Langar í saumavél.

Ég verð 35 ára eftir nokkrar vikur, innan mánaðar m.a.s. Ég fagna því að verða eldri, finnst ég vera orðin svaka vitur og finnst eins og kroppurinn minn sé stórkostlegari en hann hefur verið. Hann hefur kannski alltaf verið stórkostlegur, en útaf því að ég er vitrari, veit ég núna að hann er það, en vissi það ekki áður.

Mér finnst það fagnaðar efni að vera 35, vera orðin vitrari og alveg ég sjálf. Það er eins og það hafi tekið 20 ár, eða síðan ég var 15 ára að verða ég sjálf aftur. Eða kannski jafnvel 25 ár. Fólk er það sjálft þar til hormónar taka yfirhöndina kannski uppúr 10 ára (eymingjans börnin) og svo lendir maður ekki fyrr en löngu seinna. Mismunandi seinna. Ég er lent hinsvegar, núna, þegar ég er að verða 35 ára. Lent en samt á algjöru flugi. Réttupphend sem skilur hvað ég er að fara.

Að efni póstsins. Mig blóðlangar í saumavél. Brenn jafnvel í skinninu hvað mig langar mikið í saumavél. Ég veit að ég keypti eina þúsund ára á Bland en hún virkar ekki. Hún var bara flott á instagram myndinni sem ég sendi frá mér. Það er ekki hægt að sauma með henni.

Mig langar í einhverja sæta og góða  saumavél. Mig langar að sauma á mig föt, á krakkana föt, sérstaklega kannski smábarnið, ég held ekki að ég fengi leyfi hjá þeim eldri til að sauma á þau fötin, eða þau myndu held ég ekki fara í þau.

Ég myndi sauma s.s á mig og Bútíbínu, gardínur, sængurver og koddaver. Gera við göt á brókum og bara fleira og fleira sem ég er með uppfullan hausinn af.