Ég veit ekki hvernig á að koma orðum að því en ég held, þá eins og í ég=hugur minn heldur að ég, eins og í ég=líkami og sál, eigi ekkert gott skilið. Er það nú ekki furðulegt miðað við að við vitum alveg að ég er frábær og það ert þú líka.

Einhversstaðar á lífsleiðinni gleymdi ég að læra að bera virðingu fyrir sjálfri mér sem líkama, huga og sál og næra mig sem slíka, fattaru? Ég kann það reyndar núna, óþægilega mörgum árum síðar og er bara byrjandi í þessu sjálfsvæntumþykjuveseni.

Attitjúdið að vera alveg sama hefur verið ráðandi voða lengi í mínu lífi. “Díla við það seinna -geri bara eitthvað ” hefur verið viðhorfið. Eða þetta er ég að sjá núna, svona eftirá. Hugsa ekki frammá að það séu afleiðingar af ákvörðunum mínum (mér finnst eins og ég heyri hlakka í þeim sem þekkja mig), en ég skammast mín samt ekki og myndi ekki vilja taka neitt til baka af því sem ég hef gert, því, eins og allir sem segja svona segja; þá hefði ég ekki lært það sem ég lærði og vissi ekki það sem ég veit í dag.

En einmitt núna, á þessum saumavélartímamótum (HINT), er ég einmitt, samt alveg ómeðvitað, alltí einu að taka allskonar ákvarðanir með því að setja mér markmið, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Keypti meira að segja bók um svoleiðis ásetning og hún er góð.

Hvernig gat ég farið í gegnum svona mörg ár af lífinu samt og ekki haft neitt veður af því að fólk væri í alvörunni að setja sér markmið og gera eitthvað aktívt til að ná þeim? Eða hélt ég kannski að ég væri svo einskis verð að ég ætti ekki einusinni skilið að setja mér markmið og að ná frama, nei, ekki endilega vinnuframa, bara frama í því sem ég set mér markmið í. Ég er þreytt á því að hið almenna viðhorf sé að ef þú ert ekki með svona og svona vinnu á þessu og þessu kalíberi þá sértu ekki neitt. Ég er ekki ég=atvinnan mín!

Merkilegt nokk, nú þegar ég er að hugsa eins og stormsveipur um að búa mér til markmið og koma mér upp aðferðum til að ná markmiðunum (já það er ekki bara eitt markmið) þá eru allir textar sem ég les, eða fyrirlestrar sem ég hlusta á, eða bara efni í útvarpi, um að setja sér markmið, að valið sé mans eigið og þar fram eftir götunum.

Fékk einmitt svona aha! móment um daginn þar sem ég var að labba í þyngri þönkunum, það fór eiginlega um mig þegar ég fattaði hversu sterkt það er og ótrúlega mega rosalegt fyrirbæri að hafa val. Það sem er eiginlega merkilegra er að uppgötva að maður hafi val og ekki bara það heldur að spyrja sig spurninga um hvort, eða hvað skal velja. Hugsaðu þér bara ef maður mætti ekki velja.. ég bara næ ekki þeirri hugsun til enda. Ég vil samt ekki meina að val og vilji sé það sama og ég held ekki að það sé alltaf þetta eina eða hitt eina, ég held að það sé alltaf einhver leynikostur þar á milli. Best að vera með opin augun til að sjá hann.

Ég er s.s ekki bara viljalaust verkfæri hugar míns, ég get reyndar stjórnað honum, hann er eiginlega alveg eins og óala krakkarassgat stundum. Með hávaða, frekju og yfirgang. Það þarf að taumvenja hann, eða setja hring í nefið á honum. Ég = sannleikurinn í mér sjálfri, getur stjórnað mér=frekt krakkarassgat. Það gefur auga leið eiginlega, hið fyrrnefnda er foreldrið sem veit og hitt barnið sem á allt eftir ólært.

Ég hef nefnilega heyrt því fleygt að maður þurfi bara að rifja upp, maður viti nú þegar svarið og svörin, verði bara að hlusta og vera opinn.

Mér finnst ég nú svo galopin þessa dagana að það er eiginlega eins og ég sé allsber en ekki með neinar hendur til að setja fyrir … naflann á mér. Klikkað.