Ég, þar sem ég hugsa jú bara um eigin afturenda, hef ekki leitt hugann að því að amma og afi hafi jú eitt sinn verið börn og líka á mínum aldri. Það er meira að segja líka erfitt að ímynda sér að mamma og pabbi hafi verið á mínum aldri ekki fyrir svo löngu.

Hér er jú mynd af ömmu Hlíf og afa Tomma. Afi heldur á Smára frænda, sem er eins og snýttur úr nös.. svo ég tali ekki um Otra, einnig snýttur, og amma þar við hliðina. Fyrir ofan ömmu standa Sigga frænka og Víðir frændi, ég greini það svoleiðis að Emil, eldri sonur Víðis sé líka snýttur. Þarna er svo líka Pálína frænka en mér finnst hún einmitt líka vera snýtt af ömmu það er að segja. En dásamlegt að sjá. Þarna er líka fleira frændfólk mitt en lengra aftur eða út til hliða.

Mér finnst ég ekki vera svona snýtt. Auðvitað er ég oft lík foreldrum mínum og það fer oft alveg eftir því hvort foreldri mitt fólk hefur séð, hvort það telur mig vera líka mömmu eða pabba.

Fyrsti skóladagurinn var í dag og það var líka alvöru mánudagur, sem þýðir fjarvera frá heimili frá fyrir átta til eftir átta..hehe. Þessi önn lítur ágætlega út. Vona að ég nái að vera í skólanum.

Stutt í að heitir pottar um allt land fái að njóta mín..hehe