Á Sauðárkrók? .. EKKI geraða! Ekki ef þú ert seinheppinn, viðutan eins og Bústýra og nýkrýnd Frú Félagsbú. Það var þannig að Bóndinn vaknaði ekki á tilskyldum tíma um morguninn að ég fór í fýlu og brenndi niður í sjoppuna sem ég veit hvað heitir, svona síðan ég heimsótti hana sirka 3 á dag í heilan vetur fyrir 16 árum síðan, en er búin að gleyma. Lagði þar við kanntstein.

Fór inn og keypti eftirfarandi: Vikuna og Hús og hýbýli. Fór út og mundi þá eftir gaskútnum.

Fór inn og skipti gömlum gaskút yfir í annan gamlan en með gasi í. Fór út með dótið og bakkaði. Heyrði þá drunur í bílnum en keyrði samt smá spöl áfram. Heyrði frekari drunur að framanverðu og neyddist út til að kíkja á það sem ég var eiginlega að vona að hefði verið eitthvað bara í eyrunum á mér. Stuðarinn var að mestu dottinn af.

Fór inn og keypti: brúnt breitt límband.

Með bílinn teypaðan og okkur frekar þreytt og þrútin eftir gaman gærdagsins héldum við af stað í ferð dagsins. Þegar við vorum að koma að Hólum tók ég eftir því að ég var ekki með …. GIFTINGARHRINGINN!!!

Við til baka á blessaðan Sauðárkrók til að athuga á baðinu hvort hringurinn væri þar enn. Sem betur fer var hann það. Ég hefði dáið úr sorg. Hverskonar eiginkona er það nú eiginlega sem helst ekki á hringnum einusinni í 24 tíma?

Við stoppuðum á Hofsósi, þar var meðal annars verið að setja trillu til sjós.

Hofsós er afskaplega krúttlegt þorp.

Þá komum við á Siglufjörð, tókum góða veðrið með oss eins og sést greinilega á myndinni, en við teljum Siglufjörð vera annað afskaplega krúttlegt bæjarstæði. Og mjög gleðiðlegt bara. Þar var, eins og á Hofsósi og reyndar í fleiri þorpum að við höfum komist að, búið að græja svona skemmtilegt túrista aðdráttarafl, eins og kaffihús, veitingahús og söfn.

Og við fórum sem leið lá í gegnum fjöll og firnindi yfir á Ólafsfjörð. Sá bær er ekki eins krúttlegur og hinir tveir. Ég get alveg skilið afhverju það er svona mikill útlitsmunur en það hlýtur að hafa verið útaf því að það voru auðvitað ekki göng á milli og ég get bara ekki ímyndað mér að fólk hafi verið að ferðast þarna mikið á milli og þar af leiðandi hefur enginn séð hvað hinn var að gera sniðugt.

Hinum megin við fjörðinn var hinsvegar krúttlegt bæjarstæði. Eða ég veit ekki hvað á að kalla svona litla þyrpingu húsa á sama stað.. sem er eiginlega ekekihægt að segja að sé þyrping þar sem húsin eru svo fá. En það voru Kleifar. Þar hefði ég getað sest að.

Ólafsfjarðamúlinn. Þarf ég að segja meira? Þetta er einn hræðilegasti vegur landsins. Ég man eftir að keyra hann sem barn, því systir mömmu (hæ Brynja :)) átti heima á Ólafsfirði. Ég get staðfest að smáir krakkar hafa bara sirka abát einn til tvo hjartslætti á meðan þessu ferðalagi fyrir múlann stendur. Einsgott það eru komin göng.

Við fórum líka á Dalvík en þar eru byggð töluvert stærri hús en á hinum þremur plássunum og einnig virðist fólk hafa meiri möguleika þar á að rækta garðinn sinn. Leit út fyrir að vera ríkisbubbabyggð.

Síðasti stoppustaður var Akureyri. Þar komum við alveg úrvinda. Enda búin á því eftir anna sama viku og frábærasta dag lífs okkar daginn áður. Hentum upp tjaldinu (sem síðan kom í ljós að var byrjendalukka, það hefur ekki farið alveg eins vel að “henda” upp tjaldinu í hin skiptin sem við höfum tjaldað) og lögðumst svo eiginlega bara til svefns.

Morguninn eftir. Þvílík veðurblíða! Og er búin að elta okkur allar götur síðan. Tjaldsvæðið á Akureyri fær fullt hús stiga. Kostaði ekki svo mikið og er alveg meirihátta flott. Bæði ef maður kemur þarna með börn eða ekki. Ef það þætti kurteisi þá hefði ég hinsvegar farið og kennt fólkinu við hliðina á okkur mannasiði og rotað það með gúmmíhamri til svefns löngu áður en það datt útaf…

Verst ég man ekki hvað lítill húsakjarni rétt við Hrafnagil heitir.. en svona geyma þau póstinn sinn. Allir póstkassarnir í röð í miðjum kjarnanum. Gaman.

Og við erum þá formlega ástfangin af Akureyri. Ég hafði aldrei hugsað um þennan bæ sem eitthvað. Hann virðist svo glaður að sjá eitthvað. Og lífið, það var mjög áberandi mannlíf. Og bara fagur bær. Það eina sem við höfum útá hann að setja eru sturturnar í sundlauginni þar. Ég mátti teljast heppin að halda geirvörtunum eftir kraftinn í sturtunum. Örmjóar og stingandi bunur…maður lifandi, kannski eru Akureyringar svona harðir (sbr. hvernig þeir tala) að þeim finnst ekkert að þessu.

Í Vaglaskógi. Fallegt með eindæmum. Gott að hvíla við ána sem fer þar í gegn.

Við erum alveg slök. Líka hjá Goðafossi.

Meira síðar. Erum á Egilsstöðum núna. Og já, í tölvunni, með internetið með í vasanum og nú þarf ég að fara og taka úr vél og setja í þurrkara. Spes á ferðalagi.