Allt í blóma í garðinum. Engin eru samt komin bláberin eða jarðaberin. Ekki er laust við að ég finni til minnimáttarkenndar því ég sé þau alveg í fleirihundruð bökkum í búðinni.. ekki skil ég hvað ég hef gert rangt. Bláberja tréð er tré og ég er íslendingur og hef þessvegna ekki trú á því ennþá, eða fyrr en ég sé það að það geti vaxið bláber á tré en ekki bara lyngi.

Reyndar er svo mikil gróðursælan hjá mér að það græðist bara alveg upp úr moldarpokanum. 500 kall fyrir þann sem getur sagt hvaða tegund af líffveru þetta er.

Ég er að koma niður fyrst núna eftir síðasta prófdaginn sem var 24.júní sl. Ég er búin að vera alveg ga ga af eirðarleysi. Hef ekkert getað sofnaði í sólbaði og er rekin af líkamanum sjálfum, sem ekki hefur þol fyrir svona mikla kyrrveru, í ræktina að taka á því. Bara þannig, er ég að komast að, get ég verið í friði í kroppnum og ekki verið að sprengja sjálfa mig og alla aðra í kringum mig af pirru. Svona er það bara að vera orku mikil manneskja, maður getur ekki bara haldið henni inni. Það er þessvegna sem allt er líka spikk og span hérna heima hjá mér.. já og í fleiri íbúðum sem ég hef komið við í.

En núna, fyrst ég er komin niður, er ég að sjá hvað það er frábært að mér þarf ekki að finnast eins og ég eigi að vera að gera eitthvað nytsamlegt allan daginn. Ég hef vinnu sem borgar í okkur og á, þannig ég þarf ekki að vera að öðru en að leika mér akkúrat þessa dagana. Hef leikið mér þessvegna helling og m.a gert hér nýtt útlit á þessa síðu, sem mér finnst mega flott og ef þú hefur ekki tekið eftir því þá er í hægra horninu efst músík spilari, ýttu á flugvélina!

Svona er þetta hér hjá okkur. Fólk flatmagar allstaðar.

Komið nýtt fólk í íbúðina á móti. Það eru að mér sýnist, alla leið héðan, ungur maður með tvær kærustur, nema hann eigi eina kærustuna en hún eigi síðan hina kærustuna. Þau voru voða dugleg að koma sér fyrir og er ekki að sjá annað en þeim vanti gardínur fyrir gluggana sína. Ég elska hvað fólkið á móti er latt við að fá sér gardínur.

Ég vill fá svona bréfalúgu. Er hún ekki flott!

Danir eru algerir troðarar.. engum nema þeim tekst að troða þremur íbúðum svona í pínu lítinn stigagang, ég býð ekki í að fara í heimsókn þangað, ég sé fyrir mig að ef maður teygir sig of harkalega með hendur út til hliða komi maður til með að kýla nágranna sinn sem stóð hinum megin við að klæða sig í regnstakkinn.

Sem sagt búin að vera að tæta um alla borg eitthvað að gera. Mest bara leika mér en líka sinna erindum eins og að hitta Róna úti við. Við vorum eitthvað að beyglast úti og fórum síðan í gegnum Christianiu á leið vorri heim. Þetta er brú sem er þarna á svæðinu. Við höfum líka verið þar í myrkri, það er ofboðslega fallegt.

Það sést í þetta hús frá brúnni. MIG LANGAR í það. Fyrir utan að ég held að það sé ógrynni af skordýrum þar.. en það er í lagi  því ég er komin í æfingu að halda frá bæði húsflugum, myggum og dúfum. Afdúfun svalanna gengur alls ekki vel, ég kynni að meta að heyra alvöru fugla söng á morgnana ekki svona afturkreist búkhljóð eins og þær gefa frá sér hér undir svölunum. Húsflugurnar mættu bara alltí einu á svæðið og fylltu íbúðina. Þær voru hér alveg í tugatali. Fyrst reyndi ég að hafa engan mat á borðum né í vaski, þá keypti í flugnaeiturs límbönd og límdi víðsvegar um heimilið. Límböndin hafa bara dregið nokkrar til sín en svo fann ég flugnaspaðann.. þarf ekki að fara útí þá sálma neitt frekar nema til að segja ykkur að þeim hefur fækkað um helling og eiga ekki von á að sjá morgundaginn.. múúúúhahahahaha.

Dagar sem byrja þannig að ég fer á ströndina og fer svo að gera annað og fer svo aftur á ströndina seinnipartinn eru æðislegir. Og að henda mat í tösku og tendra upp í einnota grilli er ein sú mesta snilld sem ég veit um.

Þorvi grillaði með mér, eða hann grillaði. Grilluðum líka banana með súkkulaði, náðum hinsvegar ekkert að éta þá fyrir öllu hinu sem ivð átum. Þorvi er alltaf vel vaxinn að neðan.. hvort það er á danskri strönd eða

íslenskri strönd..

Og þá keypti ég mér gulan hjálm. Hann er einn sá flottasti sem ég hef á ævinni séð og gerir mig ekki minna kúl.

Fallegu börnin okkar eru á Íslandi eins og alkunna er. Þarna á Auðunarstöðum með Ömmu L. Þau reyndar búin að vera þar síðan þau komu. Frumburður horfinn á vit ævintýranna á Fáskrúðsfirði hjá foreldrum sínum þar og bræðrum tveim (hann afskaplega ríkur af yngri systkinum). Hitt Fíflið og Örverpið eru á Hvammstanga hjá Ömmu L ennþá og hafa ýmislegt verið að bauka. T.d voru þau í sveitinni, fóru í fjöruferð og útí Gröf. Ómetanlegt er að ég fæ að skoða myndir af þeim. Við höfum líka talast við í síman og fékk ég tilkynningu frá þeirri í miðið að hún hefði misst tönn. Ég varð að sjálfsögðu hamingjusöm fyrir hennar hönd og spurði hvort hún hefði bara allt í einu dottið.. “nei, ég reif hana úr” gall í argintætu. Ég heyrði líka í Frumburði og hann hefur það frábært hjá pabba sínum og mömmu, hann hringdi til að tilkynna mér um allt dótið sem hann er búinn að fá og neitar að koma heim nema að vera búinn að heimsækja Ömmu Rögnu líka.

Var ég búin að segja  söguna af því þegar Örverpið var heima því ég nennti ekki að fara með hann í skólann og hann var á brókinni allan daginn og svo spurði Þorvi sem hér var staddur hvort hann ætlaði ekki að fara að klæða sig í föt.. og hann svaraði “nei, ég er í fríi”. Þar höfum við það, frí er þannig að maður þarf ekki að fara í föt eða klæða sig í viðbragðsgallann, maður er í fríi PUNKTUR.

Ég sakna allra barnanna en þau hafa það svo gott að ég er ekki að drepast yfir því að þau séu ekki hér, enda er ég 100% ekki eins skemmtileg og amma, amma, afi og afi.. eða Stella amma eða Bryndís frænka og hennar lið eða Jóhannes frændi.