Ég hef lært ótrúlega mikið um sjálfa mig undan farið árið, kannski undanfarin tvö ár. Veit eiginlega ekki hvað mér finnst um þennan tíma líður aðeins eins og ég hafi verið týnd.

Hefst þá lesturinn.

Um leið og ég hef alltaf öfundað fólk sem hefur eina ástríðu í lífinu og bara er alveg í gegn það sem það vinnur við, t.d bara ER smiður og lærði það bara frá byrjun og hefur núll áhuga á að gera nokkuð annað, er ég að komast að því að ég er ekki þannig. Eiginlega bara mjög langt frá því.

Ég er búin að eyða núna alveg allnokkuð mörgum árum í að vera annarsvegar á bömmer yfir því að vera ekki með einhverskonar lærdómsgráður í vasanum (vil ekki vera svarti sauður stórfjölskyldunnar og ekki valda heilu þjóðfélagi vonbrigðum) og hinsvegar í að læra eitthvað. Byrjað á ýmsu og klárað sumt. Alltaf að reyna að pota þríhyrningnum sem ég í þessum skilningi er, til að passa við hringina í kring. Ekkert gengið.

Það kemur alltaf í ljós fyrr eða síðar mitt sanna sjálf. Þúst, það sem Ég er, hvað mér í hjartanu finnst áhugavert, skemmtilegt og nauðsynlegt. Ég get ekki verið ekki ég. Ég get ekki reynt að vera annað fólk og gert það sem ég held að öðru fólki finnist að ég eigi að vera að gera.  Þetta er allt í hausnum á mér sjáðu til, enginn annar er að spá neitt í það hvað ég er að gera. Þannig endar það bara alltaf að annaðhvort lekur sannleikurinn út smátt og smátt eða stíflan brestur  og sjálfið gussast út um allar trissur. Hvort tveggja er óþægilegt. Það er ekki gott að vera stífla sem er alltaf við það að springa.

Þannig get ég alls ekki, ekki verið ég sjálf.

Hvað ertu að meina ?, kann lesandi að spyrja. Það get ég ekki útskýrt betur.

Niðurstaðan er að minnsta kosti þessi: ég get ekki verið framakona, fullkomin móðir, eiginkona, dóttir, systir, fullkomin húsfreyja og fullkomið allt sem krafist er af mér að vera og mér ber að vera, svona sem meðmanneskja og uppalandi, ef ég á að gera þetta allt í einu. Ég hvorki vill né get verið allt í einu.

Ég vil getað verið til staðar 100% í því sem ég er að gera. Ekki á 100 stöðum í einu en bara til staðar uppá 1% á hverjum vígvelli.