Hvort það er útaf því að ég er komin 6 mánuði á leið (sjitt hvað tíminn flaug) og er í heimilisham eða hvort það er útaf því að mér bara finnst þetta núna þá finnst mér að fólk eigi að eiga mölla á því að vinna heima.

Mér finnst ekki að barnlaustfólk eigi að vera heimavinnandi, þegar ég tala um heimavinnandi er ég að meina við heimilisstörf og húsverk, ekki að reka fatabúð á internetinu bara heima hjá sér.

Mér finnst að fólk sem á börn eigi að geta valið að vera heimavinnandi eftir að þau koma í heiminn. Finnst þá auðvitað þrengt verulega að mér þegar fæðingarorlof sem mér stendur til boða er tæknilega séð bara 3 mánuðir. Svo eigum við saman 3 mánuði og svo á hann 3 mánuði í fæðingarorlof. Það skýtur bara svo skökku við, finnst mér, ef kona vill hafa barn á brjósti að barnið eigi mögulega bara að vera á þeirri fæðu í 3 mánuði. Svona miðað við að það er í dag mælt með að mannsveskjan sé mun lengur á túttunni en þetta. Þessvegna held ég nú að yfirleitt taki konan þessa þrjá sameiginlegu mánuði.

Ætlaði samt ekki að ræða fæðingarorlof sem slíkt, það er hægt að lesa nóg um fáránleika þess fyrirkomulags annarsstaðar á netinu.

Nei það er eftirleikurinn. S.s þegar fæðingarorlofi líkur er barnsrassinn bara 6 mánaða, kannski 9 mánaða ef hitt foreldrið ákveður að fara í orlof í beinu framhaldi. Pínulítil ósjálfbjarga manneskja, ekki einusinni búin að vera til í ár, er þá umsvifalaust sjippað út eftir klukku á morgnana og kemur ekki heim í faðm fjölskyldunnar fyrr en allur dagurinn er liðinn. Einmitt þegar líka þarf (nema þú viljir vaða svangur/svöng  í mannaskít heima hjá þér) að elda, þrífa og allt hitt sem þarf bara að gera.

Þessvegna finnst mér að það ætti að vera einhverskonar kerfi í kringum fólk þegar fæðingarorlofi líkur og náttúrulega eitthvað í kringum kerfið þannig að það yrði ekki misnotað.

Las grein á netinu um daginn að heimavinnandi fólk ætti ekki að vera með undir 560 þúsund krónur á mánuði, skv. einhverjum reiknireglum og tímafjöldum. Finnst einmitt að tekjurnar fyrir heimavinnslu ættu ekki að vera t.d eins lágar og atvinnuleysisbætur eða aðar bætur, því þetta er vinna ekki örkuml.

Auðvitað væri ekki vitlaust að það væri til eitthvað nám (sem er tekið eftir framhaldsskóla) sem fólk yrði að taka til að getað unnið heimavinnu. Ég ímynda mér að áfangar sem í náminu gætu verið væru á þessa leið:  eldamennska (ELM 103), launaseðlar og skattauppgjör (LOS 103), sparnaður og nýtni (SON 103), þrif og hreinlæti (ÞOH 103), heimilisrekstur og innkaup (HOI 103), umönnun barna (UÖB 103), umönnun fullorðinna og eldri (UFE 103), handavinna (prjón, saum, hekl, smíði) (HAV 103),  bílar og reiðhjól (BOR 103), verkefnastýring og skipulag (VOS 103) og eflaust eitthvað fleira. Reiknast mér til að þetta séu um 30 einingar og mætti ljúka þeim ásamt einhverju vali á tveimur önnum, þremur ef þú ert latur skólamaður.

Nú, þegar einn getur veifað prófskírteini og sett starfsheitið “Rekstrarstjóri heimilis” við nafnið í símaskránni og börn eru fædd, þá væri hægt að sækja um að starfa á eigin heimilisfangi. Kannski þyrftu að vera reglur um hve lengi fólk getur valið að vera rekstrarstjóri heimilis og hvort báðir aðilar ættu að geta valið það… veit ekki. Er ekki viss um, nema fólk eigi 10 börn undir 10 ára að það sé verkefni fyrir tvo að halda heimili í þessu samhengi.

Að þeim sem munu halda að heimavinnandi manneskja sé með Guiding light og Nágranna í botni alla daga og liggi alltaf flöt með tær uppí lofti í sófanum, ykkur hef ég þetta að segja:

“Þú hlýtur að vera latasta og heimskasta manneskja í heimi ef þú getur ekki gert þér grein fyrir hve mikil vinna það er að halda heimli”

