Í dag eru 8 ár nákvæmlega frá því að við komum hingað út fyrst. Á þessum fáu árum hefur svo margt gerst, bæði svo vont og svo gott, að ég er ekki að ná því að þetta séu bara 8 ár.

Fyrsti dagurinn okkar hér var sirka svona:

Við fórum frá Íslandi eldsnemma um morgun í húrrandi slyddu. Komum hingað út með 18 mánaða, 4 ára og 5 ára krakkalinga í svakalegan hita, tóma íbúð og Grundlovsdag, en þá er allt lokað.

Fyrir 8 árum var líka allt lokað. Núna er allt lokað nema það er ekki allt lokað, það er alltaf opið í Nettó dögn nefnilega.

Sem betur fer áttum við góða nágranna sem höfðu flutt nokkrum vikum áður og þau gáfu okkur að borða. Það var svosem ekki mikið að gera annað en að reyna að drepast ekki úr hita og halda sér vakandi. Við sváfum svo með eindæmum værum svefni á loftsæng sem við höfðum fengið lánaða og með sængur með engum sængurverum. En í þetta skiptið sváfum við í fallegri íbúð  með engar áhyggjur, annað en þegar við fengum afhent hér í Bellahus 3.feb 2014, eftir að hafa verið í lánsíbúð frá 9.janúar.

Þegar ég var barn og unglingur hélt ég því fram að ég myndi aldrei vilja flytja til útlanda. Það væri sko aldeilis ekki fyrir mig. Gat ekki skilið fólk sem hafði einusinni þörf fyrir að ferðast. Reyndar fordæmdi ég líka gsm síma og tölvur, en sjáum hvað ég vinn við í dag. Ég vinn við tölvu og nota síma óheyrilega mikið.

Að flytja úr hinu þekkta í hið óþekkta er eins og að opna augun uppá nýtt í fyrstaskipti. Ný sjón, nýtt að heyra, ný lykt. Nýtt að upplifa og nýtt að gera. Við vorum endurlífguð andlega. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið einskonar “high” sem ég leynt og ljóst hef verið að reyna að komast í allar götur síðan.

Í dag er búið að vera mjög gott veður. Svo gott að ég gat verið á stuttermabolnum og var að kafna úr hita hér úti í garði. ÞAÐ ER MÉR AÐ SKAAAAPI!!! VÍHÚÚÚ.