Stundum mætti ímynda sér að heilasellurnar í heilanum á mér væru með fætur, sem þyrftu að ganga um í svakalega þykkri og stífri karamellu. Erfitt mætti ætla.

Útaf því að ég er með karamelluheila þá sá ég, þegar ég var að sækja myndir fyrir þennan bloggpóst að ég hafði sótt myndir, ekki bara einusinni heldur tvisvar, fyrir aðra bloggpósta en aldrei bloggað myndirnar.

Hér er því SVAKALEG runa af myndum. Mundu bara að ég er með karamelluheila og er ekki 100% viss að einhver af eftirkomandi myndum hafi einhverntíma lent í öðrum pósti. En þér þykir jú auðvitað svo gaman að lesa þetta þvaður að það mun reiknast þér til sem tvöföld hamingja.

2015-09-02 16.42.55

Byrjum bara á þessu. Svínaþarmar. Mér varð jafn um og ó og þegar ég sá í fyrstaskipti svínahala í plöstuðum baka í kælinum í búðinni. Þeir litu nefnilega út eins og þumlar af mannfólki sem höfðu verið skornir af við úlnlið.

Í hvað er þetta eiginlega notað?.. jú, það stendur á pokanum, í medisterpulsur. Mikið lifandis ósköp er ég fegin að hafa eiginlega aldrei verið fyrir svona pulsudrasl, sérlega ekki medisterpulsur.

 

2015-09-22 17.06.28

Svo gerðist þetta á ögurstundu. Þetta er snúran sem er, eða var ölluheldur, tengd við gírana á hjólinu mínu. Sem síðan þá eru ekki til staðar lengur. Frúarhjól með engum gír er svakalega þungt í hjóli. Ekki bara það heldur hef ég verið að slá því á frest (lesist: vonast til að Eiginmaðurinn muni laga án þess að ég biðji hann) að fá nýja slöngu í afturdekkið, þessvegna þarf ég að hjóla um með pumpu í körfunni og pumpa í dekkið í tíma og ótíma. Ég neyðist til að hugsa um þetta sem líkamsrækt, annars mun ég hætta að hjóla.

2015-08-24 15.22.44

Þessi tvö eiga ekki við þennan vanda að stríða. Hvaða barn er þetta eiginlega? Það verður að viðurkennast að hún líkist meira hinu stelpubarninu okkar, sem er í meira lagi hress (eða var amk, hér er svakaleg hormónamóða í gangi) og í meira lagi hreifanleg. Rólegur strákur, hress stelpa, rólegur strákur, hress stelpa virðist vera munstrið.

2015-08-29 20.38.51

Eitthvað kvöldið var hér videókvöld. Það er akkúrat ekkert merkilegt við að það hafi verið videókvöld. Eiginlega er sú aðgerð, þá sú að horfa á mynd saman orðin úrelt þar sem þau hafa aðgang að því að horfa hvenær sem er. Gelgjurnar títt búnar að sjá allar heimsins myndir og þar sem ég ræð ekki lengur yfir því hvað þau gera fyrir framan skjáinn þá hefur sú kósýstund sem hefur skapast við að allir sameinast yfir mynd, horfið. Nema þarna.

Ég man ekki alveg (myndin er tekin í ágúst) afhverju rúmið sem þau liggja á var í stofunni, eða hvort við ákváðum bara að draga það fram vegna þess að við erum offfisssíallí orðin of mörg til að passa í sófann í fyrir svona myndaglápsstellingar.

2015-08-09 16.16.15

Rakst á þetta í herbergi hins eldri um daginn. Hvað er eiginlega verið að undirbúa..?

2015-08-09 16.16.24

Þetta eru teikningar af slögnubúri!

2015-09-02 16.01.21

Fleira merkilegt. Hér í allan september var sirkus á túninu hér rétt hjá. Túnið er náttúrulega ekki bara eitthvað tún heldur svona garður þar sem eru leiktæki, göngustígar og fótboltavellir. Heitir held ég Byparken i Örestad. Með sirkusnum komu þessir úflaldar.