Í vikunni, fyrir nokkrum vikum, varð dóttirin veik og ég notaði einn daginn í að þrífa húsið og þvo þvott, gefa okkur tveimur að borða og bakaði brauð. Í þetta fór heill dagur frá klukkan 7:30 til löngu eftir kl. 21. Það gerir vinnudag uppá 13 og 1/2 tíma. Mér er alltaf minnisstætt orð eins tónlistarkennara míns, sem kom frá Póllandi og var einn sem skildi íslenskt tónlistarnám  alls ekki og var ekki í takt við samfélagið, en hann sagði að hann leyfði konunni sinni aldrei að þrífa því þetta væri “hard work” og hard work væri bara hreint ekki fyrir konur heldur menn, sem væru burðugri í kroppi til þess arna. Það fannst mér rómantískt og bera merki um að honum þætti það vænt um konuna sína að hann vildi ekki að hún ofreyndi sér í þrifunum. Nb. þau voru ekki með börn með sér þar sem þau bjuggu. Mér fannst þetta ekki bera neinn vott um kvenfyrirlitningu. Konur sem kynnu að taka því þannig að “hard work” sé ekki fyrir konur eru sennilega með einhver einkenni minnimáttarkenndar eða eitthvað. Ég er ekki að segja að konur geti þetta ekki yfirhöfuð. Sjáið bara, allir menn eru í hreinum fötum og búa á hreinu heimili.

Veikindadagurinn sem ég eyddi í að þrífa minnti mig um margt á laugardaga, en þá hef ég einmitt notað til að þrífa, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að vinna 100% vinnu (ég veit að ég fer frjálslega með staðhæfinguna um að eitthvað sé “ekki hægt”), sinna skólagöngu þriggja barna, fæða fjölskyldu og sjá til þess að þau hafi hrein föt daginn eftir á bara 3 klukkutímum, eða frá kannski 17-20, eða 16-20. Þessvegna safnast upp ferlega mikið af verkefnum yfir vikuna sem, aftur, ef þú vilt ekki vaða um svöng/svangur  í mannaskít), verður að gera.

Títtnefndur veikindagur var sirka svona:

7:20: koma drengjum í skólann fyrst stúlkubarnið var lasið* (*daginn áður er búið að þvo þau íþróttaföt og handklæði sem þarf svo þau fái ekki mínus í kladdann í skólanum og þurfi ekki að skammast sín fyrir að vera ekki með viðeigandi átfitt.)

 8:00: drengir farnir og stúlkubarnið og ég fáum morgunmat **  (**í morgunmatinn er auðvitað hafragrautur, ef það væri í talið í lagi að borða morgunkorn eins og Seríós alla morgna, myndum við eflaust gera það til að spara tíma.)

8:15: græja eldhúsið, að taka úr vél, setja í vél (uppþvotta), þurrka af borðum og annar frágangur nauðsynlegur í eldhúsi tekur um klukkutíma. Kannski alveg heilan klukkutíma því ég set í eina, hengi úr annarri og set í aðra þvottavél á meðan.

9:15: Þrífa klósettin (bansett að hafa tvö, en bara þegar þarf að þrífa þau). Allir sem ekki hafa neytt karlmenn heimilisins til að setjast meðan þeir míga vita að það er hland útum allt alltaf. Mér er alveg sama þó þeir standi. Í mínum haus eru það sjálfsögð mannréttindi að ráða í hvaða stellingu maður skilar af sér kúk og pissi.  Hengi upp úr einni og set í aðra þvottavél.*** (***Ég þreif sturtuna meðan ég var í henni sjálf, komst í sturtu þessvegna og sparaði helling af tíma.)

10:00: Við tekur tiltekt á efri hæðinni, sem hefur safnað stöflum af ryki. Þrífa barnaherbergi. Fæ stelpurófuna til að hjálpa mér, þar sem hún er ekki það lasin ennþá. Við tökum rækilega til í hennar herbergi. Í leiðinni tek ég til í hjónaherbergi og dreg larfa barnanna úr herbergjum, undan rúmum og uppúr dótakössum (börn!!) og set í þvottagrindina. Við erum í kasti og allir eiga að taka af rúminu sínu í leiðinni, yay, meiri þvottur. Hengi úr einni og set í aðra. **** (**** Ég veit afhverju það tók tvo tíma að ganga frá og þrífa í herberginu hennar, því ég ætlaði ekki að gera þetta allt sjálf, heldur vildi ég kenna henni að gera þetta uppá eigi spýtur. Ég græði á endanum, þó það sé ekki strax.)

12:00: Hádegismatur. Við gerum eggjabrauð og étum með bestu lyst. Ég er rétt búin að ganga frá úr uppþvottavélinni frá í morgun, hengja uppúr síðustu þvottavél og setja í aðra og ganga frá matnum og í uppþvottavélina aftur (guði sé lof fyrir þvottavélar) þegar Örverpið vindur sér inn um hurðina, svangur, eins og alltaf og ég verð að dúndra öllu á borðið aftur.

14:00: Örverpið er sent upp að taka til í sínu herbergi og ég hjálpa til. Á meðan ég hjálpa Örverpinu til, skipa ég eldri tveimur að læra heimavinnuna. Búnglingurinn kominn heim og getur fengið sér sjálfur að borða. Hengi upp úr einni þvottavél og set í aðra.

15:00: Búnglingur hefur borðað og lært og er þessvegna drifinn upp að taka til í hans eigin herbergi. Sjálfstæðið uppmálað heimtar hann að ryksuga og þrífa herbergið sjáflur. Ég kem auga á að hann hafi ekki tekið af rúminu sínu og bið hann að gera það. Hann rífur lakið af og drífur sig sem fjærst mér, kominn með leið á öllum þrifum.  Hengi uppúr einni vél og set í aðra.

