Það er spes tilfinning að koma heim eftir veru í öðru landi. Augljóst er að við sjáum hér allt í öðru ljósi. Þið vitið, kunnum að meta það sem við kunnum ekki að meta áður. Kunnum ekki að meta það sem við kunnum að meta áður.

Nú, ekki er Kaupmannahöfn stór borg. Hún kann að vera talin til stórborgar, en hún er ekki stór þrátt fyrir það. Maður nær eiginlega enda á milli allstaðar. En þegar það eina sem ég er vön að sjá eru fjörgamlar byggingar í allt öðrum stíl en í mínu heimalandi, þá fæ ég eiginlega sömu tilfinningu eins og þegar maður fer útá land á Íslandi þegar ég lít yfir Reykjavík.

Reykjavík lítur út eins og vel útitekið fiskipláss miðað við Kaupmannahöfn. Ekki að það sé eitthvað úldið að vera hér, hehe, svo sannarlega ekki. Mér finnst það sjást vel á þessari mynd. Gæti grafið upp samanburðarmynd, en ég nenni því ekki.

Hér í Reykjavík er verið að gera helling til að koma fólki á hjólið. Þetta, mjórri línan, er hjólagata á Suðurlandsbrautinni. Svo mjó að það er bara pláss fyrir eitt hjól í aðra áttina. S.s ekki gert ráð fyrir að fólk hjóli saman, eða mætist á leiðinni. Hvað um það. Ég ætla bara að eiga þessa mynd þegar kemur að því að hér verði almennileg hjólaumferð. Mér skilst að hér eigi að leggja 10km á ári næstu þrjú árin í hjólastíga.

Hjóla meðal annars í gegnum Laugardalinn á leið til og frá vinnu. Ég held að það eigi eftir að verða ótrúlega fallegt í sumar. Hlakka til.

Helst er að frétta að allt mjakast. Búnglingur og Sprengja byrjuðu í skólanum í dag og voru yfir sig ánægð. Búnglingur hefur þó pantað að hringja í vin sinn úti á morgun. Saknar ábyggilega.

Örverpið, sem og hin eldri, er löngu orðinn leiður á leikskólaleysinu og sagði áðan að hann hefði síðan aldrei fengið að sjá nýja sandkassann sem verið var að gera á leikskólanum hans úti… hann spurði hvort við gætum ekki bara flyttað úðð til danmaggrrgk igeNN?

Hann byrjar samt á nýja leikskólanum í næstu viku. Fer í heimsókn á föstudaginn. Svona gerast bara hlutirnir á einum degi stundum. Gotterí.