arna-i-badi-i-bala

Já litla Blondíbína. Ég verð að árétta að mér þykir ekki meira vænt um hana en hin börnin, svona útaf því að bloggið mitt og allir samfélagsmiðlar sem ég er “á” eru útatað í myndum af henni og öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Nei, ég elska þau öll jafnt, alveg eldheitt. Hin þrjú eru bara svo lítið heima. Orðin svo gasalega upptekin.

Var ég búin að deila því með ykkur hvað er heitt? Ég á ekki hitamæli og veit ekki hvað er heitt, en það er heitt og eiginlega of heitt til að vera úti með Bjútíbínu. Fór samt, í samviskubitskasti yfir því að vera svona lítið með hana annarsstaðar en inní þessari íbúð, út í gær og var þar í að ég held korter. Þá var barnið komið með eldrauðar kinnar og orðin alveg steikt. Þvöl með sólarvörn og sand fastan í vörninni. Ekki heppilegt. Þá fórum við uppá svalir í semí skugga í bað í balanum. Bæði til að kæla og til að ná öllum sandinum af.

Það er held ég í kringum 28 til 30 gráðu heitt. Það er svo heitt að mér dettur ekki til hugar að vera í nema max þremur spjörum, nærbuxur meðtaldar.  Var að hjóla um áðan niðrí bæ og lenti fyrir aftan dömu, sem sennilega er á mínum aldri. Hún var líka bara í þremur spjörum. Nærbuxur ekki innifaldar. Hún var í hjólabuxnasokkabuxum og engum nærbuxum. Þú gætir spurt hvort gæti verið að hún væri kannski í g-streng. Nei. Það var hún ekki. Það sást nefnilega mjög greinilega að hún var allsber undir þessum brókum sem hún var í. Kannski var henni of heitt og hún bara meikaði ekki að vera í nærbuxum…hvað veit ég. Sjálf hefði ég frekar kosið að vera í nærbrókinni en sleppa yfirbuxunum.

Það ætti ekki að koma lesendum mínum á óvart að ég elska að hjóla um bæinn. Að hjóla um bæinn í þessu veðri er hreinasta dásemd. Allir lykta ótrúlega vel. Kannski er það hitinn sem gerir að verkum að líkamslyktin af fólki er megnari. Nú er ég ekki að tala um þá sem lykta eins og áfengislátinn róni sem hefur pissað pínu á sig.. aftur. Nei ég er að tala um bara venjulega fólkið sem hjólar um bæinn, sem hefur fyrir því að þrífa sig dags daglega.

S.s góð lykt af öllu fólkinu. Píur í pilsum og peyjar berir að ofan eða í hlýrabol. Konur í sumarkjólum og menn með sólgleraugu. Mér finnst eiginlega mannfólkið vera meira hot á sumardögum en vetrardögum.