Það hefur auðvitað verið mun sársaukalausara að koma sér “inní landið” heldur en þegar við komum hingað árið 2007. Þá einkenndust sumarheitir dagarnir af ráðviltum Íslendingum sem hvorki skildu stakan staf né eitt einasta sagt orð. Ég skrifaði marga pósta um það og þá sérlega samskipti mín við símafyrirtækin og kannski smá um ólukkukonur á Skjaldbökugötu.

Í dag fórum við hinsvegar og ætluðum að greiða smávegis í banka. Í venjulegum banka og þar sem ég hef hingað til komið, þá, þegar maður gengur inní sjálfan bankann, opnar maður hurð, eða hurðin opnast af sjálfusér fyrir mann og maður gengur inn, dregur afgreiðslumiða og bíður í sínum eigin þönkum, væntanlega þungum þar sem maður er jú í bankanum.

Nú erum við komin upp að bankanum sem við þurftum í og sjáum okkur til mikillar undrunar að það verður  að opna útihurðina með debet eða kreditkorti. HA. Og okkur til enn meiri furðu þá verður að bíða þar til útidyrahurðin opnast, þar til maður má endurtaka  leikinn á innidyrahurðinni.. s.s opna hana með korti, í þar til gerðum kortalesara að sjálfsögðu.

Við fengum að vita, eða sáum að það stóð á plaggötum upp um alla veggi að þetta væri banki sem væri varinn fyrir þjófum. Nú, við búin að klúðra okkur inn fengum síðan afgreiðslu. Þá kom í ljós að það er ekki hægt að greiða reikninga með peningum þarna.. í bankanum.

Leyfðu mér að endurtaka. Það er  e k k i  hægt að borga með peningum í bankanum. Bankinn tekur ekki við fé.

Ég varð auðvitað rasandi hissa og hváði og fussaði, hvað í fjáranum ég ætti þá að gera?

Það er nefnilega þannig að við getum ekki skráð okkur inní landið fyrr en leigusamningurinn okkar byrjar. Og það er ekki hægt að gera neitt ef maður á ekki gulakortið (staðfesting á því að maður eigi lögheimili í dk).. ekki einusinni getur maður keypt sér plast strætókort sem hægt er að fylla á eins og ef um símafrelsi væri að ræða.

Þannig að:

  • Enginn leigusamningur: engin kennitala og ekkert gult kort
  • Ekkert gult kort: þú ert ekki í Danmörku
  • Þú ert ekki í Danmörku: þú getur ekki búið til bankareikning
  • Þú getur ekki búið til bankareikning: þú getur ekki millifært
  • Þú getur ekki millifært og vilt borga með peningum bara: þú verður að fara á… wait for it,  w a i t    f o r    iiiiit!

P Ó S T H Ú S I Ð.

Jebb. Hún í bankanum sagði að við gætum greitt þetta gírókort á pósthúsinu og að pósthúsið væri hjá Kvickly. Við auðvita rúlluðum í Kvickly og þar hittum við fyrir þurrustu þurrkuntu sem ég hef á ævinni hitt og þó hef ég átt í töluverðum samskiptum við LÍN og sýslumannsembættin útum allt land.

Hún gargaði, þegar unga afgreiðslustelpan spurði (að ég held hálf stjörf  af hræðslu við yfirkuntuna) hvort það væri hægt að greiða gírókort hjá þeim,  NEJ. Og ekki orð um það meir. Ég þráaðist við  og sagði að hún í bankanum hefði sent mig hingað. Ðats wgggroooóng (með dönskum reykinga hreim). Og út fórum við alveg ekki búin að ganga frá greiðslunni sem við eiginlega þurftum að greiða í dag og ekki sekúndu seinna.

Þetta lagast allt á mánudaginn. Þá fáum við íbúðina okkar og getum hlaupið niður á fólkeregisteríeð að skrá okkur inn.

Í allt öðrum fréttum.

Fermingarfötin mín eru komin aftur í tísku. Sjokkerandi!

Það er þessi á gínunni númer 3 frá vinstri.

Það er þessi á gínunni númer 3 frá vinstri. Myndin er tekin á Købmagergade á leið í vinnu núna áðan.

Ég var meira að segja í svipuðum skóm. Það sem ég var ekki í er bolurinn, heldur var ég í blússu með víðum ermum. Sú var tíðin.

Næstu myndir eru fyrir þig Katrín. Ég var að ganga þarna framhjá þegar við fórum með Fagra í Gerbrantsskólann.

jansvej

jansvej-hurdin

Góðar stundir bara.