Ég held ég hafi fengið nýja köllun í lífinu, eða kannski er þetta bara í fyrsta skiptið sem ég hef heyrt eitthvað.. Ég held ég vilji gerast rithöfundur. Blogg rithöfundur, hehe. Er það nú ekki fyndið. Ég var að hugsa um að gefa út þetta blogg í formi útprentaðrar (erðanú ending á orði) bókur (hva..) bækur, bókar (líklega rétt). Ég mun sjálf myndskreyta bókina enda er ég líka búin að heyra að ég sé listamaður. Hvað ætli maður geti selt svoleiðis á..

Börnin hafa það gott eins og all flestar stundir. Þau eru svo skemmtilega misjöfn. Ég held ég þurfi virkilega að finna íþrótt fyrir hana í miðið svo hún springi ekki úr pirru. Já, það er held ég mikið sagt þegar flestir í Kaupmannahöfn geta viðurkennt og verið sammála því að hún sé meira að segja pirraðari en ég. Er að hugsa um að sækja um í fimleika fyrir hana í klúbb hér á Amager sem heitir KG66. Það hentar mér að augljósum ástæðum mjög vel… ég meina..KG..það er jú ég.

Gummi er ennþá heitur fyrir því að læra kúng fú. Ég hef leitað að svoleiðis en ekkert fundið sem er ekki bara lengst útá Jótlandi.

Sindri fær ekki að fara í neinar íþróttir eða tónskóla strax. Hann fær hinsvegar að halda fast við sitt snuð þó ekki sé langt í það að ég geti sagt að hann sé bara höfðinu minni en Sunneva.

Var ég búin að nefna að ég breytti í herbergi krakkanna meðan þau ekki voru heima?

Þetta var alls ekkert grín sko

Þetta var alls ekkert grín sko

Það var eftir að Dísa Kræst var farin að ég fékk eirðarleysi mikið, sem ég bjóst nú reyndar við alveg og dembdi (vá þessi póstur er fullur af merkilega skrifuðum orðum) mér í að skvera herbergi krakkanna. Ég hafði fyrir löngu, eða þegar Sindri var um það bil 1árs að ég ætlaði að flytja hann í annað herbergi þar sem ég er alveg það glöð með að vera ein í bólinu á nóttunni. Mér finnast nætur þar sem rúmið mitt er fullt af fólki sem ekki er ég vera frekar leiðinlegar og illa sofnar, tala nú ekki um snúinn hrygg og yfirvofandi hálsríg allan hringinn (IKEA á líka þátt í þessu ástandi).

Allavegana, ég byrjaði. Ég var eiginlega hálf meðvitunarlaus. Ekki í þeim skilningi að ég hafi lafað við verkið, enda geri ég það aldrei, heldur datt ég aðeins út úr eigin meðvitund því áður en ég vissi af var ég búin að rífa alla fataskápana… með öllum fötunum í útúr öllum herbergjum heimilisins.

Allt í sundur

Allt í sundur

Ekki nóg með að ég hafi rifið fataskápana út heldur þurfti ég auðvitað að flytja rúmið hans Sindra úr mínu herbergi í þeirra. Það var hægara sagt en gert skal ég þér segja því það komst ekki í heilu lagi útum hurðina. Held það hafi munað millimeter að það ekki komst út…eða innum hurðina á þeirra herbergi, svo í sundur skalða.

Vó

Bara að að sé á hreinu hversu mikið dót er í þessu herbergi þá get ég sagt að þessi mynd er ekki næstum því lýsandi fyrir hvernig þetta var.

Jedúdda

Jedúdda

Og eiginlega ekki þessi heldur. Ég er þó byrjuð að sortera og raða duglega á eftir myndinni.Þetta var rosalegt verkefni. Ég var allan daginn að þessu…meira að segja kvöldið líka. Heill dagur að taka skör í einu barnaherbergi..vá. Það ætti eiginlega að gefa mér einhverskonar medalíu fyrir þetta.

Árangurinn er frábær

Árangurinn er frábær

En þetta hófst og ég hef bara ekki séð betur raðað í barnaherbergi, hvorki fyrr eða síðar. Ég smellti Sindra rúmi undir rúmið hans Gumma bara. Hann er mjög ánægður með það bara. Og ef litið er undir rúmið þá er allt dótið komið í kassa með hjólum á sem hægt er að rúlla undir og útum alla íbúð án þess að nokkur vandræði hljótist af.

Græjurnar maður

Græjurnar maður

Og ég tók síðan bara efrihlutana af skrifborðum krakkanna og þeir pössuðu akkúrat þar sem ég vildi hafa þá, eins og flís við rass (ekki minn rass, hann er of stinnur til að flís komist þar að). Þarna við endann tróð ég einum helmingnum og hef þar græjurnar og geisladiska og eitthvað annað dót sem er bara eitthvað og við hinn endann á rúminu, á milli Sunnevu og Sindra rúms eiginlega er þá komið hið fínasta náttborð fyrir Sindra. Get geymt öll vatnsglösin á því.

Vinnustöðvar barnanna

Vinnustöðvar barnanna

Og ég fleygði skrifborðsstólunum þeirra (að vísu bara inní mitt herbergi ennþá) út og fór alla leið í IKEA (once again) og keypti þrjá skrifborðsstóla og eitt skrifborð, held það allt hafi kostað alveg 300 kallinn. Og þarna er meiningin að þau læri betur að lesa og skrifa og reikna og teikna.

Og allt þetta er inni í þeirra herbergi og það er samt risa gólfpláss. Er það nú ekki grand.

Nú, svo á morgun kemur hinn víðfrægi Kjartan til okkar í hlýjuna. Þá hef ég þrjú börn og tvo eiginmenn. Það er alls ekkert undarlegt við þá samsetningu skal ég þér segja enda var ég að lesa og segja það alheiminum að ég gæti haft það nákvæmlega eins og ég vildi.