Ég er ekki frá því að öll nýbyggð hús, kannski frá 2007 eða eitthvað, hér á Amagar og Íslandsbryggju allavegana ,séu með eins eldhúsi, eins parketi og eins baðherbergi. Allar íbúðirnar eru eins uppbyggðar.

Sem sagt það er opið svæði fyrir eldhús og stofu og herbergin út frá því. Iðulega í 3 herbergja íbúð, eru herbergin bæði við einn vegginn og klósettið á móti, hinum megin við anddyrið. Ef, eins og hjá okkur, er eitt herbergi í viðbót, þá er það út frá stofusvæðinu.

Við erum  hér með nákvæmlega eins parket og við vorum með útá Íslandsbryggju og hurðarnar eru eins líka. Og baðherbergið. Það er eins borð í kringum vaskinn og við spegilinn. Eina sem er öðruvísi er að það eru sandblásnar glerhurðar fyrir sturtunni og þvottavél og þurrkara sem standa inná baði, þurrkarinn ofaná þvottavélinni.

Eldhúsinnréttingarnar eru ALLAR frá Hth. Í bókstaflega öllum auglýsingum er verið að stæra sig af frábæru HTH eldhúsi. Að undanskildum litbrigðum á eldhúsinnréttingum og einstaka íbúð með eyju í eldhúsinu þá er þetta allt eins. Það er svosum alltí lagi, þó svo að mér sé í raun og veru mein illa við að vera steypt í eins mót og aðrir (bara því enginn passar  í mótið, við erum búin að ræða þetta krakkar mínir, það verður bara óþægilegt að troða sér þangað og allir eru að reka sig í og svona, fá marbletti og sár).

EN! Hvað er svona merkilegt við HTH kökken? Er HTH svona 2007 hipp og kúl eldhúsinnréttingarisi sem hefur komið sér þannig fyrir að ef nafn þess er nefnt, þá kikkna allir í hnjánum af undrun og aðdáun?

Ég veit það ekki. Mér finnst þetta HTH kökken ekkert meira merkilegt en IKEA eldhúsin sem ég hef notað, eða svona eldgamlar innréttingar.

Það sem ég get hinsvegar sagt er, að öll eldhús, sama hvers merkis þau eru, þar sem ekki er hægt að þurrka mylsnu af borðinu og láta hana síðan falla ofan í lófa við eldhúsbekksbrúnina og flytja hana í lófanum í ruslið, eru Ö M U R L E G.

IMG_1494

Já sjáðu bara, fansí eldhúsinnrétting… einhverjum háttvirtum hönnuðinum hefur dottið í hug að hafa súper þykka tré borðplötu. Verið alveg “úúú, höfum þykka borðplötu til að undirstrika að fólki líður eins og merkisfólki í eldhúsinu sínu..”.  En sérðu litla gatið á lófanum mínum milli þumals og vísifingurs?.. þarna fer nefnilega mikið af mylsnunni niður á gólf. Þannig að einfalt verk eins og að þurrka af eldhúsbekknum breytist í öngþveiti þar sem ég þurrka af, en þarf síðan strax að stökkva í að sækja ryksuguna, en þegar ég er nýbúin að setja hana í samband þarf ég að fara í húllahoppum til að rífa Bjútíbínu upp af gólfinu þar sem hún stendur í því að éta mylsnuna með mislukkulegum árangri. Ég bjarga þá barninu frá köfnun og ríf í ryksuguna til að ryksuga þetta upp.

Um leið og ég ryksuga sé ég að öll íbúðin þarf svolítið sug…og nokkrum klukkutímum seinna er ég búin að þrífa allt hátt og lágt.

Og þannig breyttist mýfluga í úlfalda. Allt HTH kökken að kenna.