Vika tvö gekk alls ekki sem skyldi. Ég gerði bara þrisvar sólarhyllingar og átt namm eða kex alla dagana nema einn. Til hamingju ég. Og úr því að þetta gekk ekki vel frá fyrsta degi og ég stend ekki undir rigningu af hrósyrðum þá er mér skapi næst að hætta við og láta sem ég hafi aldrei stofnað til bloggs.

Ég verð auðvitað að draga einhvern lærdóm af þessu og hef ákveðið að lærdómurinn sé þessi:

Sníða sér stakk eftir vexti og gera ekki óraunhæfar kröfur til sjálfrar mín. Byrja smátt og fara aftur í upprunann (back to basics).

Þannig ætla ég að halda áfram þessu með sólarhyllingarnar nema ég ætla að gera fjórum sinnum í viku, allt plús það er bónus og mun ég fá prik fyrir hvern auka dag sem dettur inn.

Í næstu vikutilraun ætla ég að gera eitt sem er auðvelt að gera og tekur ekki langan tíma (þú veist.. ég er svo gasalega mikið með 4 börn og heimili í flutningsstellingunum). Það er að skrifa 5 atriði á hverjum degi sem ég er þakklát fyrir.

Ég er alltaf þakklát fyrir hversu frábær börn ég á, hversu fádæma ágætan eiginmann ég á og fyrir alla fjölskylduna bara eins og hún leggur sig, bæði þá sem standa mér næst og líka þá sem standa mér aðeins fjær.

Ég er líka alltaf þakklát fyrir heilsuna og hreystið sem svífur yfir okkur hér á Félagsbúinu. Þannig að listinn yfir þessi 5 atriði verður um eitthvað annað og bannað að halda að ég sé ekki þakklát fyrir upptalið þó ég muni kannski ekki telja þau upp á hverjum degi í þessum lista.

Hér kemur þá fyrsti listinn og ég reikna með að gera sólarhyllingar á morgun.

  • Ég er svo þakklát fyrir lyktina af snjónum sem ég fann þegar hann hrundi innum þvottahúss hurðina.
  • Ég er svo þakklát fyrir að frænkurnar frusu ekki úr kulda í hríðinni síðustu nótt
  • Ég er svo þakklát fyrir hvað Bjútíbína brosir mikið, það er svo skemmtilegt
  • Ég er svo þakklát fyrir að ég vaknaði úthvíld í morgun
  • Ég er svo þakklát fyrir tölvuna mína, mér finnst hún skemmtileg