Í beinu framhaldi af fyrri færslu þá langar mig að nefna að agave sýróp, sem all margir höfundar heilsubóka og heilsublogga raupa (hvað þýðir þetta orð annars?) um að sé það hollasta í bænum. Mikið betra en hvítur sykur og allt annað sýróp.

Við hin, sem ekkert vitum um mat eða hvernig hann er samsettur, erum alveg eins og slefandi hundar á eftir lyfrarpylsubita í von um að það sé í alvörunni til hollt nammi.

Þegar ég hugsa um það þá er ábyggilega mánaðarbyrgðir ef ekki meira í uppskrift sem hljóðar uppá 20 döðlur, 500 rúsínur og baðkar af agave sírópi (eða 20 döðlur, 1 dl rúsínur, fræ og hnetur (til að friða samviskuna) og svo 1-2 dl af agavesírópi). Allt blandað í múlínexinu og svo rúllað upp í kúlur…. kúlur sem á að vera gott að borða fyrir ræktina og á milli mála.

Heima hjá mér þýðir þetta bara að það er til dísætt nammi inní skáp og ég get ekki aðhafst neitt fyrr en það er búið og mér er alveg sama þó ég hafi hakkað það allt í mig því það kom úr heilsubók eða bloggi. Fuss.

Það sem ég rakst hinsvegar á og er alveg jafn dísætt, er uppskrift af þessum blessuðu kúlum, en hún inniheldur bara rúsínur, heslihnetur, kardimommur, vanilluduft og hampfræ. Engar klístraðar döðlur, eða þaðan af verra, fíkjur og ekkert síróp. Þetta helst saman eins síamstvíburar og smakkast svona líka vel.

Hvað er annars málið á öllum heilsubloggunum, að vera með mest og stærst úrval af sætindum og góðgæti til að lifa af tímabil dagsins sem maður breytist í sársvangan gráðugan slefandi úlf, sem lætur ekki segja sér fyrir verkum. Þar kemur agavesírópið inn og reddar málunum. Enda er það alveg það sama og að raða í sig fílakarmelum. Getur borðað eina heslihnetu með þeim, þá færðu ekki sammara.