Í dag er grátt og blautt veður. Allur snjórinn farinn, sem er vel, en allt er grátt og blautt.. og vindasamt.

NEI! Hva! Hélstu að ég ætlaði að fara að mála mynd af mér með orðum þar sem ég sæti í glugganum með tárin lekandi niður báðar kinnar, svona þannig að þau fara undir á undirhökuna og detta þaðan í svona einmana taumi, eitt af öðru, beint niður í brjóstaskoru (þúst, ef ég hefði eina slíka)??

Nei, ég er hér til að segja þér að sama þó það sé grátt og blautt og boring veður.. og rok, að ég er á tveimur nýjum dekkjum á hjólinu mínu og svo var það í smurningu. Ég er oftast ekki klár á því hvernig það endaði á því að ég hélt að A) það væri eitthvað að mér því það er svo svakalega erfitt að hjóla alltí einu (sennilega komin með sjúkdóm sem þýðir að það verður að taka af mér fæturnar við öxl), B) ..það hefur eitthvað komið fyrir hjólið, dottið og skekkst eitthvað, það er mega lélegt og aftur.. svakalega þungt eða C) ég þykist vera að spara (hahaha) og ætla bara að massa það að hjóla á þessu fjárans hjólskríbbblí þó það sé erfitt.

Við erum að tala um að ég er búin að hjóla um borg og bý með pumpuna í körfunni því það var alltaf að leka úr afturdekkinu.. þetta er svona 10 mánaða gamalt ástand.

Svo, þegar að voru ennþá ber á trjánum, fóru gírarnir mínir í sundur, þannig ég var ekki með neina gíra. Þannig að í 2-3 mánuði hjólaði ég á gömlukellingar hjóli með einn gír og alvarlega lint í báðum dekkjum.

Svo fór framdekkið. Auðvitað á ögurstundu. Ég þurfti að mæta á ákveðnum tíma. Í staðinn fyrir að gefast upp og vera dönsk og halda því fram að ekkert sé hægt að gera í málinu, þetta sé úr mínum höndum, var ég ég og hjólaði bara samt, þó ég hafi ekki verið með neitt loft í framdekkinu. Ég hjólaði síðan heim líka með því að stoppa í öllum hjólabúðum á leiðinni til að pumpa og nota handpumpuna. Þangað til ég gafst upp, en það var ekki fyrr en ég átti mjög lítið eftir heim.

Ég smellti þá hjólinu á þriðjudaginn fyrir 2 vikum inn til hjólamannsins við hliðina á tónó og hann setti nýja slöngu á meðan ég var þar. Ekki strax daginn eftir heldur daginn eftir það, sprakk slangan uppá nýtt við svipaðar aðstæður og ég tel upp hér að ofan.

Nú var eiginlega orðið ljóst að annaðhvort þyrfti ég að gera við garminn eða fá mér nýjan hest. Ég hentist með hjólið og heimtaði nýtt dekk á það hjá hjólamanninum sem er hér í hverfinu hjá mér. Ég hugsaði með mér að þetta yrði frábært, vera komin með nýtt framdekk og allt og gæti væntanlega byrjað að geysast um eins virðulega og ég er nú annars vön að gera. Ég varð fyrir ólýsanlegum vonbrigðum og annaðhvort blótaði ég eða blótaði ekki þegar ég komst að því að það var alveg eins f***ing erfitt að hjóla!

Þegar ég kom á æfingu í gær, uppí tónó, smellti ég hjólinu aftur inn til hans við hliðina. Hann tjáði mér að hjólið þyrfti ekki bara líka nýtt aftur dekk heldur yrði að herða það og smyrja.. eitthvað sem þeir sem vilja hjóla reglulega ættu að gera einusinni til tvisvar á ári. Ég lét til leiðast. Og lét mér síðan leiðast þegar ég var að bíða eftir að hann yrði búinn.

Aftur, ég veit ekki hvernig ég fór að því að ferðast um á hjólinu svona. Kræst. Það er engu líkara en að ég sé í alvöru haldin einhverskonar sadómasókista, nema ekki í kynlífstilgangi heldur bara í almennri tilveru minni.

Nú breytir það mig engu hvort á móti mér séu 10 vindstig (já, ég er ennþá þar) ég geysist samt áfram eins virðulega og sjálf frú Vigdís Finnbogadóttir.