2015-09-02 16.01.05

Það er náttúrulega merkilegt útaf fyrir sig að sjá dýr sem ekki fyrirfinnast í þeirri náttúru sem kona býr í, en það er ennþá furðulegra að sjá þessi dýr í borgarumhverfi. Flottir úlfaldar samt.. eða eru þetta kameldýr, eða er úlfaldi og kameldýr það sama?

2015-08-12 14.25.00

Þetta fannst Eiginmanninum vera fullyrðing sem væri gleymt svo oft hér á heimilinu að það eina rétta væri að skrifa hana á krítartöflulengjuna sem límd hefur verið á hliðina á ísskápnum.

Einhver þeirra hefur sennilega ekki verið neitt svakalega sammála þessu.

2015-09-02 17.51.28

Við erum í þeim prósess að snúa við blaðinu á margan máta. Í marga mánuði núna hefur verið gerður matseðill fyrir viku í einu. Þetta var hausverkur á hverjum sunnudegi og satt best að segja er hvorki ég né hann manneskja í að halda svona úti. SAMT! Er alltaf jafn pirrandi að hafa ekki ákveðið fyrirfram hvað á að vera í matinn. “Hvað eigum við að borða í kvöld” er leiðinlegasta spurning í alheiminum.

Við ákváðum fyrir 2 mánuðum að prufa að gera mánaðar matseðil og testa aðferðina að versla fyrir heilan mánuð í einu.

Fyrsta verslunarferðin fyrir mánuð í einu tók 4 daga. Þ.e við sigtuðum út það sem vantaði miðað við mánaðarmatseðil og það sem við reiknuðum með að myndi þurfa að kaupa af hreinlætisvörum, uppúr tilboðsbæklinum sem koma hér í hús í hverri viku. Við fórum því í 4 mismunandi búðir til þess að versla það sem þurfti.

Ég er búin að þróa með mér mjög alvarlegan kvíða þegar kemur að því að nota launin mín. Ég veit í hverjum mánuði að þau eru ekki nóg og það er úber óþægilegt.

Við versluðum fyrir það sem jafngildir svona sirka 120.000 íslenskar krónur á þessum 4 dögum. Afhverju fjórir dagar? Jú, því á þessum tímapunkti var ég að vinna bæði allan daginn og líka allt kvöldið og Eiginmaðurinn líka að vinna allan daginn. Svo það var ekki tími til að fara í allar búðir á einum degi.

Það var sjokkerandi að versla fyrir svona miki í einu! Í mánuðinum keyptum við svo ferskvöru fyrir hverja viku, eða þegar það vantaði. S.s ekki fleiri stórar verslunarferðir heldur bara litlar.

Það sem kom í ljós var að þetta er svakalega þægilegt fyrirkomulag. Allir skápar alveg troðfullir. Það líkar mér vel. Báðir frystarnir troðfullir. Svo eiginlega, þegar eitthvað vantaði í mánuðinum, þá var hægt að “fara í búðina” í skápunum heima. Þetta fyrirkomulag finnst mér vera tímasparnaður og stressminnkandi. Ég veit að það er til fyrir allan mánuðinn matur og enginn þarf að svelta.

Við höfum þá gert þetta tvisvar. Í ljós kom að við kláruðum ekki næstum allt sem við keyptum í fyrrimánuðinum. Þannig að innkaupin fyrir þennan mánuð voru minni, en innihéldu líka aðrar vörur. Að minnstakosti hef ég komist að eftirfarandi:

  • Það er tímafrekara að ákveða hvað á að borða og versla í það frá degi til dags, mun þægilegra að eyða 2 tímum í að gera plan og innkaupalista einusinni í mánuði og þurfa bara í eina stóra búðarferð.
  • Það eykur á öryggistilfinninguna að geta bara sótt það sem vantar (ég hata að eiga engan pening og engan klósettpappír, það er ótrúlega leiðinleg staða) uppí skápana.
  • Ein venjuleg stærð af handsápu dugar okkur í 7 daga og tannkremstúpa fyrir okkur er sennilega svipaðan tíma að spænast upp, kannski frekar 10 daga.

