Ég hef verið að sakna þess undanfarið að krakkarnir eldri tveir geti dundað sér. Sennilega er það eðlilegt að þau hætti að dunda sér daglangt og kannski lengur en það við að láta playmo kalla eða barbí dúkkur tala saman og gera það sem ímyndunaraflið býður uppá.

Kannski spila þau of mikið tölvuspil. Ég held samt að þau spili ekkert mikið, ekki miðað við. Ég veit ekki almennilega af hverju þau geta ekki daginn nema horfa á sjónvarp, fara í símann sinn í tölvuspil eða horfa á youtube eða spila tölvuleik. Um daginn sagði ég að það væri sjónvarps, tölvu og símalaus dagur. Það var eins og fjárinn sjálfur hefði gripið þau og allt varð hálf óþægilegt. Einn fór bara uppí rúm í fýlu og sofnaði. Hinir tveir suðuðu ALLAN daginn um að fá að fara í.

Hvort er þetta að þau virkilega geta ekki verið án þess að spila eða horfa á sjónvarpið og láta yfir sig ganga hvað sem er t.d í sjónvarpinu. Láta mata sig af bara einhverju til að þurfa ekki að hugsa eða er þetta því ég sagði að eitthvað væri bannað?

Hefði ég sagt að það væri bannað að skeina sig, þvo sér um hendur, slökkva baðherbergisljósið og loka baðherberginu, hefði þau þá verð tryllt æst í að gera þessa hluti.. bara klósettpappír útum allar trissur og svo dimmt á baðherberginu að ég myndi óvart bara pissa í sturtunni?

Auðvitað eru þau að breytast, breytist hvað þau ákveða að nota tíma sinn í á daginn. Vilja meira og meira vera fullorðin og sínar eigin manneskjur. Sjálfsagt partur af prógramminu. Það er þá af sem áður var að það var tekið uppá því að draga systursína í þvottagrind, sjálfur með hatt, en hún að lesa.

gummiogsunneva2005

Það eru 9 eða 10 ár síðan þessi mynd var tekin. EN! Ég á auðvitað eitt eða tvö tromp eftir.

IMG_1343

Þessi hér er ekki alveg dottinn úr því að fara ofaní hluti og eyða þar smá tíma.

IMG_1345

Skjaldbaka sko. Hann er inní skjaldbökuskelinni. Fljótlega eftir að við vorum að tala um að skjaldbökur hefðu skel heyrðist úr einhverju horni “NEIssHHH.. þær hafa skjald!!!” .. skjald?? Já, SKJALD-baka. Ég ætti kannski að útvega lýðnum íslenskri orðabók á hljóðbók.

IMG_1353

En svo er páskafríið komið. Einhverntíma á mánudaginn leit ég við og sá þetta. Ó MÆ LORD! Hver kom heim til mín og rústaði pleisinu?  Ég sá mig tilknúna, sem og svo æði oft áður, til þess að taka til og ganga frá. Mér finnst ég bókstaflega alltaf vera að ganga frá einhverju. En sú mæða. Hófst handa inní mínu herbergi, sem er þarna inn af stofunni. Opnaði playmokistu og þá, eins og hendi væri veifað, eins og hvirfilbylur hefði komið, rétt eins og ég væri í alvöru Mary Poppins, dótaðist allt playmóið uppúr kistunni og í sorteringu og uppsetningu á eldhúsborðinu. Þú tekur eftir að þetta er bara sekúndu eftir að ég ætlaði mér að taka til.

IMG_1351

Brotabrot af því sem er til.  Sprengjunni fannst þetta svo gaman að það skríkti í henni. Við settum saman húsið, dýragarðinn, öll skipin, garðinn, ströndina, íssalann, grænmetisgarðinn og svo urðum við að föndra hitt og þetta úr hlutum sem eru búnir að vera til í að verða 13 ár og sumir hlutir þarna jafnvel verið til í að verað 37 ár, sem ekki höfðu beint neitt sett að vera í.

IMG_1349

Henni fannst þetta hreint og beint æðislegt. Hún gerir reyndar eiginlega ekki annað í herberginu sínu en að raða dóti. Raða í dúkkuhús. Raða í barbíhús, raða í Silvanians hús og bara raðar og raðar. Við eigum síðan fulla skúringarfötu af playmóköllum.

IMG_1337

Já Hemmi minn. En svo keyptum við safapressu. Svona slow juicer til að vera menn með mönnum. Fagri hefur mikinn áhuga á þessu og hefur hér með prófað sjálfur að gera blóðappelsínudjús og vínberjadjús. Þetta er hin ágætasta græja og ég hef saknað þess mjög að eiga ekki djúsvél. Djúsvél og blandari eru eiginlega orðin jafn mikilvæg heimilistæki og hrærivélin og kaffivélin.

IMG_1336
Fíbblagangur púnktur ís.

IMG_1281

Auðvitað fer Bjútíbína ótroðnar slóðir og treður sér á milli sófanna, einmitt þar sem ég er að geyma dót sem á eftir að hengja upp. Tróð því þarna því ég nennti ekki að hafa þessa óreiðu í augnsýn. Klappa gítarnum aðeins.

IMG_1283
Og auðvitað vill hún líka vera með þegar það er verið að skoða eitthvað mígandi fyndið í tölvunni.

Annars byrjuðum við á páskaeggjunum í dag. Sú í miðið nefndi að það væri asnaleg hefð að fólk hefði bara einn dag til að borða páskaeggin. Ósælla minninga fyrir hana þá hafði ég það þannig í fyrra að restin af eggjunum var laugardagsnammið næstu laugardagana. Reyndar held ég að það hafi endað sem bara einn laugardagur. En henni fannst það illa ósanngjarnt. Mér finnst það síðan ekker rosalega slæm hugmynd, að byrja bara í dag á eggjunum og eyða svo næstu dögum í að rumpa þetta át af.

Já bara til að árétta og kannski eru þetta framtíðar skilaboð til þín sonur minn elsti: Þú ert eiginlega á engri þessarra mynda því þú varst of upptekinn í tölvunni. Vonandi þarf ég ekki að fara með þig til læknis af því að þú verður kominn með kryppu. Vonandi verðuru ekki með kryppuna og getur sleikt á þér geirvörturnar bara með því að setja tunguna út til hliðanna því hakan er komin niður á bringu.