Einmitt.. svona litur þetta nefnilega út þegar fólk er að standa í flutningum..

Já já, allt dótið aftur í kassa. Hvernig nenni ég þessu?

Nenni þessu á fyrirheitum um betri íverustað og vonandi í lengri frekar en skemmri tíma.

Vegna þessara fyrirætlana og útaf því að íbúðin sem við förum í er stærri og í ALVÖRU með hjónaherbergi fyrir okkur hjúin þá þurfum við nokkra hluti.

Við ÞURFUM ísskáp. Hann má alveg vera notaður sko, en ekki ógeðslegur og ekki eins og ef við værum einbúi, við erum 5.

Við ÞURFUM líka svosem eins og eitt rúm fyrir eina manneskju. Við spáum andláti rúmsins sem Sprengjan sefur í og þurfum því að fá annað fyrir hana. Hún getur sofið á allskonar rúmum, en ekki skítugum rúmum og ekki í rúmi fyrir 2 ára.

Það sem við “ÞURFUM” er (og nú kemur listi):

  • Þrjú skrifborð með skúffum til þess að setja í krakkaherbergin.
  • Eitt skrifborð með skúffum fyrir mig, það má vera alveg frekar stórt, eða borðsvæðislega mikið skirfborð (ég mun samt líta alveg við borðum sem ekki hafa skúffur).
  • Fataskápur fyrir fullorðna, s.s með hillum, skúffum og hengi. Mér finnst ég vera of fullorðin orðið til að nenna að vera með einhvern klínings fataskáp.
  • Bókahillur, eða einhverjar aðarar skemmtilegar hillur.
  • Borðstofuborð og stólar.
  • Lampi, eða lampar.
  • Gardínur
  • Góður alvöru skrifborðsstól. Ég er búin að vinna við tölvur núna síðan 2007 og hef setið á eldhússtól án setu, þremur gerðum af skrifborðsstólum skilgreindum af IKEA (ekki alltaf satt að þeir séu skrifborðsstólar) og nú á plaststól fyrir börn með koddanum mínum í. Mér finnst ég líka í þessu tilfelli vera nógu fullorðin til að fá mér alvöru sæti við vinnu mína.

Ég man ekki hvort það er fleira sem okkur vantar, en ef þið liggið á einhverjum húsgögnum þá erum við opin fyrir öllu. Er ekki bara furðulegt að við fylltum 20feta gám á leiðinni frá Danmörku, alveg sneisa fullur, en vantar samt afskaplega mikið í búið. Merkilegur fjandi.