Ok.. kannski ekki í heimi, hvað veit ég um það? Ég hef ekki smakkað alla smúþía í heimi. Reyndar fer þetta ” í heimi” svo í taugarnar á mér að ég gæti alveg gargað duglega. Svo typpekeppnislegur frasi.

Ég get ekki sett inn mynd af honum. Ekki bara er ég búin með hann heldur er hann svo ólystugur á litinn að hæglega væri hægt að halda að ég hefði gleymt einhverju misjöfnu í hita og raka í fleiri daga og svo sett í glas.

Þetta gerðist allt á magískan máta þegar ég var að stappa banana og avókadó handa Bjútíbínu. Henni finnst það gott. Mér fannst það svo girnilegt á áferð og lit að ég ákvað að frysta ekki nokkra skammta handa henni heldur gefa henni einn og fá mér sjálfri afganginn.

Grautaði oní blandarann eftirfarandi:

  • 3/4 af avókadó
  • 3/4 af banana
  • frosin jarðaber *
  • 1dl hrísmjólk
  • 1msk kókosolía
  • 1tsk sítrónusafi
  • 1msk hampfræ

Það er í sjálfu sér ekki neitt bragð af hampfræunum og ég setti þau bara útí útaf því að Eiginmanninum var sagt að einhver hefði læknast af exemi við að borða hampfræ, það viljum við meira en margt annað að enginn hér í heimili sé  með exem, þvílíkur ófögnuður. Svo fannst mér töff að henda fram uppskrift af einhverju sem hefði í innihaldslistanum eitthvað úr heilsubúðinni.

*Frosin jarðaber. Ég er hætt að kaupa frosin ber og nota beint úr pokanum vegna þess að ég vil ekki fá samlmonellu eða lifrarbólgu. Ég spurði eina ágæta íslenska konu sem heldur úti þeytidrykkja síðu á Facebook um það hvort hún syði berin, eins og mælt er með á pokanum til að útríma bakteríum, áður en hún skellti þeim í blandarann. Nei var svarið. Hún notar alveg ber og tjáði mér að einkenni lifrarbólgu A væru bara flensulík einkenni og að flestir læknuðu sig sjálfir af henni. Æhh. Ég veit ekki. Mér finnst þetta bara eitthvað asnalegt. Soðin frosin ber í smúþí eru ógeðsleg, ég er búin að prufa. Salmonella eða lifrarbólga er líka ógeðslegt. Ég kaupi bara jarðarber á tilboði, þú veist þegar búðin er orðin stressuð yfir að allt seljist ekki áður en þarf að henda þeim. Hleyp með berin heim, þríf, sker og set í poka beint í frystinn. Þá er ég komin með frosin ber.

En þetta er alveg ferlega góður þeytidrykkur. Hollur líka. Mmm hvað hann rann ljúflega niður.