Geggjað úber gott bananabrauð. Já brauð! Ekki bananakaka (æsispennandi þrætur við sjálfa mig og matarbloggara internetsins um hvort svona góðgæti er kaka ellegar brauð)

Fyrst mikilvæg yfirferð:

Ég neyddist til að henda nokkrum vörum úr skápnum mínum góða, vegna þess að þær höfðu runnið út. Svona er Bústýra Félagsbúsins nú óbúkonuleg.

Hér er hinn upphaflegi listi:

  • hörfræ
  • múslí
  • heilhveiti
  • múslí í poka
  • brún hrísgrjón
  • hrásykur  (fór í einhverjar pönnukökurnar)
  • köku kakó  (eitt af því sem á ekki að vera á listanum, búin að kaupa oft síðan)
  • steiktur laukur  (var étinn af hrægömmum)
  • haframjöl
  • jasmín grjón
  • grautargrjón
  • lasagne plötur
  • rasp
  • sykur (sjor.. eins og það hafi verð erfitt að klára sykurinn.. )
  • gróft haframjöl
  • nýrnabaunir
  • graskersfræ
  • valleprotein dufft  (úbbs.. rann út)
  • makkarónur
  • takkóskeljar
  • borlotti baunir
  • fínt spelt
  • gróft spelt
  • möndluflögur
  • möndluhveiti
  • rautt quinoa
  • kókosmjöl
  • sesamfræ
  • kúskús
  • amaranth (úbbs.. rann út)
  • hveitiklíð
  • kókoshveiti
  • raw kakó
  • kakósmjör  (úbbs.. rann út)
  • kakónibbur (úbbs.. rann út)
  • grjón venjuleg
  • tahin  (úbbs.. rann út)
  • kakó í heitan kakódrykk  (úbbs.. rann út)
  • svört grjón
  • grjónablanda m. linsum í (..hvað var ég að hugsa)
  • chiafræ
  • kjúklingabaunir
  • heslihnetur
  • brasilíuhnetur
  • lakkrísrót, kurluð
  • sólblómafræ
  • birkifræ
  • möndlur
  • rauður matarlitur
  • valhnetur
  • pekanhnetur
  • ósaltaðar jarðhnetur (ógisslega vondar)
  • pasta
  • hindberjaryk
  • stevia
  • sykur  (haha! tvisvar á listanum! )
  • hrísmjöl
  • kamillute
  • jurtate
  • kamillute (annað)
  • fljótandi reykur (liquid smoke) bragðefni held ég
  • sambal olek
  • síróp
  • hlynsíróp (beint á amerísku pönnurnar)
  • epla og mangó mauk 
  • hrísblöð
  • pítubrauð, alveg 15 stykki  (voru mygluð þegar ég kom að þeim næst)

Niðursuðudósir

  • rauðar nýrnabaunir
  • svartar baunir  (Eiginmaðurinn gerði eitthvað mega gott með þessu, man ekki hvað samt)
  • súrkál
  • kjúklingabaunir
  • kókosmjólk
  • nýrnabaunir lífrænar
  • chipotlets (.. dunno, eitthvað í sambandi við chilli) (rann út)

Eins og sést er hellingur búinn og hellingur eftir. Svona verður að flokka betur. Það er ekki neitt sérlega erfitt að klára sykur og múslí, grjón og hveiti og þannig, er eitthvað sem ég er búin að kaupa oft og klára síðan ég byrjaði á Missjón possibúl.

Það eru hlutir eins og kókosmjólk (því mér finnst hún vond), kókosolía (einnig vond, kókosmjöl (mehh) og kókoshveiti sem er erfitt að fá útúr skápunum.

Tók hér rispu í tiltekt um daginn og kom að nokkrum matvörutegundum dauðum. Þær höfðu lifað daga sína. Voru bæði af þessum lista hér fyrir ofan og þónokkur krydd.

 

Einn morguninn (og þetta er klárlega kostur við að vinna heima hjá sér og vinna hjá sjálfum sér) var ég viðþolslaus, sko í alvöru, af sykurþráhyggju. Ég var svo þrá að ég, á meðan ég steikti eggin mín, henti í bæði bananabrauð og kryddbrauð.