16:00: Efrihæð er lokið með ryksugun og skúringum niður stigann. Hefjast þá þrif á neðri hæð, ég er þegar úrvinda og langar ekkert annað en að setjast í sófann minn með handavinnu í hönd, eða gera ekkert þessvegna. Leyfi samt öllum að fá sér kaffi, ekki dugar að þau séu bara svöng og ég nenni ekki að hlusta á vælið klukkutíma síðar þegar það er óbærilega langt í kvöldmat. Ég reyni auðvitað að éta eitthvað líka sjálf. Ryksuga öll góf á neðri, geng frá eftir kaffiátið og skúra forstofuna. Hengi upp og set í.

17:00: Allir eru búnir að læra, nema Örverpið sem þarf að lesa fyrir mig, hann gerir það meðan ég rumpa af enn einni tiltektinni í eldhúsinu eftir daginn.

17:30:  Græja þvottinn, nema núna brýt ég saman það sem ég hengdi upp í gær og hleyp með upp (hleyp.. segðu mér ekki draugasögur í björtu, auðvitað hljóp ég ekkert ég drattaðist með líkamann sem er að verða ansi þungur..var með andateppu þegar ég kom upp stigann og þurfti að setjast niður). Geng frá mínu, Eiginmanns og Örverpis, en með yfirlætissvip og þjósti skipa ég eldri að ganga frá sínum eigin fötum, ég sé búin að þvo þau, þurrka og brjóta saman. Merkilegt nokk, þá liggja þessi föt alltaf fyrir utan skápinn.. hvað er að þeim eiginlega?

18:00 :  Ég er svo búin á því (ef ég væri ekki þunguð þá myndi ég ekki vera svona örmagna)! Þríf klósettið niðri og bölsótast yfir öllu hlandinu sem safnast undir skálinni á þessu vegghengda klósetti, hvort er meira lekkert, hland á klósettfæti eða hland á gólfi?

18:30 : einum og hálfum tíma á eftir áætlun með kvöldmatinn, hendi ég fiski í rasp og bið Eiginmanninn að koma með kartöflur úr borginni. Ekki af því þær séu betri, bara hann var á bílnum.Eiginmaður fer út með hundinn.

19:30 : Allir éta.

20:00 : Við göngum frá, þrífum eldhúsið og börnin fara í sturtu. Koma svo niður  og fá að vera niðri til klukkan svona 21.

21:00 : Öllum krökkum er skipað uppá bað að tannbursta. Ég, því ég get spilað þungunarkortinu, fer ekki upp að tannbursta þau, heldur Eiginmaðurinn (múhahaha). Þau koma svona 5 sinnum á mann aftur niður. Halda líklega að þau séu að missa af einhverju. Hverju veit ég ekki, ekki nema það sé spennandi að horfa á mig steindauða af þreytu eins og slytti í sófa. Nei, það tekur óra tíma að knúsa alla og knúsa Hunda líka. Eiginmaðurinn fer út með hundinn.

22:00 : Ef við erum heppin þá er orðið hljóðlaust á loftinu. Venjulega eru það hlátrasköll og kjaftagangur sem heyrast að ofan, finnst svosem ekkert leiðinlegt að hlusta á það, þau þurfa auðvitað bara að sofa.

Eftir kl. 22:00 á svona venjulegum degi liggjum við bara fyrir. Hann þreyttur eftir vinnudaginn og vinnuna sem hann tók að sér þegar heim var komið. Ég þreytt eftir vinnudaginn sem rekstrarstjóri heimilis og þreytt eftir að búa til manneskju 24/7 undanfarnar vikur og mánuði. Hekla samt, útaf því að það er nýja æðið mitt, hann sofnar.

Hvar inní þessum degi, sem ég hefði annars eitt í vinnunni og bætt í staðinn við heilum vinnudegi í heimilisstörf á laugardegi (sem gerir 6 daga vinnuviku en ekki 5) áttum við að tala saman, hvíla, sinna áhugamálum og öllu því sem manneskjuna gæti langað að gera sér til bæði gagns og gamans?

Ekki koma með ræðuna um að tuskan eigi nú ekki að ráða, að nota frekar tímann í að vera með börnunum. Ég verð að segja, því ég veit um marga sem munu vilja tala um tuskuna, að hreint heimili fyrir mér er bara eitthvað sem ég vil hafa. Ég vil ekki njóta tíma með börnunum í skítafýlu og matarleyfum, hundahárum og sandi. OJ.

Allt þetta gerir maður síðan svo blessað ungviðið geti þroskast andlega og líkamlega til þess að geta orðið þjóðfélagsþegn sem ekki þarf að þyggja bætur eða vera önnur byrði á þjóðfélaginu.

Af þessari ástæðu ætti ég að fá rausnaleg laun fyrir að vera heimavinnandi, starfsheiti Heimilistæknir í stöðu forsjóra, framkvæmdastjóra, verkefnastjóra og sem starfsmaður á plani.