[orbit-slider category=”jol11″]

Myndir frá jólum.

Auðvitað er hér uppgjörspistill. Ég skrifaði einusinni uppgjörspistil, finn hann samt hvergi og fann viðbrögð á samfélagsmiðlum við hvað það væri hallærislegt að þvaðra um hvað gerst hafði á árinu.. þannig ég hef ekki þorað að gera annan.

En nú er öldin svo sannarlega önnur og ég er ég og geri það sem mér sýnist. Hér kemur þessvegna uppgjör á árinu sem fengið hefur titilinn “Ár fýlunnar” þó svo að margt undravert hafi átt sér stað.

  • Ég lauk ferli mínum sem skúringatæknir. Það eru blandnar tilfinningar, ég er nefnilega fanta góður skúrari (vertu í bandi ef þig vantar þrif, ég rukka dýrslega mikið)
  • Ég lifði af líklega kaldasta vetur jarðar í Kaupmannahöfn.
  • Við ákváðum í mars 2011 að flytja heim til Íslands.
  • Eins og mér einni er lagið þá var ég lent á Íslandi með börn, tilvonandi eiginmann og búslóð bara mánuði síðar. Reif þarf með alla uppfrá því sem þeir voru að gera. Það fór misvel í lýðinn, vel í alla nema mig, eins og sögur hafa farið af. Ánægja mín fór dvínandi.
  • Ég byrjaði að vinna hjá Vodafone. Það var ágætt og launin fín. Það bætti samt ekki vaxandi vonleysi innra með mér.
  • Ég fékk ekki íbúð og þurfti að troða föður mínum um tær í tvo mánuði. TVO MÁNUÐI! Og þegar ég hafði loksins fengið íbúð, þá var hún frímerki að stærð og einungis til leigu yfir sumarið. Þar tróðumst við og tróðum svo búslóðinni í bílskúrinn hennar mÖmmu R. Á meðan sumri stóð neyddist ég til að keyra þvottinn heim til hans og liggja undir grun nágranna hans um að misnota aðstöðu mína til þvotta. Það voru pínlegar ferðir, en þvotturinn hreinn.. ekki dugir annað. Eins gott að við höfðum bíl til umráða!
  • Allir fá á endanum íbúð og fluttum við í næstu götu. Aðallega vegna þrjósku minnar við að vera í Vesturbænum. Sú þrjóska er aðeins að koma mér í koll. Óánægja mín nær hæstu hæðum.
  • Ég fór í sumarfrí útá land og gifti mig nýja Eiginmanninum mínum. Það var frábærasti dagur ársins! Gersamlega dásamlegur. Ég gekk inn félagsheimilis gólfið með pabba meðan Smári Tarfur spilaði brúðarmarsinn á slide gítar, fékk hvítagulls hring á fingur og fór svo á vit ævintýranna á fyrrnefndum bíl, hringinn í kringum vort fagra land.
  • Í brúðkaupsferðinni útnefndum við tjaldstæðið á Sauðárkróki versta tjaldsvæðið. Þar lenti ég í því að týna fallega hvítagulls hringnum með nafni nýja Eiginmannsins inní, aðeins 17 klukkutímum eftir að ég setti hann upp. Ég var komin á Hóla þegar þetta uppgötvaðist. Við keyrðum auðvitað til baka og fundum hann á klósettinu…sem betur fer. Það sem undan gekk var einhvern veginn þannig að ég varð súr útí nýja Eiginmanninn fyrir að drullast ekki á lappir þegar ég hafði sent honum hugboð um að gera það með það sama. Þannig að ég truntaðist í skapinu útá bensínstöð til þess að skipta út gaskútnum og kaupa vegahandbók. Ég kom til baka  með nýjan gaskút, vegahandbók, glanstímarit, nammi, íslandskort, brúnt límband og stuðarann af bílnum í fanginu. Við límdum hann með brúna límbandinu og er hann þannig enn.
  • Við enduðum brúðkaupsferðina á ættargleðmóti. Það var æðislegt.
  • Þó svo að ég hafi átt svona góðan júlí, þar sem ég fagnaði eigin afmæli þann 17. brúðkaupsdegi mínum fyrsta þann 16. og afmæli Eiginmannsins þann 15. og fór á ættarmót og var í fríi.. OG fékk aðra íbúð … þá hélt óánægja mín samt áfram að vaxa. Andlegt krabbamein var ég sannarlega komin með.
  • Við fluttum s.s í næstu götu en fljótlega kom í ljós að íbúðin er sannarlega ekki þess virði að vera í Vesturbænum fyrir. Reykingarlykt af nýþvegnum þvotti, gluggar sem snjóar innum þegar þeir eru lokaðir, gamaldags ofnar sem virka eftir hentisemi, ónýt og biluð heimilistæki.. ég gæti haldið áfram.. allt þetta dreif mig í að leita að öðrum íverustað. Þarna er ég eiginlega orðin brjáluð í skapinu af örvæntingu og stressi. Hjálpi mér.

Skyldi þetta engan endi taka? Jú svo sannarlega. Öll él birtir um síðir.

Kynni ég þessvegna nýja líf mitt, fullt af fyrirheitum um betri líðan og meira spennandi hluti:

  • Ég hef látið af störfum í Vodafone og innritað mig í skóla hér í borg. Þú kannt að vera eitt spurningarmerki og hugsa með þér “..skóla..??” Já, skóla, ég er að fara að læra nuddarann og hlakka svo til að ég missti smá vatn bara á að skrifa þetta.
  • Í byrjun janúar mun ég byrja að kenna yoga í Yoga Shala. En ég er einmitt búin að vera að læra yogakennarann núna undanfarið. Það er svo spennandi að ég næ varla andanum.
  • Við erum að fara að flytja, líka núna í janúar. Við ætlum að heiðra Bústaðahverfið með nærveru vorri. Það líst mér bara vel á. Leigan hin sama, 2 fleiri herbergi og engir stigar, eða jú, niður í kjallara þar sem ég ætla að útbúa dyngju mína og kynlífsæfingasvæði (æfingin skapar meistarann) og svo tröppur uppá efri hæð, en þar munu erfingjarnir ráða ríkjum. Hlakka ég til?.. JÁ! Þó svo að við verðum með bækistöð í Bústaðarhvervi munu börnin halda áfram í sínum skólum. Ég sem leigjandi (og ég gæti skrifað heilan póst um hverskonar ættbálkur það er) segi að þó svo að ég þurfi að búa úr hverfi, þá er það bara í rauninni að skipta einum galla út fyrir anna. Hugsa út fyrir kassann. Eiginmaðurinn hvort sem er á ferð þarna niðurfrá á morgnana og við keyrum þau bara í skólann þar til það hentar ekki lengur.
  • Árið 2012 ER frábært.
  • Ég held áfram, eins og þessa fáu mánuði sem ég er búin að vera hér á landi, að hafa fjölskylduna mína nálægt, það er nú bara eitt að því sem er það besta.

Hvað er stærsti lærdómur minn á árinu?

  • Peningar bjarga ekki ánægju minni eða geðheilsu.
  • Kunnátta mín í að hugsa út fyrir (þjóðfélags) kassann er orðin þannig að ég gæti útskirfast með meistargráðu í því.
  • Vellíðan kemur til mín og er yfir mér og mínum þegar ég fylgi hjartanu mínu.

GLEÐILEGT 2012 ALLLLLLIR SAMAN.

Ljós í kotin!