Ég komst að því í gær að ég er orðin alvöru móðir. JÁBB, hvorki meira né minna! Þó ég sé búin að gegna þessu starfi, með mismiklum þroskamerkjum, í nær 10 ár, þá náði ég fyrst að verða alvöru móðir í gær.

Nú er það þannig að ég er tölvufrík hin mesta, vinn við vefhönnun, er menntaður margmiðlunarhönnuður og lifi vart dag nema að kveikja á tölvunni. Já og nota myndavél og gsm síma. Ég er í alvörunni spennt yfir því að ég sé að fara að kaupa internet, sjónvarp og síma af öðru fyrirtæki en ég er með núna, því það kemur hraðara internet og öðruvísi sjónvarpsstöðvar (ég reyndar horfi aldrei á sjónvarpið..veit ekki afhverju ég er svona spennt yfir því). OG heimasími! Slíkt hef ég ekki haft í næstum 3 ár.

Mér líður betur að fá nýja tölvu heldur en að kaupa mér föt.

Hvernig þetta tengist því að ég er í fyrstaskipti alvöru móðir er svona: ég veit ekki, né nenni að læra, hvernig á að tengja PlayStation tölvu Búnglingsins við sjónvarpið og spila í tölvunni dvd mynd.

Það er útaf þessu sem ég er alvöru móðir. Alvöru mæður kunna ekkert á sjónvarpið! Sjónvarpið er sem skrímsli, fyrir þeim, sem situr þarna, svart á daginn og dáleiðandi restina af fjölskyldunni á kvöldin. Sjónvarpið er eitthvað sem hægt er að vera reiður við, sýni það ekki góða dagskrá og grenja fyrir framan sé þar góð drama. Sjónvarpið er næstum því eins og sjötta persónan á heimilinu (gefið að þú eigir jafn stóra fjölskyldu og ég).

Ég hef nú stundum grenjað fyrir framan sjónvarpið. Og í þá daga þegar ég hafði það fyrir þvottareglu að þvo þvott í marga daga, eða ég þvæ reyndar þvott alla daga, eða sem sagt, safna margra daga þvotti saman í svo stórt fjall að smábörnin þá, sem í dag heita Sprengja og Búnglingur, ekki komust uppá það, þá hafði ég það þannig að þegar það voru þættir í sjónvarpinu þá braut ég saman allan þvottinn.

En þar sem ég glápi núna á mína þætti bara í tölvunni, þegar mér hentar þá hef ég alveg gefið upp að safna í þvottafjall og njóta þess að brjóta saman í kósýheitum yfir sjónvarpinu.

Úff hvað maður getur verið bilaður á köflum.

Svo biluð að ég get ekki “bara” horft á sjónvarp. Ég get ekki bara setið og bara horft á sjónvarp. Það gerist bara ef mér líður þannig að ég geti ekki gert annað en legið, annars muni hausinn springa eða allt sem ég át þá um daginn hrökkva annað hvort á ofsa hraða uppúr mér eða hrynja niður úr mér eins og eldingu væri niður lostið. Þannig að aðeins í tilfellum veikinda (sem eins og góðir áhorfendur þekkja, er nánast aldrei) get ég, frú Bústýra, horft á sjónvarp án þess að aðhafast nokkuð annað í leiðinni.

Ef ég neyðist til að horfa, þá verð ég að prjóna, lesa (já..), teikna, brjóta saman þvott eða vera í tölvunni í leiðinni.

Svona er þetta nú.

Annars hef ég verið að gera skemmtilega hluti, að mér finnst, yfir á nitta.is. Þar sem í gær var dagur 29 í ársáskroun minni á sjálfa mig. Kíktu á það! Í kvöld byrjar svo annað þema því í dag er jú byrjuð Góa. Hér er sól í tilefni þess og ekkert eins kalt og hefur verið, það er svo GOOOOOTTTT.