Margt hefur bara á dagana drifið og ég hef breyst heil ósköp. Aðallega ber að nefna að ég hef, að ég held bara, breyst í kerlingu. Jámm, ég tók þann pól í hæðina fyrir einhverjum árum, held þegar ég uppgötvaði og viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég er ekki nein töfra manneskja í eldhúsinu, eins og ég hef skrifað um  og sett myndir af hamförum í eldhúsinu, var ég búin að nefna t.d að ég henti einusinni í bollur og fór síðan í bað.. -að ég væri ekki manneskja sem myndi halda dollur.

Hvort þessi niðurstaða hefur verið til þess, eins og ég hélt fram á þeim tíma, að minnka “drasl” í eldhúsinu, að ég henti alveg dobíu (já, skemmtilegt orð) af dollum. Allskonar dollum. Og þá er ég að meina svona kökudunkum eins og á myndinni. Allskonar stærðir og gerðir.

En nú hef ég stökkbreyst og stökk útí Góða Hirðinn hér í nágrenninu og fjárfesti í m.a þessari gömlu makkintos dollu. Ég elllska hana. Ég fann þrjár. Engin af þeim er eins en sú elsta er 400 gramma og hinar nýrri eru 375 gramma. Ætli þeir hjá makkintos séu með svona mannúðar stefnu og minnka magnið á hverju ári.. maður spyr sig.

Og þessa fallegu jóladós! Ég er einusinni búin að baka oní dollurnar, eða það komst bara í tvær litlar, svona stórar súkkulaði bitakökur, og svo einusinni búin að kaupa peúanöððer (piparkökur) og dúndrað í dollurnar líka. Ég ætla að fylla þessa stóru af myndapiparkökum, myndarlegum piparkökum, pipruðum myndakökum.

Hér hefur snjóað án afláts í meira en viku. Ég sendi Frumburðinn til að moka frá kanínunni. Hann mokaði öllu undir búrið og var það bara góð lausn. Við þurfum að skipta um vatn hjá greyinu alveg 3 á dag þar sem það frýs alltaf. Það var reyndar “bara” -4 stig hér í gær klukkan 17, en það jafngildir mikið meiri kulda heldur en við frá Íslandi erum vön. Já og enn einusinni fékk ég kuldakomment frá dana, ” finnst ekki íslendingum voða notalegt að fá svona kulda?” Ég svaraði fullum hálsi að ég hefði ekki frekar en hann fæðst með áfastri ull, né hefði mér verið gotið bara beint í snjóskafl og verið látin liggja þar til að “venja mig við”. Nei öðru nær, að kuldinn hér væri miklu kaldari en heima. Það segja það allir, spyrjiði bara reiða Herköttinn, vinkonu mína og jafnmargrabarnamóðir hér á Jansvej á Amager. Við sitjum löngum stundum með hitapokann í fanginu.

Helgin leið síðan eins hratt og allir hinir dagarnir. Börnin eyddu megninu af laugardeginum á náttfötunum eða allsber. Ég skil þetta ekki. Ég er í lopasokkum, sokkabuxum, fleiri bolum og flíspeysu en hann er allsber. Þau framkvæmdu listaverk  og svona eitthvað og hengdu upp. Mjög fagmannlega gert.

Svona sem sagt voru veðurhorfur í beinni útsendingu um helgina. Þetta líkist nú bara sjón útum glugga á Hvammstanga.

Sama útsýni en allt annar atburður. Það nefnilega atvikaðist þannig að ég vaknaði í gær morgun upp við það að ég hélt að Bóndinn hefði verið að rista sér brauð og bara gleymt því (svona eins og ég og bollurnar) og brauðið væri að brenna. En þá var það bara húsið á móti! Það brann bara í gær morgun. Við fylgdumst með slökkviliðinu koma og ráðast inn og brjóta allar rúðurnar og slökkva eldinn. Kaldhæðnin er að ég fór þarna yfir fyrir nokkru síðan inní miðju íbúðina til vinstri á þessari mynd og það kom til greina í svona mínútu (eða þar til ég heyrði hvað hún kostaði) að við myndum flytja þarna yfir.

Örverpið er búið að vera í fríi í gær og í dag, bara því mig langaði það. Ég er að nýta mér að ég get haft hann í fríi þegar mér sýnist meðan hann er í leikskóla. Við töltum saman í búðina.. og öndin, Engilbjört.

Við ákváðum sko að kaupa bara allar jólagjafir og þannig strax svo það væri bara búið. Ég keypti jólahúfur í leiðinni. Þær hafa slegið í gegn hjá öllum nema búnglingnum.

Af gróðrarstöðinni eru síðan bara hörmungar að frétta. Ég lýsti því yfir fyrir ekki svo löngu að ég myndi gera þrjár tilraunir. (Í þessum pósti)

Þær hljóma svona:

Tilraun eitt: hafa jarðaberja plöntu umpottaða bæði úti og inni og vita hver gefur mér amk eitt jarðaber næsta sumar. Það kom ekki einusinni vísir að beri.

Tilraun tvö: hvor gefur betur af sér steinseljan sem ég sáði fyrir tveimur árum síðan og hef ýmist vanrækt eða ofvökvað og nú fært inn eða búða steinseljan

Tilraun þrjú: er hægt að sá basilíku núna þó það standi á pakkanum að það eigi ekki að gera það fyrr en í febrúar.

Varðandi tilraun eitt þá veit ég ekkert um hvernig það kemur til með að virka, það er ekki komið næsta sumar, en hinsvegar mun það verða skrásett að í nóvember, eða núna bara er kaldasti tími hér í Kaupmannahöfn í 30 ár.

Tilraun tvö: Við tókum einusinni af báðum. Búðasteinseljan er steindauð fyrir löngu en mín hangir á bláþræði. Bara tvö blöð á henni.. og þau eru meira gul heldur en græn, ábyggilega ekki mjög næringarrík steinselja.

Tilraun þrjú: NEI, er svarið. Það komu upp smá sprotar en  svo þornuðu þeir (öööhömm…) og þar á eftir mygluðu þeir. Það getur verið að ég prufi aðra mold seinna í vetur…en samt áður en það kemur febrúar, en reyndar er bara stutt í febrúar.

Það sem er hinsvegar rífandi vöxtur í er þessi planta sem á heima í niðurfallinu í klósettvaskinum.Ekki veit ég hvaðan hún kom en grunar að fuglamatur hafi fest þarna og orðið svona líka gott af öllum hárunum og horinu og tannkreminu sem við spýtum þarna oní.

Í desember verð ég að vinna tvöfalt. Áður var ég að skúra eina hæð hjá Forum og eina hæð niðrí bæ, en núna er ég að skúra 4 hæðir í Forum og eina hæð niðrí bæ. Það er bara gott og vel.