Sjúkdómarnir Frestunarárátta og Ótaminn hugur er ekki góð blanda. Flestir kannast við Frestunaráráttuna sem felur í sér að hinn sýkti kemur ekki rassi í verk og fái sjúkdómurinn að vaða uppi þá endar með að hinn sjúki fari ekki einusinni í bað eða ef kona, setur ekki einusinni upp andlitið á morgnana (þú veist, þvo andlit, klína kremi á það og svona.. amk fyrir okkur yfir 30). Ég veit ekki hvernig þetta lýsir sér fyrir menn því ég er ekki einn slíkur.

Ótaminn hugur er það ástand þegar ekki fæst friður í kolli. Það er að segja, það er ekki sekúnda í pásu keyrslan er svo ýkt. Þetta hefur í för með sér ekki eina heila hugsun heldur  mörgþúsund brotabrot af hugsunum. T.d gæti ég verið að hugsa um að kaupa klósettp, svo þarf að ge, úbbs gleymdi að ná í, hvar er rauði bolu, hvenær var aftur spilatí, sjitt hvað mér, hvað ætli sé að gerast á Facebo, jæja best að sækja krakkana (stendur upp og smyr hrökkbrauð), vá hvað ég þyrfti að hætta að bor, ætli nýjasti Grays, best að skri, blo, sækj, kveik, hrin, brjó, hen, spi, nót, sen, sm, te, ma, dr, v, h, e, b, m, ss (sofa snemma). Þetta var dæmi um yfirborðshugsanir sem ég hef í tengslum við að fresta því sem ég þarf/ætla/vill gera, og allar þessar komu upp á nanósekúndu.

Aðrar hugsanir, dýpri týpan þá, eins og “hvað á ég að gera við líf mitt”, “hvað átti þetta að kenna mér”, “mér finnst ég vera að drukkna”, “hvað eru aðrir að hugsa”, “hvað eru aðrir að hugsa um mig”, “hvenær verð ég rík” og þar fram eftir götunum eru að ég tel hugsanir á millistigi, en þar sem allar þessar hugsanir og allar þær sem ég taldi uppá undan spilast saman á nanósekúndunni, þá gæti útkoman orðið eitthvað svona ” mitt líf er að kenna mér að drukkna í öllu því sem ég held að aðrir séu að hugsa” og undir hljómar “þú átt eftir að þrífa klósettpappír og gleymdir rauða bolnum þínum, hvenær sjitt?, Facebook krakkar í hrökkbrauði sem ég ætla að borða Grays, best að sækja kveikhrinbrjó og henspinót, sensmtemadrvhebmss.

Rétt hjá þér! Þetta er kór sem meikar engan sens.

Það eru fleiri lög af hugsunum en ég nenni ekki að tala um það. … það er kannski aðeins of skelfilegt að blurta því út úr sér bara sísvona á bloggi einu útí bæ.

En útaf því að kórinn í hausnum syngur svona falskt get ég ekki haft Mig í að framkvæma neitt. Það er því enginn, og síst af öllu ég,  getur skilið bullið sem er að gerjast þarna uppi.

Þannig hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Frestunarárátta er kannski bara afleiðing ruglhugsana sem Ótamin hugur leiðir af sér. Ég hef ákveðið að kalla þennan sjúkleika AthyglisFrest sem samheiti yfir báða.

Allavega, þá hef ég verið að pæla í hvernig er hægt að fyrirbyggja og hætta við að þjást af Frestunaráráttu.

Mér hefur ekki dottið neitt í hug og það er útaf því að í augnablikinu hef ég ekki stjórn á eigin hugsunum. Er ekki bara AthyglisFrestur  ýkt erfiður sjúktómur að fást við? Lækningin felst í að framkvæma en það verður aldrei úr því, því sjúklingurinn frestar stöðugt því sem þarf að gera.

Ég er farin að halda að maður þurfi að græja eitthvað í sinni undirmeðvitund varðandi þetta. Ég ætla að tékka á því… við tækifæri.