Ég get litið allskonar út. Báðar teknar á bara einhverjum venjulegum degi við tölvuna.

Finn mig óþægilega knúna til að “svara” þessum pistli. Þú verður að lesa hennar pistil fyrst, áður en þú lest svarið. Svonahh..off you go! Höfundur pistilsins virkar með svipuð áhugamál og ég, þvott, uppvask og vilji til að breyta heiminum. Hún segist vera fyndin ef vel er að gáð, það er ég líka þó að ég myndi aldrei segja það bara svona.

Mitt svar er einhvernveginn svona:

Auðvitað skiptir útlit fólks máli. En að mínu viti skiptir útlit fólks aðeins fólkið sem á hvert og eitt útlit máli. Þ.e mitt útlit skiptir aðeins mig máli. Það er bara ég sem fæ áráttu-þráhyggju einkenni við að lappa uppá það ef ég á þannig dag að ég sé ekki nokkuð ánægð með það.

Fyrir ekki svo löngu fór ég í gegnum asnalegasta tímabil minnar ævi. Á því tímabili fékk ég einmitt útlit mitt á heilann. Ég hef ekki verið kennd við tísku, né er súpermódel, er bara þrjátíu og eitthvað ára heimilisfrú, s.s bara ein af hinum rollunum í almenningi. En á þessu tímabili hélt ég að útlit mitt væri það sem skipti umheiminn máli.

Ég hefði ekki getað haft meira rangt fyrir mér. Mér leið ekki betur þó ég skrúbbaði andlit mitt kvölds og morgna og setti á það rándýr krem unnin úr afurðum náttúrunnar, þó ég setti maskara á mig með augnhára-lengingar áhrifum, farða til að fela hræðilegu hormónabólurnar, vaxaði búkonuhárin af, reytti fótleggi mína, gengi næstum að mér dauðri í ræktinni, keypti föt eins og vindurinn helst sem sýndu eitthvað af mínu vaxtarlagi sem ég taldi að væri í lagi, keypti föt sem ég vissi að öðrum þætti kúl né ef ég fótósjoppaði myndir sem ég birti af mér á Facebook.

Það sem móðgar minn innri mann svo við pistil þessarar ágætu konu, er að hún setur samasem merki á milli þess “að vera maður sjálfur” og að vera skítugur, illa lyktandi og í ljótum fötum.

Fólki, sem er óvart þannig, líður að mínu viti bara ekki vel akkúrat þá stundina. Það getur komið fyrir alla að líða ekki vel. Og þegar fólki líður ekki vel þá er oft á tíðum ekki eftst á baugi að henda á sig andlitinu og stundum er ástandið bara slæmt og sturta verður líka eitthvað sem er ekki efst á baugi. Megi það hljóma undarlegt en það er satt.

Aftur að pistlinum sem ég er svona hneyksluð yfir.

Í honum útskýrir hún að “við konur” séum með fullkomnunar áráttu, tískuvit og rýnum af öllum mætti í galla hins kynsins, eða þess kyns sem við reynum að komast í buxurnar hjá. Því pistillinn er síðan, þegar fyrstu tvær þrjár málsgreinarnar eru búnar, um það hvernig karlmenn eru til fara. Og raunar er þetta skammar ræða yfir karlmönnum í endann.

Nú, ég neita að vera meðlimur af “við konur” ef það er virkilega satt að allar séum við með fullkomnunaráráttu, tískuviti og séum alltaf að spá í því hvað er að öðrum. Það er útaf því að ég er ekki með neitt af þessu. Ég er ekki með fullkomnunar áráttu, ekki við neitt af því sem ég geri. Það er útaf því að ég hef lært að segja stopp á viðeigandi stöðum. Ég er ekki með tískuvit, en það er bara meðfætt, t.d er uppáhalds flíkin mín peysa sem ég keypti í Hagkaup á íslenskan 500 kall fyrir að verða 8 árum síðan. Ég klæðist yfirleitt í það sem mér finnst þægilegast úr skápnum og oft bara það sem er hendi næst. Ég er samt ekki lúði. Síðast en ekki síst þá er ég aldeilis ekki, aldrei þegar ég fer út, hvort það er útí búð, eða út á lífið, að spekúlera í því hvernig fólk lítur út.

Þegar ég var einhleyp þá var þetta heldur ekki svona, þó ég hafi verið að fiska. Ég man ekki eftir því í öllu mínu lífi að hafa verið annað en þokkalega móttækileg fyrir fólki bara sem öðrum manneskjum. Og ef þar væri einhver þarna úti sem ég væri hrifin af og jafnvel búin að festa öngul í, þá held ég að hrifning mín hafi blindað allt sem viðkæmi klæðnaði eða, andlitshárastatus, eða í raun og veru hvar í fjáranum við værum stödd. Og það sem ég held, það er að það séu flestir eins og ég hvað þetta varðar.

Þá heldur höfundur umrædds pistils ræðu um hvernig fólk á að vera, eða hvernig karlmenn eiga að vera, í hennar pistli er hún að tala um hvernig karlar eiga ekki að vera. Og það er lengsta málsgreinin, maður heldur hreinlega að hún ætli aldrei að stoppa.

Og spurning mín er þessi: Hver heldur hún að hún sé, að ákveða hvernig fólk er, þegar það er það sjálft?

Eftir mitt fáránlega lífstímabil, þar sem ég var í alvöru með á heilanum allan daginn hvernig ég leit út, þá lærði ég að leita að innri friði og þegar ég hafði fundið innri frið þá hætti þetta að skipta máli. Ég fór bara að vera falleg í spegilmyndinni útaf því að ég er (flestum stundum, hehe) sátt. Ég er sátt við hvernig ég sjálf er og hef virðingu fyrir því hvernig aðrir eru. Þessvegna myndi það ekki móðga mig eða skipta mig yfirhöfuð máli að mér yrði boðið út af manneskju, sem myndi fara “óviðeigandi” klædd með mér inná einhvern stað þar sem annað fólk væri líka.

Ég held að mýtan um að konur geti ekki farið í skó nema þeir passi við buxurnar, eða naglalakkið við átfittið, að við séum allar að leita að maka sem er svona eða hinsegin (helst eftir 12 góðum ráðum úr kvennaglansblaði)  sé upprunnin í sjónvarpinu og á píkusíðum eins og bleikt.is. Margt fyndið að gerast á bleikt.is.. en ekkert sem gæti kallast annað en yfirborðskennt og eiginlega hálfgert prump.

Hvar eru alvöru umræður? Hvar eru umræður um það sem í alvörunni skiptir máli? Ég er búin að fá geðveikt mikið nóg af því að það er alltaf verið að tala um hvernig konur eru og hvernig karlar eru. Sjitt hvað er þreytandi að halda alltaf að maður sé eitthvað skrítinn því maður er ekki eins og konan sem er búið að búa til í hausnum á ..konum. Afhverju slúttum við ekki bara þessari leiðinda og langdregnu umræðu um muninn milli karla og kvenna, afhverju erum við ekki bara svona, já eða hinsegin og bara ekkert meira með það? Manneskjur erum við. Þarf að aðgreina og gagnrýna?

Niðurstaðan: Útlit skiptir ekki máli, ekki sett upp á þennan máta. Það væri kannski ögn líklegra að ég myndi veiða einhvern liti ég út eins og til hægri á myndinni sem fylgir þessari munnræpu minni, og það er bara útaf því að hárið á mér er þess eðlis að karlar, börn og dýr verða bara hrædd við að sjá svona haug ótaminn.