Þetta er ákall til allra matarbloggaranna og uppskriftabókahöfundanna! Neyðarkall meira að segja.

Hvenær er brauð kaka? Ég t.d bakaði um daginn, og setti hér inn mynd af því, bananabrauð sem kallað er Uppáhalds bananabrauðið á uppskriftarvef hér á interfretinu. Bananabrauðið hef ég reyndar bakað þrisvar á mjög stuttum tíma.

Allir eru svo sólgnir í brauðið að það hverfur á hálfum degi. Og fyrst það er bananaBRAUÐ þá fannst mér eiginlega ekkert tiltökumál að lýðurinn myndi hafa það með sér í nesti. Það eru jú bananar í því og þeir eru hollir.

Það var ekki fyrr en ég bakaði það í fjórða skiptið að ég vaknaði til meðvitundar um að það eru hvorki meira né minna en 2 DESILÍTRAR SYKUR í því. Það er alveg 1/4 meira en ég set í skúffukökudeigið sem fyllir sirka hálfa hrærivélarskál en bananabrauðsdeigið er bara rétt um 1/4 af skálinni.

Ég get aldeilis ekki kallað þetta bananbrauð eftir að hafa uppgötvað þetta. Þetta er ekkert annað en bananakaka og hafðu það sunnudagur!