Fagur er Bóndinn.
Og hér er myndin sem æstir aðdáendur MÍNIR hafa beðið um…það er ekki frá því að ég sé orðin hrædd um sess minn sem betri helmingurinn.. hann fór ekki með hárið og keypti sér ís, enda skilur enginn það sem hann segir hér í danaveldi.
Þegar ég var í bloggfríi fengum við tvær heimsóknir. Önnur var frá Yfirpabba sem alltaf er dejligt að fá í heimsókn. Krakkarnir voru heldur súrir þegar hann fór og hefðu gjarnan viljað hafa hann lengur, svo ég tali ekki um sjálfa mig, ég hefði líka gjarnan viljað hafa hann lengur. Svo var Jóhannes líka hér. Það er trúlega eitthvað spes samband milli hans og Sindra. Sindri hefur ekki verið neitt fyrir aðrar mannsveskjur gefinn, hvort sem það er ættin eða ekki ættin. Það hefur að vísu aðeins verið að breytast en þetta var eitthvað alveg spes. Hann tók Jóa opnum örmum og svo hékk hann bara þar. Þeir áttu hvorn annan.

IMG_7509
Hann kom fram á kvöldin og í eitt skiptið mátti Jói gjörasvovel og fara með hann inn að sofa, það tók 10 mínútur!!!!…..10 MÍNÚTUR…

IMG_7514

Svo var líka ráðist á hann meðan hann lá og hvíldi sig í sófanum. Þeim fannst hann æði. Það var ekki verra að hann nennti (eða gerði það allavegana) að hlusta á allar sögur sem þau höfðu að segja og fór svo í tölvuna með þeim eldri.

IMG_7487

Og þarna fannst honum Svala litla best að vera…merkilegt. Þeir bræður fóru svo á íþróttaleik. Þeir keyptu sér miða í dönsku stúkuna, það fannst mér fyndið. Þeir komu kaldir heim, eða Bóndinn var kaldur, enda leyfist honum ekki að ylja sér með öli, hinn var góður á því. Þeir bræður eru fagrir að innan sem utan (að undanskyldu lofti því sem sá stærri kýs að hleypa út þegar hann slakar í sófanum okkar, kannski kallast það ekki slökun nema maður reki miskunarlaust við hjá gestgjöfum sínum og sófaeigendum) og eru bestu bræður sem ég hef hitt. (mínir drengir eru vitaskuld líka bestu bræður en það er ekki verið að tala um þá akkúrat núna)

Margt annað hefur verið að gerast náttúrulega meðan ég var í bloggfríi, en ég man ekki í augnablikinu hvað það var en ég hugsaði nánast daglega hvað ég gæti skrifað um hér. Það sem ég man hinsvegar er að við fórum eftir vinnu hjá mér í dag í leyniferð. Við fórum út heima hjá okkur og í lyftuna. Þar ýttum við á -1 og fórum út ofan í jörðinni. Við fórum um tvær dyr og í gegnum bílakjallara, þá komum við að annari lyftu og ýttum þar á 2, þegar lyftu hurðin opnaðist þá vorum við komin yfir á AHG. Er ekki merkilegt að þurfa ekkert að fara út til að fara frá Poul Hartlings Gade yfir á Axel Heides Gade? Mér finnst það. Ef tildæmis það kemur svona óveður eins og ku vera heima á Íslandi þá væri agalega heppilegt að geta farið nánast á brókinni yfir í kaffi.

Og þar vorum við líka, ekki á brókinnni reyndar, að útbúa piparkökur. Piparkökudeigið sem ég gerði á hinn og lét vera í ísskáp yfir nótt og átti að vera fyrir krakkana að gera, meðan við gerðum laufabrauð (eða eitthvað svoleiðis) í gær var svo grjót hart að rota mætti mann með því og svo þegar kom til kastanna þá var ekki hægt að hnoða það. Þetta segir allt um mig í eldhúsinu. Þannig að Helga bjó til dásemdar deig í dag og við Bóndinn og börnin 5 (Gummi, Sunna, Lára Huld, Sindri og Ásta Hlín) skárum út myndapiparkökur. Þau al yngstu átu deigið án þess að skammast sín, hin þrjú reyndu að fela það. Við gerðum helling af kökum og vænti ég þess að fá myndir frá því annað hvort í mína tölvu eða þá á bloggið hjá Adda eða Helgu.

Að lokum (því ég er jú uppfull af allskonar sem hefur gerst en ekki verið sagt frá) þá fór ég á tónleika í nóvember með hljómsveitinni MUSE. Ég er mikill MUSE aðdáandi og keypti tvo miða á leikana lööööngu áður en þeir áttu að vera.

24102007802

Ég keypti miðana að sjálfsögðu fyrir okkur Bónda og við ætluðum samferða Helgu og Adda, en svo fengum við enga pössum. Hvað er til ráða?? Ég útvarpaði því að ég yrði einsömul á þessum tónleikum og þá dúkkaði upp maður að nafni Siggi Frigg og greiddi mér meira að segja pening fyrir að fá að vera með mér á tónleikunum.

ÉG er að sjálfsögðu löngu orðin þekkt manneskja hér í Kóngsins Köben og ekkert nema gott fyrir landslagsarkitektúrsnema eins og Sigga og Adda að vera í návígi við mig og finnst mér ekkert undarlegt að hann hafi heimtað að greiða mér fé fyrir að fá að koma með mér sem staðgengill Bóndans. Hann stóð sig eins og hetja. Hann var alveg eins og Bóndinn þegar við förum eitthvað… stóð hæfilega langt í burtu frá mér, reyndi að tala ekkert við mig og sagði mér síðan aldrei hvert hann ætlaði þegar hann fór eitthvað…

Tónleikarnir voru hinsvegar obboðslega góðir. Það er alltaf spes að fara á tónleika og sjá framkvæmd lög sem maður hefur kannski hlustað á í ræmur í græjunum. Myndinni rændi ég af síðunni hans Sigga (sem ég vona að sé sama um það..) en hún er af risa blöðrum sem sleppt var út í salinn í enda tónleikanna.