Pabbi minn átti afmæli á föstudaginn og ég var svo æst yfir því að ég sendi afmælis kveðjuna degi  fyrr en hann átti afmæli, skipulagið er það mikið að það er farið að vinna gegn mér en ekki með mér, hvar endar þetta. Pabbi fékk aftur kveðju samt á réttum degi.

Það er síðan viðeigandi að ég telji nú upp allt það sem mig vantar. Oft “vantar” mann eitthvað, t.d eins og nýjar buxur þó það liggi um það bil 15 stykki í skápnum eða nýjan penna þó maður eigi 10 sinnum fleiri en buxurnar. En þessi listir er yfir hluti sem mig í alvörunni vantar:

  • Hnakk á hjólið mitt, það eru komin 4 göt á hann
  • Nýja skólatösku, rennilásinn er rifinn frá
  • Skrifborðsstól, ég er að drepast frá rassi og niður í hné og frá rassi og upp að enni svo að segja
  • Nýja slöngu í afturdekkið á hjólinu mínu
  • Tuner, annars get ég ekki stillt Sellóið
  • Nýtt nótnastatív, einhver óaldalýður braut mitt

Já, þetta er það sem mig sárlega vantar. Harðindin gera það náttúrulega að verkum að ég get ekki keypt nokkurn skapaðan hlut og hvað gera Danir þá, ég veit ekki frekar en fyrri daginn hvað Danir gera í neinu og held að það geti verið að ég sé ekkert sérlega sammála því..en til að leysa þetta, sérlega þar sem ekki er hægt að millifæra fé milli landanna og þar af leiðandi get ég ekki stofnað annan hjálpar reikning (takk þið sem lögðuð inná þennan sem ég stofnaði í tilefni símavandamála minna hér fyrir rétt rúmlega ári síðan), s.s til að leysa þetta eru hér mín harðlífis ráð:

  • Ég á í verkfæratösku Bóndans risa sterkt teip sem ég get límt yfir götin á hnakknum
  • Ég á í verkfæratöskunni minni nál og tvinna allskonar sem ég get saumað rennilásinn við á annars mjög svo fína tösku
  • Skrifborðsstólinn get ég ekki búið til úr neinu hér inni, svo ég gæti rænt börnin af þeirra barna skrifborðsstólum
  • Gæti gert heiðarlega tilraun til að bæta slönguna með bótum sem eru í tösku Bóndans
  • Ég gæti þóst vera með rosalegt tóneyra og stillt Sellóið eftir því, sagt svo bara kennaranum að börnin hafi komist í þetta rétt áður en ég þurfti svoleiðis að hlaupa út úr dyrunum í morgun
  • Ég gæti notað sama teip á nótnastatívið og hnakkinn

Ástandið er samt töluvert stressandi að mér finnst og kemur það fram hjá okkur Bónda á mismunandi máta. Hann sofnar stundvíslega milli hálf tíu og tíu í sófanum og ég get ekki sofnað fyrr en sirka fimm tímum síðar. Þannig að sólarhringurinn verður töluvert langur og angistarlegur eitthvað fyrir mig.

Við fórum síðan út í dag. He he, eins og það sé eitthvað sem aldrei gerist.. við fórum fyrst í almenna gönguferð, þ.e ekki með neitt að markmiði. Við röltum með börnin sjö yfir á leikvöll og þau djöbbluðust þar.

Sindri fór rakleiðis í rennibrautina en þar var pollur síðan það ringdi í nótt og varð því rennandi blautur strax. Við redduðum því með því að klæða hann bara úr buxunum og sokkunum og hann hafði það náðugt í svefnpoka.

Þegar við vorum búin á leiksvæðinu fór Bóndinn með okkur á Tingvej  þar sem væntanlegt hótel hans og veitingastaður stendur. Mér fannst ekkert að því.

Á leiðinni heim fundum við kastaníu tré. Krakkarnir létu eins og við ef við hefðum fundið alvöru gull. Það var því ákveðið að fara í Amager Fælled sem er skógurinn á milli okkar núna og þar sem við bjuggum áður, til að finna epli eða kastaníur, eða bæði. Okkur eldri grunaði nú að við værum aðeins of sein til að finna nokkur epli. En við fórum og það var frábært veður. Við fundum engin epli en komum við hjá sama kastaníu trénu á leiðinni heim og krakkarnir tíndu og tíndu.

Og svo sáum við að það lá steindauð rotta þarna við húsvegginn…

Henni hefur svelgst á eitthvað held ég..

Og við fórum síðan heim enda höfum við Þorvi nóg að gera við lærdóm þó svo að það sé haustfrí í þessari komandi viku, við erum í skólanum alla vikuna og svo kalla skyldurnar úr öllum áttum, það er bara ágætt. Til þess að sporna við óskipulagi þá hef ég jú haldið áfram að fylla inn í skema mitt sem inniheldur tvær vikur í senn, gerði það áðan og svo er það með að þvo þvottinn örugglega og aðallega um helgar til þess að skjáturnar hafi eitthvað að fara í og svona annað, eins og að klippa neglur og svona sem enginn getur munað nema þegar það er helgi eða þegar klærnar eru farnar að minna á ásjón róna sem haft hafa heimilisfesti og varnarþing á Strikinu í lengri eða skemmri tíma. Og svo létum við loksins verða af því að klippa lýðinn. Ég ætlaði í þetta skiptið með þau til klippidömu en fyrrnefnt og eiginlega það sem er alnefnt harðlífi og krampi í þjóðfélagi Íslands, þá eru þau, vorir erfingjar með kreppu klippingu, það er inn í dag skal ég ykkur segja.

Já það er fjör hjá Félagsbúinu.