Nú er tíminn þar sem skólar, tónskólar, bekkjarfélög, íþróttafélög og önnur sambönd þar sem fólk hefur félag um eitthvað ákveða að hittast. Afhverju allir gera það núna á sama tíma hlýtur bara að vera útaf því að árið er að verða búið og það var á dagskránni að hafa alla þessa atburði.

Nú.. dyggir lesendur ættu að vita að ég er ekkert fyrir alla þessa atburði. Í heilan mánuð nenni ég ekki að vera fyrst að koma heim til mín um sjöleitið alla daga. Fuss.

En við förum nú samt.  Meðal annars í göngu uppí Öskjuhlíð með krökkunum í Barnaskóla Reykjavíkur. Það var reyndar alveg stjörnu huggulegt. Allir með lugt sem þeir gerðu sjálfir og svo var sögð ein lítil saga, sungin tvö lög og svo máttu krakkarnir fá kakó.

Bara verulega hugguleg stund.

Einhverntíma vorum við á gangi í miðbænum og þar var þessi.

Þú veist.. hlutir úr IKEA endast bara só and só. Þessvegna þurfti ég að tæma heila kommóðu sem dottin er í hengla og raða í aðrar hyrslur á heimilinu. Maður lifandi það sem maður sankar að sér.

Minn bíll var sá eini á planinu í vinnunni sem var með snjó á framrúðunni… hvað á það að þýða? Hann er líka eini sem er límdur saman á trantinum.

Ég og Örverpið fórum um helgina síðustu að hitta Herkött nokkurn. Það er engin lygi þegar ég segi að öll handrið og bekkir á leiðinni voru með öllu snjólaus eftir að við höfðum gengið þar hjá. Ég get nú ekki sagt að ég muni eftir því að hafa gengið um í snjó þegar ég var 5 ára, en mínum börnum finnst eitthvað óþægilegt að hafa snjó ofaná handriðum og þess háttar og stunda þessvegna þá iðju að ryðja handrið Reykjavíkurborgar.

Nú, þá hefst tónleikaröðin. Þetta er mynd af Sprengjunni að spila með Yngstusveit Skólahljómsveitar Vestur- og Miðbæjar. Hún sést náttúrulega ekki neitt. Bæði útaf því að nóturnar hennar voru fyrir og hún er alveg útí horni, enda spilar hún á horn..ahhahaha.

Ég sagði tónleikaröð. Áðan fórum við svo á nemendatónleika þar sem um það bil tuttugu litlir blásarar blésu í horn, trompet, básúnu og fleiri lúðra. Þetta var ÆÐI.

Búnglingurinn? Hann hefur það bara stjörnugott, þarna nýkominn úr baði. Hann er bara að brillera í handboltanum, það er bara þannig.

Eigum við að ræða þetta fatahengi eitthvað? Það er ekkert grín að vera með fimm manna fjölskyldu þar sem allir nota orðið skó yfir númer 30. Það eru stígvél, kuldaskór, inniskór, strigaskór, handboltaskór, innanhússkór, leikfimiskór og skór sem enginn veit hvað eru að gera þarna. Guði sé lof fyrir að ég get lokað þarna inn.