Er þetta það, er þetta það, er þetta það???  Það eina sem ég er verulega góð í í eldhúsinu er að steikja pönnukökur. Nú kom í ljós að amma mín bakaði svokallaðar blúndu pönnukökur. Ekki veit ég nákvæmlega hvað það er en er spurn hvort þær líti svona út?

Annað úr eldhúsinu sem ég er góð í en það er að búa til nagla mat. Það er að segja mat úr því sem er bara til. Áðan fékk ég t.d ommilettu með papriku, skinku og osti.. svosem ekki í frásögur færandi né neitt úbber mekrilegt, en það að ég skuli hafa sett hana ofan á tvær grillaðar brauðsneiðar með íslenskum smjörva og dýft hverjum bita til skiptis í sinnep og tómatsósu gerði þennan rétt að nýja uppá halds matnum mínum.

Enn fleira úr eldhúsinu: meðan ég grillaði þessa frábæru ommilettu gekk ég frá í eldhúsinu og skolaði ber sem ég ætlaði að éta á eftir ommilettunni. Þannig var að klukkan var þegar orðin níu þegar ég byrjaði að elda og ég var nýkomin úr ræktinni þannig að ég var frekar svöng svo ég fékk mér nokkur kirsuber.. og fyrst þarna var ostur líka þá kom fyrir að ég setti ost uppí mig í leiðinni.. þannig ég get sagt þér að kirsuber með osti eru bara nokkuð góð.

Úr ræktinni: ég er ótrúlega heit  í ræktinni, það er eitthvað sem fer bara ekki á milli mála og ég fór áðan til að flagga því að öll kílóin sem ég fékk í janúar, alveg frítt, eru öll sem eitt farin og ég get gengið aftur í buxunum mínum, ekki svo að skilja að ég hafi bara verið á brókinni, þó það hefði ef til vill verið ekki svo slæm sjón. Það er allskonar fólk í ræktinni flest bara ágætis fólk en það er alltaf í eldra kanntinum fólk þarna líka sem er svo illa óviðeigandi klætt að maður fer bara hjá sér. Eldri/heldri kona á blómóttri sundbrók/bikiníbrók að djöbblast á crosstrainer tækinu… ég gat varla bundið minn hlátur en það sem hjálpaði mér að kæfa hann var andfýla þess sem hjólaði á krafti alls þess sem hann átti, með andköfum í takt við það.OJ.

Það hefur svo sem ekkert rosalegt á daga mína drifið þannig. Ég enn í prófum. Hef tekið nokkrar stórar ákvarðanir og áttað mig á ýmsum hlutum sem ég nenni ekki að skrifa um núna. Reyni bara að lifa mínu lífi í sátt við sjálfa mig og aðra. Fann fallega bæn:

Ég krýp og faðma fótskör þína,
frelsari minn, á bænastund.
Ég legg sem barnið bresti mína,
bróðir, í þína líknarmund.
Ég hafna auðs og hefðarvöldum,
hyl mig í þínum kærleiksöldum.

(Guðmundur Geirdal-Bortmanski)

Merkilegast við hana er að ég skil fullkomlega þessa aðgerð og tilfinninguna sem fylgir henni. Hún er dásamleg og gefur manni frelsi til að vera til eins og maður er og leyfa öðrum að vera til eins og þeir eru.

Verst er að segja frá því að það dugði ekki svo langt að vera svona sátt við allt og alla því fjárans dúfurnar á svölunum, sem ég hafði ákveðið að hugsa um sem nýju frændur mína og frænkur, hafa svo hátt þessa dagana að maður er að vakna við dúfna kurr og dúfnaunga ískur en ekki fagran fuglasöng að sumri. Ég varð brjáluð og rauk undan sænginni og reif gamalt skúringavatn sem stóð í fötu og hellti á þær .. með þjósti. Og þær þeyttust undan svölunum alveg 5 eða 7. Ég er svo leið á þeim, eins og hefur komið fram, að ég ákvað að hafa bara vatn í fötunni á svölunum og svo alltaf þegar ég heyri í þeim þá mun ég hella ógeðslega fast á þær vatni.

Og enn annað sem ég var ekkert mikið sátt við. Það brotnaði uppúr fyllingu í einni tönninni minni og kom í ljós að það var risastór hola inní tönninni sem enginn sá. Hún örugglega búin að vera þar í fleiri ár, hef alltaf verið hálf aum í þessari tönn, nú veit ég afhverju!. Fór semsagt til míns tannlæknis sem er eins og flestir tannlæknar með alveg afburða heilsusamlegar tennur og brosir breitt, enda er hann tannlæknir sjáðu til. Fyrst spurði hann hvort ég vildi deyfingu eður ei.. mitt svar var jafn ákveðið og þegar ég mætti með 8 í útvíkkun niðrá Akranes og bað þær að vera ekki að reynaða einusinni að telja mér trú um það að ég vildi ekki deyfingu. Það tók þær ekkert langan tíma að sannfæra mig um að ég vildi hana síðan ekki, en tannlæknirinn er maður og höndlar ekki kvenlegan sársauka eins og ljósmæður. Ég var deyfð.

Deyfingin var sett í með risastóru sprautunni sem allir kannast við að hafa fengið uppí sig, nema þá væntanlega tannlæknirinn. Ekki mjög þægilegt en allt í lagi. Svo byrjaði hann hreinsa eitthvað til um hvippin og hvappinn í mínum munni og þegar kom að því að skafa tannstein af tönnunum þar sem deifingin á að virka kom í ljós að hún var ekki alveg að virka. Svo hann deyfði meira. Og enn virkaði ekki svo nú dró hann út stóru byssurnar. Jámm. Hann tók fram einhverja aðra nál, stærri að mér hefði sýnst hefði ég þorað að kíkja.

Sagði að hún væri frábrugðin hinni því hún færi á milli tannanna og oní tannrót..mér verður bara aftur bumbult við að rifja það upp.

Og hann hófst handa við að troða og þá meina ég troða nálinni oní tannholdið milli þriggja tanna.. ó MIG auma.. hann tróð og hjakkaðist svo eftir það og tók sér alveg stöðu og bað aðstoðarkonuna um hjálp við að bora þessu alveg oní og í gegnum kjálka.

Mér leið ágætlega í borun eftir þessa meðferð og tókst fylling tannarinnar vel og er hún sem ný..tönnin sjálf. Tannholdið og kjálkinn og bara allt þarna í kring er hinsvegar blátt, án gríns, og marið og mér er alveg ótrúlega illt þarna. Þurfti verkjapillur og allt og er ég nú ekki hrifin af þeim. Vorkenndi mér samt aðeins of mikið og síðustu tveir verkjapillu skammtar voru eiginlega bara því mér fannst svo þægilegt að sofna við þær.

Þetta kostaði mig ekki bara sársauka mikinn heldur líka aleiguna. Enn og aftur hef ég stofnað styrktarreikning, þér er velkomið að setja inná hann aur, ég mun kannski senda þér bara skemmtilegt myndband af mér að æfa söngva og dansa með Leoncie.

Tók síðan saman nokkrar myndir: SMELLA