Kryddbrauðið var ekki gott en bananabrauðið var það og hér er uppskriftin af því. Hún er byggð á einhverri annarri uppskrift, en aðferðin hér er næstum því jafn mikill lykill að góðu brauði og hráefnið sem í það fer.

Í brauðinu er:

  • 2 bananar
  • 50 gr smjör
  • 2 egg
  • 1/2 dl sykur
  • 1 dl hveiti
  • 1 dl malaðir grófir hafrar
  • 2-3 msk möndlumjöl, kókoshveiti og hrísmjöl
  • 6-10 dropar stevía
  • 1/2 bolli vökvi (mjólk, vatn, súrmjólk..)
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk kanill
  • Smá salt

Þetta er eiginlega ekki uppskrift fyrir byrjendur, ef ég á að segja alveg eins og er hér uppá háa hestinum mínum.

Til undirbúnings þarftu að bræða smjör í potti á eldavélinni (nema þér séuð á breytingarskeiðinu og getir sett það bara undir annan handakrikann). Og, mala grófu hafrana í hveiti. Það gerir þú í múlínex vélinni þinni, þekkist einnig undir nafninu matvinnsluvél.

Þá seturðu egg og sykur í BLANDARANN! Já, í blandarann með egg og sykur og þeyta vel. Þar ofaní fara svo bananarnir og vökvinn. Þeyta mjög vel, enga bananaklumpa í þetta brauð. Síðan má setja smjörið og blanda vel.

Í hrærivélaskálina seturðu bananablönduna og svo öll þurrefnin og blandar svolítið saman. Ekki gleyma saltinu, það er lykilatriði í þessu. Það er ss hveitið, hafrahveitið sem þú varst búin/n að mala í múlínexinu, möndlumjöl, hrísmjöl, kókoshveiti, lyftiduft, kanill og salt.

Verð að nefna að bakarinn verður að mæla svolítið út hjá sér hvað hann setur mikið mjöl. Kannski kurlaðiru hafrana bara eða hveitið er eitthvað öðruvísi en það sem ég var með, nú eða já bara eitthvað! Ég held m.a.s að ég hafi sett eina msk í viðbót af möndlumjöli í deigið, sem svona skyndiákvörðun alveg í endann.

Þá er að koma stevíunni útí. Mín stevía er alveg að renna út þannig ég setti tvær sprautur af henni, það voru örugglega svona 8 dropar eða svo.

Blanda stevíunni vel við.

Þá tekurðu form og smyrð með einhverju. Ég er eiginlega hætt að nenna að taka smjörklípu og smyrja með því, alveg eins gott að nota bara olíu. Dreifa smá haframjöli í botninn  og gluða svo deiginu oní.

Af því að þú ert bakari með reynslu þá átt þú að vita að þú hefðir átt að vera búin/n að hita ofninn áður en þú byrjaðir á uppskriftinni.. það eða ég gleymdi að nefna það fremst. Bananabrauðið á að bakast við 175°c í um 40 mínútur. Hér gætum við alveg verið að tala um 10 mín til eða frá. Góður bakari verður að þekkja ofninn sinn (kveðja hroki.is).

Hér náði ég að nota möndlumjöl, hrísmjöl, kókoshveiti, grófa hafra og stevíu úr skápnum góða.

Ég át síðan (ég f-ing grínast ekki, skammast mín niður í tær) át 1/3 af brauðinu áður en krakkarnir komu heim. Át síðan eftir að þau komu heim alveg 3 vænar sneiðar. Ég get alveg sagt ykkur það að ákveðin lofttæming átti sér stað síðar um kvöldið.. og örugglega alla nóttina. En ég er dama og lét ekki bera á því. Freta auðvitað regnbogum og lykta alltaf eins og blóm í haga.

Og svo er ég líka heppin að Eiginmaðurinn sefur fast á nóttunni, því ég er auðvitað líka sofandi þá og hef enga stjórn á því hvort ég freta eður ei.

Ég át rest daginn eftir.

GEMMÉR HALLLLILÚJA!