Aðfangadagur semsagt bæði kom og fór. Hér er lítil innsýn í hvernig unglingarnir létu tíman líða. Þau sögðust ekki vera neitt spennt, væru bara góð, jafnvel einum of góð fyrir jól en ég sá að þau voru alveg á nálum.

Við vorum á náttfötunum frá því fyrir desert á aðfangadag og þar til um miðjan 26.des – en þá komu hvorki meira né minna en 7 danskir drengir í heimsókn til Geðmundar. Þeir höfðu það gott. Skemmtu sér vel og voru hér hjá okkur þar til í morgun. Þeir voru auðvitað ekki hér inní húsi hjá okkur heldur gistu niður á vist. Ég hefði sko ekki nennt að hafa 16 skó númer 46 með táfýlu í forstofunni hjá mér í meira en klukkutíma. Gaman að geta gert þetta fyrir Frumburðinn ég held að hann sé alsæll. Eða verður það kannski á morgun eða hinn, held hann sakni akkúrat núna.

Eiginmaðurinn var bílstjórinn og kokkurinn meðan drengirnir voru hér. Hann fór og sótti þá á völlinn og keyrði þá þangað aftur í morgun. Tók Ungfrú vora með á leiðinni til baka, hún flúði af landi brott þann 28.des og kom aftur í dag. Maður finnur strax að hún er komin, það svoleiðis vellur útúr herberginu hennar músíkin. Gott mál.

Við þurftum auðvitað að bregða okkur í Borgarnes að versla svo við hefðum ofaní drengina. Á Holtavörðuheiðinni tókum við þessar myndir. Þvílík fegurð! Og FRUNTALEGA kalt. Það var mínus 18 í 2 og hálfan dag. Það var varla hundi út sigandi.

Ég dritaði fullt af myndum og dreif mig svo aftur inní bíl áður en puttarnir á mér myndu frosna af. Tók ekki eftir því fyrr en ég var að skoða þessar myndir bara núna áðan að tunglið er að gægjast þarna upp fyrir fjallið. Ég er killiflöt á gólfinu af hrifningu!

Önnur fegurð sem ég ligg killiflöt fyrir. Elsku Herforinginn. Hún búin að hafa það alveg húrrandi gott um jólin. Elskar frí. Vill eiginlega ekki fara í leikskólann aftur. Vill bara hafa helgarfgrgrgríí.

Ég las fyrir hana söguna um grísina þrjá og úlfinn um daginn. Hef lesið hana tvisvar fyrir hana undanfarið. Í dag þuldi hún svo söguna upp fyrir mig með þvílíkum leiktilþrifum.

Við vorum á leiðinni heim frá mÖmmu L um kl. 01 á gamlárskvöldi og tunglið sem næst því að vera fullt og hægt var. Ég hélt hún myndi sofna bara í bílnum en í staðinn gaf hún í og lét gamminn geysa um allt og ekkert. Meðal annars að þarna væri tunglið sko og að það myndi lýsa okkur heim. Að það væri að passa okkur. Þar á eftir, þegar hún sá ljósin á húsinu okkar sprullaðist hún og gargaði “..við egrum næstum fgrgrgrgremmmööhh!..” s.s við erum næstum komin.

Þessi börn.

Og þessi hundur! Æstasti hundur í heimi. Eða ekki beint æstur heldur alveg svakalega spenntur þegar það er fólk hér inni. Hann svo spenntur að hann pissar bara. Hann vælir þegar hann sér fólk, verður alveg miður sín af ánægju og sprænir svo bara. Heldur ekki vatni. En hann er að verða frekar myndarlegur samt.

Hann er meira dekurýr en Herforinginn og þá telst nú mikið sagt.

Jæja. Svona leit ég þá út á árinu 2017. Prjónaði mína fyrstu húfu (svo ég muni) og það úr garni sem er úr hinu víðfræga (amk hér heima hjá mér) prjónastassi. Húfan er heil 90 grömm og er hér með mínusuð úr stassinu. Ég hef eiginlega ekki mínusað neitt úr því síðan í Danmörku.

Ég hef margar pælingar um það hversu önnum kæfða ég hef upplifað sjálfa mig eftir að við fluttum heim. Er þetta virkilega bara svona á Íslandi og ekki í Danmörku? Ég er að vinna nákvæmlega sömu vinnuna sko. Æh. Nenni ekki að tala um það. Hef eitt annað að mínusa úr garnstassinu, fjólublátt sjal. Finn það ekki í augnablikinu og get þá ekki dregið það frá fyrr en það er fundið svo ég geti smellt því á vogarskálina.

Vatnsnes Yarn rýkur í gang á nýja árinu og má ég endilega til með að bregða mér útí kuldan til þess að sækja inn litunarpottana svo ég geti þvegið garnið sem í þeim liggja og þerrað það í nótt og afhent á morgun.

Dóttir vefhönnun er einnig í fúll svíng. Svo miklum gír að ég þarf að hlaupa á eftir henni. Verst er hvað ég hef verið að njóta þess að vaka til miðnættis eða lengur og fara ekki á fætur fyrr en kl 10 eða jafnvel 11. Ójæja. Dett kannski í það aftur næstu jól.