Átti alveg svakalega góðan aðfangadag í faðmi tengdafjöllunnar. Héldum að Litli Herforinginn myndi algjörlega sprullast úr spenningi en hún gerði það ekki. Hún var auðvitað spennt en sver sig í ættirnar og lét á litlu bera. Þvílíkt flóð af jólapökkum.. við vorum rendar 9.

Allir fengu rosa flottar jólagjafir, bla bla bla – allir svaka glaðir og þakklátir, fle, fle, fle og ég fékk saumavél. SAUMAVÉL krakkar! Hef dreymt um að eiga saumavél í áratugi. Fékk hana frá Eiginmanninum, börnum og tengdafjölskyldunni. Nú má búast við að allir krakkarnir verði eins og Von Trapp fjölskyldan í Sound of Music. Frá saumavélinni munu frussast smekkstuttbuxur með grængulu blómamynstri og vel stífuð hvít skyrta, sem allir verða neyddir til að vera í (annars hafi ég af þeim símtækið sem samgróið er við lúkuna á þeim) og það verður staðið í stærðarröð. Já krakkar mínir. Líf mitt mun breytast í söngleik afþví ég hef fengið saumavél í jólagjöf.

Framundan er síðan jólaboð hér í norðurlandinu og á morgun mun Eiginmaðurinn og Frumburðurinn þeytast til Keflavíkur til að sækja hvorki fleiri né færri en 7 unglings dani sem munu eyða með okkur rest af ári. Ég hef aldrei fengið svona marga unglinga í heimsókn á einu bretti og veit ekkert hvað ég á að gera við þá. Ég er ekki einusinni viss um að þeir átti sig á því að það eru bara örfá hús á svæðinu… og að það er ekki hægt að komast neitt nema við keyrum þá þangað. Fyrir þeirra hönd vona ég að það verði ískalt, mikið af snjó, norðurljós og hríð (en ekki á þeim dögum sem þarf að ferðast á).

Þar til næst :)