image

6 mánuðir af 9 komnir. Auðvitað telur nútímakonan í vikum, en ég er hætt við að vera nútímakona og ætla að telja í mánuðum og neita að tala um settan dag, planið er auðvitað að eiga fyrir settan dag, svo að ljósmóðirin sem ég hef verði ekki farin í frí.

Mér litist best á að eiga barnið síðan útí garði hjá mér, eða útá engjum (þú veist, ef ég hefði engi). Reyna kannski að fá heitapottinn tengdan og gjóta bara þar í sólinni sem ég er búin að panta á fæðingardaginn.

Ef ég kem við vömbina þegar ég ligg útaf, rétt fyrir ofan nafla, get ég fundið fyrir barninu! Það er hálf ógeðslegt, veit ekkert hvað ég er að pota í. Er það afturendinn á því, bakið, hausinn, andlitið, fætur..

Og skuggalega þunnt á milli heimsins og barnsins. Bara örþunn húð og svo legið og það.

Það stækkar síðan allt þegar maður er óléttur. Hrædd um að ég verði að taka af mér hringinn ef ég vil ekki eiga á hættu að hann verði búinn að merja í sundur á mér hamingjufingurinn einn góðan morgun þegar ég drattast framúr.

Þarf ekki að nefna að mjólkurframleiðararnir eru fyrirferðarmeiri en þegar ég er ekki að búa til manneskju, ég vorkenni konum með stór brjóst, það getur bara ekki verið þægilegt meðferðar.

Andlitið á mér er líka skyndilega mjög stórt, eða frekar kringlótt. Ég hef óléttufés.

Hinn frægi afturendi, sem kenndur hefur verið við svertingjavöxt, hefur líka stækkað… mig vantar eiginlega stærri nærföt.