Þetta er ein af fjölmörgum dásemdar súpum sem ég hef verið að prufa hér í haust. Er hún ekki bara FALLEG?

Í tilefni þess að Aðbíðan er gengin í garð er ekki úr vegi að hugleiða aðeins allt þetta með jólin.

Hér er ein frá Örverpinu, sem nú stendur í ströngu við að læra öll íslensku jólalögin. T.d þetta með könnunni.  Hann kann ekki alveg textann og raulaði eitthvað á þessa leið ” uppá stól situr kanna..flefla reðuleðu, ..manna”.. svo verður löng þögn. Hans spurning var “hvernig getur kanna setið uppá stól??” væntanlega að velta fyrir sér hvort kanna hafi rass, eða hvort kanna geti farið og fengið sér sæti einhversstaðar.

Mín hugleiðing um þetta lag er auðvitað bara ..hvaða fjárans könnu er verið að tala um? Þessi setning er ekki í neinu samhengi við afganginn af textanum í þessu lagi sem ég er sammála að sé svona:

“Jólasveinar ganga um gólf með gildan (ekki gylltan) staf í hendi, móðir þeirra sópar gólf og flengir þá með vendi (sjæsö.. illa súr kelling). Uppá hól stend ég og kanna (ég verandi jólasveinn væntanlega) níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna.”

Hugleiðing Búnglingsins er mest á þessa leið: “Hvað langar mig í, í jólagjöf og hve marga og stóra pakka fæ ég?”

Hugleiðing Sprengjunnar er fimleikasýning og helgileikur í kirkjunni. Seinna í dag mun hún stíga á stokk í fimleikasal Gróttu og sýna listir sínar ásamt dömunum í hennar flokki. Svo á hún að vera engill í helgileiknum. Hún, aldrei þessu vant rauk inní herbergi með lærdóminn fyrir föstudaginn næsta (einmitt.. eins og þetta eigi eftir að gerast aftur) sem er einmitt að læra utan að ljóð sem hún á síðan að syngja. Fallegt. Hún hugleiðir að vísu líka hvenær það komi eiginlega jólafrí.

Hvað Bóndinn hugleiðir er alheiminum hulin ráðgáta, en ég sjálf hugleiði þessa dagana að í raun og veru sé aðbíðan meira skemmtilegt tímabil heldur en aðfangadagur einn og sér. Þetta eru nú reyndar bara önnur jólin sem mér líður virkilega vel með að það séu að koma jól. Önnur jólin frá því bara einhverntíma í gamla daga. Það eru auðvitað bara allskonar tipikal viðbrögð við tipikal uppákomum í eins lífi sem jólin fyrir mér hafa oftast ekki verið neitt gleðiskeið. En nú er önnur saga, því ég hef þroskast og vitkast svo mikið (vææææææl úr hlátri).

Semsagt, aðbíðan bara alveg ljómandi tími. Keypti mér aðventu ljós í eldhúsgluggann í gær og náði í jólaskrautskassana sem eftir ófögnuðinn sem ég fann í kassanum í fyrra (glærleit silvurskotta) eru úr plasti.

Annað nýtt, en það er að þetta er þá í fyrsta skipti í fjögur ár sem við höldum jól á Íslandi. Það er bara eitthvað dásamlega öðruvísi við það. Ég elskaði jólin úti  útaf því að við vorum alveg kúpluð útúr því að vera með jólastress og jólaruglu. Og fyrst við höfum kúplast útúr því er ennþá dýrðlegra að eiga jól hér heima. H E I M A.

Maður getur bara ekki skilið þetta orð almennilega nema maður hafi verið annarsstaðar og upplifað lífið í burtu frá stoðnetinu sínu.

Hallelújarrwww.