Back to school to prove to dad I’m not a fool..

Sest á skólabekk í þúsundastaskiptið í mínu lífi. Ætli þetta verði alltaf svona? Ég hef sest inní sama framhaldsskóla, 10 árum síðar en ég gerði aðra tilraun til að mennta mig til stúdents. Í millitíðinni er ég jú búin að setjast í annan framhaldsskóla þar sem ég ætlaði líka að mennta mig til stúdents, það var eftir öll börnin og þá hef ég líka í millitíðinni sest á skólabekkinn erlendis.. en aldrei klárað stúdentinn.

Enda er markmið mitt ekki að verða neinn stúdent, finnst það hálfgerður óþarfi að vera margmiðlunarhönnuður og nuddari (þú veist, þegar ég er búin með þetta) og ætla svo að pína mig áfram í stúdent líka. Nei, nei bara þvaður.

Hefur samt aldrei liði eins rólega þó ég hafi sett líf mitt á hvolf við þessa ákvörðun mína. Líður alveg eins og ég eigi að vera að þessu.

Ég er fegin að ég fékk þessa hugmynd núna en ekki eftir tildæmis 5 ár, þá hefði ég þurft að setjast á skólabekk með syni mínum. Mér hefði eflaust fundist það tryllt kúl og verið alve… JÓ! Búnglingur! Hva segirru mar?!?.. ég sé fyrir mér að honum hefði ekki verið skemmt.

Hér eru nefnilega alveg bunurnar af litlum börnum. Reyndar er aldursbilið mjög breytt, held vegna þess að hér er líka heilbrigðisskóli, sem ég er í og þar erum við á öllum aldri, ég er laaaangt frá því að vera elst, flestir á nuddbraut eru í kringum minn aldur. En börnin.. maður lifandi!

Ég sé langar leiðir hvað þau eru sjálfsmeðvituð og er alveg pípandi fegin að þurfa ekki að standa í því lengur og er vel að velta fyrir mér hvort það kannski henti fólki betur að vita hvað það vill læra og getur kannski betur verið til innan um svona marga aðra þegar það er eldra.

Ég dæmi að í Sjálfbæ verði það þannig að fólk fer ekkert að rembast við lærdóm fyrr en uppúr 25 ára. Mér er alveg sama hvort það eðlar sig fyrst, en ég held að prinsippið ætti að vera að fólk sé ekki að ákveða neitt fyrir lífstíð þegar það er 14, 5 ára. Það er bara rugl.

Á ég að byrja að tala um hvað mér finnst um fermingar?.. nei.. ég geymi það í annan pistil.

…nú er t.d eitt barnið sem ég er með í næringarfræði tíma að hringja í foreldri sitt og vera með væl yfir því að það sé bara með 80% mætingu og hafi víst slökkt á símanum en vekjaraklukkan hringdi samt.. þetta er erfitt.