Ég gæti fengið svo væna munnræpu um það hvað mér finnst það vera leiðinlegt að það virðist vera þannig að þjóðfélagið líti niður á það að vilja starfa heima hjá sér og ala upp börnin sín. Komandi kynslóðir, þú veist, þessi sem munu sjá um okkur hin þegar við erum orðin of gömul til þess, stjórna landinu á eftir okkur, vinna fyrir okkur! (kannski líður fólki í landinu eins og það sé allt að fara í bál og brand útaf því að þau sem starfa á Alþingi höfðu hreinlega ekki mömmu sína eða/og pabba á heimlinu til að ala þau upp, voru sjálfala lyklabörn og hugsa þessvegna eins og hann á þessu heimili elsti, sem eðli málsins samkvæmt (verandi ungur eins og hann er) hefur alls ekki færni til að hugsa hlutina öðruvísi en útfrá sjálfum sér… og bara um hvað hann þarf og vill).

Eftir árið síðasta, þetta þar sem ég hugsaði ekki eina skapandi hugsun og hélt að listamaðurinn inní mér hefði andast, langar mig ekki einusinni til að opna Photoshop, sem er forritið sem ég nota til að hanna vefsíður. Þú veist. Þetta sem ég eyddi heillöngum tíma í að mennta mig í.

Það sem mig langar að gera er að skúra! Já! Drepið mig ekki alveg á innsoginu með risastór augu yfir þessu. Það er auðvelt og ekki tímafrekt.

Á þessum tímapunkti í mínu lífi, verandi orðin 4 barna móðir. Bráðum með 2 únglinga, sem vex mér strax í augum, síðan með einn sem mun bara gleymast, hann er svo mikið í miðjunni og svo smábarn þá bara sé ég ekki fyrir mér að verða neinskonar afburða hönnuður.

Afhverju þarf ég að vera afburða hönnuður? Það er útaf því að ef ég er það ekki þá vinn ég ekki við að vera hönnuður, þá kemur næsti hönnuður, sem er til í að leggja aðeins harðar að sér og borðar starfið mitt og ég myndi breytast í aumkunarvert skrifstofuskraut. Hönnuðir þurfa að gefa allt til að vera góðir í vinnunni. Ég get í hjartanu á mér ekki gert þessum manneskjum sem ég bý með það að vera öllum stundum í vinnunni. Ég er ekki tlbúin til að gefa af mér í vinnuna allan vinnudaginn, tíman meðan ég á samskipti við krakkana, tíman meðan ég er að sjá um þau heima, tíman meðan ég elda, tíman meðan ég kem þeim í ból, tíman þegar ég er ein eftir frammi af því allir hinir eru farnir að sofa og svo allan annan frítíma. Neibb. Ég kýs að skúra frekar í nokkra tíma á dag. Hitt skiptir mig akkúrat engu máli.

Einusinni var Búnglingurinn hjá dagmömmu. Já, mér, 22 ára móðurinn lá svo mikið á að komast úr fæðingarorlofinu að ég hætti í því mánuði fyrr en ég þurfti. Dagforeldrar voru þetta reyndar. Þau áttu sjálf 6 börn. Þau sögðu mér, í óspurðum fréttum, að þau hefðu kosið að vinna við einmitt skúringar á nóttunni svo þau gætu verið heima með börnunum sínum 6 á daginn. Að núna, þegar yngstu börnin þeirra væru 10 og 11 ára, þá ákváðu þau að opna dagvist. Mér fannst þau vera KÚ KÚ!

Í dag finnst mér þetta fólk vera einhverskonar snillingar!

Niðurstaðan er að ég ætla bara ekki að berjast lengur við að “vera eitthvað” ef það kostar ekkert nema stress, vanlíðan og ENGA skapandi hugsun. LORD!