Ég bakaði köku í gær. Hún var mega góð og heppnaðist vel þó ég segi sjálf frá… enda hver annar ætti að fara að segja frá akkúrat hér á þessu bloggi?

Sítrónu/sýrðurrjómi kaka. Hún leit sirka svona út.

sitronu-syrdurrjomi-kaka

Auðvitað hefði verið gáfulegra að taka myndina í sól þar sem kakan fengi að njóta sín í útliti, en kökuhungraðir úlfar sátu til borðs með mér í gærkvöldi og smelltu henni í fésið á sér á núll einni.

 

Uppskriftin af kökunni hinsvegar, hún er hér, nú svona ef þig langaði til að prufa.

  • 100gr smjör (já, ég notaði smjör en ekki smjörlíki.. held það skipti ekki máli)
  • 2 bolli sykur (ég notaði svona hvítan kaffibolla.. þú getur notað hvaða lit sem er)
  • 3 egg
  • Rifinn börkur utan af einni sítrónu í stærri kanntinum
  • 1 bolli sýrður rjómi
  • 2 bollar hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt

Smjör og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Þá einu og einu eggi bætt við, hræra vel á milli þeirra. Þá er sítrónuberkinum bætt útí og sýrðarjómanum. Allt hrært aðeins. Hveiti, lyftiduft og salt fer síðast ofaní. Ágætt að blanda lyftidufti og salti saman við einn bollann af hveiti áður en hann fer í skálina, bara í bollanum, svona til að forðast að það myndist bara risastórir klumpar af lyftidufti eða salti á einum stað í kökunni.

Bakað síðan í formi, þú ræður hvaða formi, ég bakaði í kringlóttu formi. Ég bakaði við 180°c í svona 40 mínútur. Það verður samt bara að athuga hvort kakan er til með spjóti, eða sverði.., áður en hún er tekin út.

Það er hægt að dreifa flórsykri yfir svona kökur, ég hef séð það gert, en við völdum að gera svona gulrótaköku krem, s.s með flórsykri, smjöri og rjómaosti. Þú verður að tala við Eiginmanninn ef þú vilt uppskriftina af því, eða bara googla :)