Haustið komið og veturinn bara líka. Ég er alls ekki að fíla það… bara alls ekki. Fór í hina daglegu göngu hér í kringum húsið og eiginlega öll trén eru orðin berrössuð, allt laufið farið  og liggur í hrúgum á gangstéttinni.

Minnti mig á þegar ég var krakki í Vesturbænum. Götur fyrir ofan Hringbrautina voru ævintýralega langt í burtu og mér fannst ég vera orðin næstum fullorðin þegar ég vogaði mér þangað.

En þar voru garðar, og eru sennilega enn, með svo ótrúlega flottum gróðri, risa trjám og t.d risastórt gullregn í einum garðinum. Ó þvílík fegurð!

Svo um haust safnaðist svoleiðis saman laufið og það svo yfirnáttúrlega fallegt á litinn að ég stóðst ekki mátið að vaða í lauf hafinu, dansa þar í gegn á kínaskóm og með húfuna ofan í augum.

Ég hef bara alltaf verið svona. Hugfangin af stórum gömlum trjám og hrúgum af heyi og laufi og viljað vera klædd eins og Leppalúði. Það hefur ekkert breyst, ekki frekar en að það er öruggt að tíminn líður og það verða árstíðaskipti.