Eins öruggt og að það kemur á endanum 24.desember á hverju ári, þá er jafn víst að í enda árs, um það bil 10 dögum fyrir lok þess hellist yfir mig mikil sjálfsbetrunarþráhyggja.

Kannski er það útaf því að í desember er dimmast, kaldast og erfiðast að vera til að ég fæ óstórnlega löngun til þess að hafa það ekki svona þegar hátíðarnar eru búnar, það vita jú allir að það er ekki hægt að byrja að spara, borða betur eða gera neitt sjálfsnærandi og uppbyggjandi yfir þessa, að mörgu leiti græðgis-, hátíð.

Þetta gerist alltaf á þessum árstíma. Ég hef í mörg ár verið búin að búa til svakalegt plan um hvernig ég ætla að verða betri. Það er ekki þannig að það hafi tekist eins og plön voru um, en það hefur tekist að því leitinu til að amk pæli ég í því að verða betri og amk er ég að vinna í þessu.

Það sem ég vil leggja áherslu á núna er:

  • Peningar og tilvist þeirra. Ég hef spurt marga núna um hvað þeir hugsi þegar hugsað er um peninga og meðferð þeirra. Sumir eru slakir og sega peninga bara vera orku, aðrir hugsa um peninga sem reiknisdæmi sem annaðhvort gengur upp eða ekki, fyrir enn öðrum eru peningar ekki neitt sem er til eða ekki til, það er í flestum tilfellum hægt að nálgast það sem vantar fyrir pening, þó þeir verði ekki til fyrir því fyrr en í framtíðinni. Þegar ég hugsa um peninga þá gerist ekkert í hausnum á mér. Bara algjör þoka og móða og heyrnarleysið er algjört þegar ég hugsa um peninga og hvernig ber að stjórna þeim. Svo á peningahugsunum ætla ég að fá stjórn á.
  • Hugleiðsla. Fékk skilaboð að ofan um að ef ég færi ekki innávið myndi ekkert af þessu lagast. If you don’t go within, you go without. Það verður því að vinna í því að fara inná við og það er gert með reglulegri hugleiðslu.
  • Sköpun. Ég skapa reyndar allan daginn í vinnunni og flauta eins og vindurinn. En ég vil líka skapa eitthvað bara til þess að skapa það.
  • Hreyfing, mataræði og önnur kroppsumhyggja. Finna útúr því öllu.

Þetta er svona það helsta sem er komið á listann, sem ég veit að er lengri. Einu get ég t.d strax bætt við en það er eftirfylgni. Ég er herra-góð í að búa til plan og skipulag en að fyglja þessum plönum og skipulögum eftir er eitthvað sem hefur verið mér algjörlega ógerlegt.

Ég er samt að leggja upp með að vera ekki með of mörg atriði á listanum.. í augnablikinu velta hugmyndir á listann upp.. hefði ekki átt að byrja að skrifa þetta niður.