlegur og mjög, mjög sterkur “fær” að komast í andlegt jafnvægi.

Kaui þetta ekki. Finnst þetta ekki lengur vera málið.

Fólkið í kringum mig

Ég er alltaf að rekast á svona texta, í allskonar sjálfs-peppunar bókum og hvernig-áttu-að-haga-þér-til-að-verða-rík-og-vinsæl-OG-friðsæl-í-hjarta-bókum, sem fjallar um hvernig við verðum aldrei ríkari en 5 ríkustu vinir okkar. Hvernig allir eigi að velja sér hvaða og hvernig fólk er umgengist. Hvernig fólkið sem umlykur okkur annaðhvort hækkar standardinn okkar eða lækkar.

Það er eitthvað inní mér sem getur bara ekki verið sammála þessu. Mér finnst eitthvað merkilegt að hugsa þannig um fólkið í kringum mig að það sé hér fyrir mig en ekki fyrir sjálft sig.

Er ekkert merkilegt að sitja við skrifborðið kannski eftir morgunkaffið og vera að velja sér fólk til að hafa í kringum sig.. Er það ekki dulítið random og eitthvað sem við ráðum ekki endilega alltaf við, hvaða fólk er í kringum okkur?

Ég veit, bara svo það sé á hreinu, að það er af hinu góða að slíta sambandi við fólk sem lætur okkur líða illa og þannig.

Ég fékk skilaboð frá Guði um daginn í tölvupóstinn minn að ég héldi á sérstakri gjöf fyrir alla þá sem ég myndi hitta alla daga. Persónulega finnst mér þetta mikið skemmtilegri pæling, svona á móti því að halda að annað fólk muni annaðhvort draga mig með sér í skítinn eða hífa mig þaðan upp, bara eins og ég geti ekki bjargað mér sjálf. Hnuss.

…ok, hélt það væri fleira sem ég hef verið að hugsa, en það var greinilega ekki. Þurfti bara að koma þessu frá mér.

Er annars í mikilli vinnutörn, með mikinn kvíða og er alveg að drepast hvað mig vantar ný gleraugu. Ég er að verða eins og ugla að degi til.