Lengi lifi síðan Christiania hjólið sem okkur hefur áskotnast, þá þegar það hefur verið gert upp svo hægt sé að fara á því í búðina og hlaða.

2015-09-06 15.11.02

Talandi um mat. Við fengum rabbarbara gefins frá vinkonu minni hér í landi. Rabbarbarann hafði ég fryst en þegar við komum heim með fyrsta hlassið í fyrstu mánaðarinnkaupunum þá var ekki pláss fyrir hann. Sem betur fer eiginlega því Eiginmaðurinn bjó til þrennskonar rabbarbaragóðgæti. Þetta er eitt af því, rabbarbarapæ (held ég) með ís. JAMMÍ!

2015-09-21 10.29.42

Og allt annað sem snýr að mat og þessum viðsnúningi blaðs sem ég minntist á hér að ofan. Ég er á næringarnámskeiði sem snýr að því að næra sig frá hormónaójafnvægi. Skeggvöxtur (ég hef gripið til ýmissa ráða), bólur og sú staðreynd að skjaldkirtillinn minn er latur segir mér að í mínum kroppi sé um að ræða ákveðið ójafnvægi. Svo er ég líka að bæta á mig hraðar en ég kæri mig um.

Á námskeiðinu er mælt með að borða ekki sykur (í neinu formi, ekki einusinni ávexti), gluten eða mjólkurvörur til að byrja með. Mér hefur ekki tekist að halda mig við neitt af þessu sem átti að sleppa. Enda, þegar eitthvað er bannað, virðist mér vera enn meira í mun að láta það gerast, hugsanavilla eða mannlegt eðli, veit ekki hvort.

Það er síðan mælt með því að borða bara þrisvar á dag og borða sig þá sadda. Ég er alveg að brillera í því að fá mér stórt vatnsglas með sítrónu og örlitlu salti á hverjum morgni, sem og eggjaköku með húrrandi mikið af salati. Restina af deginum er ég enn að berjast við.

2015-10-04 17.02.39

Og svo fögnuðum við Sprengjunni sem varð 13 ára 5.október. Vegna þess að mánudagar eru í ár sá dagur í vikunni þar sem enginn ætti að gera plön um neitt annað en bara að lifa daginn af, þú veist, þessi dagur þar sem ALLT er að gerast í lífi allra á heimilinu. Hjá okkur eru allir nema einn útúr húsi á kvöldmatartíma og þessi eini sem eftir er, er ekki ennþá í neinu standi til þess að leysa Bústýruna af, enda er erfitt að fylla í hennar fótspor… s.s vegna þess að 5. október lenti á mánudegi þá fórum við deginum áður (bæting frá fyrri árum, þegar við fórum alltaf löngu seinna) út að borða að vali Sprengjunnar.

Hún valdi Burger King.

2015-10-04 17.03.21

Stækkar lýðurinn. Það er eitt sem víst er.

2015-10-04 18.02.28

Djöflast lýðurinn, líka eitthvað sem víst er. Við fórum auðvitað í ísbúðina eftir skyndibitann.

2015-10-04 18.02.55

Fíbblast lýðurinn. Líka eitthvað sem ég reikna með. Eina sem aðskilur núna Geðmund og okkur Eiginmann er að við erum mikið breiðari en hann, en hann hefur forskot á fótalengd.

2015-10-05 07.07.54

Morguninn eftir hélt partýið áfram og við framkvæmdum vora afmælisdagahefð sem er að vakna fyrir allar aldir og snæða góðan morgunmat og opna pakka.

2015-10-05 07.06.27

Gjafabréf í snyrtivörubúð. Ekki verra fannst minni.

Á þessum dögum kemst ég ekki hjá því að hugsa hvað þau hafa breyst eða ekki breyst í gegnum árin. Þessi hefur tekið algjöra U-beygju hvað varðar áhugamál meðan hinn stóri, þarna við hliðina á henni er alltaf samur við sitt.