Gleðilegt nýtt ár allir saman. Við áttum hér góða jólahátíð og áramótin voru ljúf í faðmi okkar sjálfra. Fengum hingað Jóhannes mág minn um jólin og erum sammála um að það væri leiðinlegt eyða jólunum “bara” við, þ.e að fá engan í heimsókn til að njóta jólanna með eða fara eitthvað sjálf.

Hvernig á ég að segja þér að þetta ár er búið að vera mér ógeðslega erfitt án þess að ég eða bloggið mitt líti út fyrir að vera þunglyndislegt og svakalega leiðinlegt og niðurdrepandi? Er furðulegt að það sé það sem ég hef áhyggjur af þegar ég vil deila með þér að mér leið ekki vel árið 2015?  Getur kona sett svona fram án þess að verða dæmd úr leik?

Eiginlega er ég svolítið skúffuð strax á 2016, ég hafði eiginlega búist við að strax 1.janúar myndi sólin byrja að skína og ég myndi geta andað léttar, en það er ekki svo. Hér er húrrandi kalt.. og ekki nóg með það heldur þá er rok líka. Mér stendur sannarlega ekki á sama. Þar fyrir utan þá var til allt of mikið nammi þann 1.jan, svo ég gat ekki strax byrjað að efna loforðin til sjálfrar mín. Ég verð að bíða þar til nammið er búið.

Reyndar ef ég hugsa um það þá finnst mér öll ár vera erfið og er alltaf mjög tilbúin til að byrja nýtt ár, eins og líðan mín muni af einhverjum töfrum breytast frá einum degi til annars án þess að ég geri eitthvað í því sjálf… enda er það á dagskrá 2016, eins og alltaf, að reyna að vinna í sjálfri mér og komast áfram og yfir það sem truflar tilveru mína.

Þar kemur auðvitað betrunarlistinn inn. Ég, eins og 99% af mannfólkinu öllu, er í sjálfsbetrunarhugleiðingum. Ég deildi smá af betrunarlistanum mínum um daginn og hann í stuttu lítur svona út:

  • Peningar
  • Hugleiðsla
  • Hreyfing
  • Sköpun

Hreyfing og hugleiðsla

Eftirþví sem ég skoða þetta betur og upphugsa hvaða aðferðir ég á að setja í gang til að fá mig til þess að bæta þessum þáttum í líf mitt þá finn ég strax að það verður erfitt að koma því öllu fyrir í annars annasaman sólarhring… verandi með 4 börn, útivinnandi eiginmann og eigið fyrirtæki sjálf.

Ég er búin að ákveða að prufa sund sem hreyfingu. Mér hefur alltaf þótt gott að synda. Reyndar kemur mér á óvart að það er hellings sundmenning hér. Í hinum venjulegu sundlaugum, sem líkjast Sundhöll Reykjavíkur, þ.e eru innilaugar með barnalaug, er bara fínt að vera. Það meira að segja kostar minna oní heldur en á Íslandi, umreiknað að sjálfsögðu frá dönskum yfir í íslenskar. Þetta á ekki við fansí sundlaugar með heitapotti sem verður að ríma á 15 mín fresti til þess að þrífa hann, heldur venjulegar danskar sundlaugar, sem eins og áður sagði, eru innilaugar sem eru eins og Sundhöll Reykjavíkur.

Ég hugsa að stærsti þröskuldurinn að stíga yfir í sundinu verði að nr. 1 að koma mér af stað og nr. 2 að halda út að vera á sundi í 30-60 mínútur bara með mér og hugsunum mínum. Og ekki að gera neitt annað á meðan ég syndi nema að synda.. ekkert að hlusta á í leiðinni, ekkert að horfa á í leiðinni.. og ekkert að plana í leiðinni, held ég myndi mjög fljótlega drekka hálfa sundlaugina og kafna ef ég færi að hugsa um annað en sundtöki og að draga andann á réttum tíma. Ég held ekki að það verði erfitt að synda, ef ég byrja t.d á 500m og vinn mig upp þaðan. En hvenær á ég að komast í sund? Og hvernig á ég að komast þangað án þess að hafa sammara yfir að ég sé ekki heima hjá mér að gera það sem þarf að gera þar heldur bara eitthvað að synda?.. ég veit btw að þetta er ekki réttur hugsanaháttur, ég hef hann samt. Og hve oft ætti ég að fara.. er líklegra að ætlunarverkið takist ef ég fer alla daga eða ef ég ákveð að fara bara t.d 3 í viku?

Datt þá í hug, til þess að flétta saman hreyfingu og hugleiðslu að ég myndi nota sömu tækni í sundinu og í yoga, að hugleiða á hreyfingu. Það hefur gefist mér mjög vel. Áhugavert að prufa það með sundi, þar sem ég get ekki stundað yoga.

Peningar

Þarf að ræða peningana sér. Er ekki til tútoríal einhverstaðar á netinu sem kennir fólki að eiga peninga og nota þá?

Sköpun

Ég er ekki búin að ákveða hvaða nákvæmlega sköpun ég ætla að taka mér fyrir hendur þannig séð, held pottþétt áfram að flauta en langar að gera meira í höndunum. Eitt af markmiðum ársins er að minnka garnbúnkann.

Hér verð ég reyndar að gefa sjálfri mér prik því ég byrjaði fyrir áramót á þessu loforði til sjálfrar mín. Ég er þegar búin með bolinn og ermar á lopapeysu sem ég hef síðan ætlað mér að selja.

Segjum það í bili.