Að hætti bloggara er nokkuð víst að ég mun lýsa því yfir að hlakka til þessa árs, að það sé auð síða í bók sem kallast 2014.  Það er gott og vel, held að það sé holt að leyfa sér að hlakka til.

Les á mörgum bloggum sem ég fylgist með, að árið 2013 hafi ekki verið neitt súper. Held að það sé bara mismunandi, kannski er fólk bara þreytt í enda árs, kalt og myrkur og finnst tímabært að ljúka þessum kafla. Margir frábærir hlutir komu hinsvegar fyrir mig og okkur hér á Félagsbúinu á árinu 2013. Hæst ber auðvitað að nefna að við fengum Bjútíbínu og allir áttu afmælisdag á árinu 2013, við erum bara svo ánægð og sátt og þakklát með það.

Ég fæ alltaf netta tilhlökkun í mig yfir nýju ári og þá sérstaklega núna því það eru breytingar. Breytingar fara ekkert illa í mig. Ég er orðin alveg rosalega sjóuð í að taka breytingum.

Í dag fljúgum við einmitt yfir til Kaupmannahafnar og endum á Freyjugötunni þar sem við munum vera fyrstu 3 vikurnar. Ég er svo skipulögð að verða að ég er búin að ákveða hvað á að vera í matinn á Freyjugötu í janúar og búin að gera fyrsta innkaupalistann. Því ekki það.