Ég hef um árabil, eða alveg síðan ég byrjaði að búa sjálf eða í tæp 13 ár verið haldin miklu hreingerningar efna æði. Kannski er það komið til af því að ég lyfti aldrei litla fingri þegar ég var á Hótel Mömmu að ég finn mig knúna til að þrífa mikið með allskonar efnum. Fyrir skömmu ákvað ég, eða (ég ætla greinilega að nota mikið af orðinu “eða” í þessum pistli..) þegar við fluttum frá Hvammstanga og ég komst að því að ég átti dobíu af hreingerningarefnum, að snúa á þennan skæða vana minn.

Ég sá þegar ég flutti þaðan að ég átti alveg 5 gerðir af gólfhreinsi efni. Eina mjög dýra sem átti að þrífa hið gasalega dýrmæta “næstum því eins og alvöru parket” plastparket sem dekkaði gólfin þar. Mér fannst á þeim tíma sjálfsagt að kaupa þetta efni fyrst við vorum nú að fjárfesta í svona líka miklu eðal plastparketi…svo varð ég eitthvað leið á lyktinni af því og keypti í kjölfarið 2 tegundir af ajax með mismunandi lykt, það er jú svo heppilegt að kaupa sér ajax þú getur notað það allstaðar, ekki bara á gólf. Þá keypti ég líka flúx parketsápu, það er tilkomið af því að mér fannst ég jú vera með alvöru parket og skúraði gólfið mitt af mikilli alúð. Síðast en ekki síst keypti ég tegund af náttúrusulli einhverju sem átti að vera æði gott fyrir náttúruna þegar ég skolaði notuðu skúringarvatninu niður í klósettið.

Þá hef ég notað cif, jif, skúrepúlver og allskonar skúringakrem (hver fann uppá því eiginlega…) til að rífa skítinn af t.d baðkari, sturtu og klósettvaksi. Þrír til fjórir hálfir svoleiðis brúsar eru nauðsynlegir á hvert heimili.

Efni til að þrífa klósettskálina eru nauðsynleg af auðsjáanlegum ástæðum, allavega þegar strákar eru í meirihluta heimilis og náttúrulega alltaf bara. Það skiptir mig miklu máli hvernig lykt er af því og þessvegna hef ég oft á tíðum átt kannski 3 til 4 flöskur af svoleiðis því það er alltaf að koma nýtt svoleiðis í búðinni, annað hvort ný lykt eða með extra bakteríu útrýmandi áhrifum.

Svo hafa allskyns pennastriks,rauðvínsbletta,annarrabletta og lyktar..eyðandi verið keypt. T.d Leysigeisli, mr. Proppé (eða hvað hann heitir) og fleira útrýmandi. Það var reyndar kaldhæðnislegt að þegar við vorum nýbúin að kaupa ofan nefnt parket þá tók Gvendi fram rauðan Artline tússpenna (þá sem ekki eru ætlaðir börnum) og vandaði sig mjög við að strika með honum í allar raufarnar á parketinu.. að ég átti ekki neitt svona leysigeislaefni og neyddist til að hringja í mömmu L og biðja hana um að bruna yfir með Leysigeisla svo ég gæti tortímt tússinum. Geðshræringin alger, frábæra parketið ný komið á gólfið..og ég var nýbúin að þrífa blóð, svita og tár Bóndans af. (ég lýg náttúrulega með tárin, hann grætur ekki frekar en aðrir sannir karlmenn).

Og því ég er flutt í landið þar sem innfæddir hugsa ekki um annað en peninga og ég vill ekki stinga í stúf tók ég þá ákvörðun að kaupa ekki meira hreinsiefni fyrr en hitt af sömu tegund eða með sömu virkni er búið. Ég er búin að eiga einn gluggahreinsir í eitt ár..erða ekki merkilegt.

Hér er Hreinn
Um Hreinan
Frá Hreinsi
Til Hreinsis