OOOOg þá er haustfríið búið. Ég er að mörgu leiti afskaplega fegin að það er heil vika í haustfrí hér og að mörgu leiti skelfilega fegin að það er búið. Ekki svo að skilja að ég fíli ekki að vera hér með mínum börnum og dunda, en þau eru þrjú og við erum ekki stödd í gamladaga þar sem þau voru bara úti að vinna eða að tengjast guðs grænni náttúrunni í leik. NEI, við erum stödd á árinu 2010 og búum í 100fermetrum (þykir nú reyndar stórt hér) svo hátt uppi að það liggur við að maður geti notast við ský sem lyftu á leiðinni niður . Og það í stórborg, með áherslu á borg og húsnæði og leiksvæði á stærð við frímerki, svona miðað við það sem var í gamladaga. Það sem ég er að reyna að segja er að þrjú börn tala óskaplega mikið. Þau tala stanslaust öll í einu og þau eru öll alltaf inni í þessari íbúð, sem og við, jú, ég og hann og við þurfum líka að tala.

Þar sem ég er heimavinnandi húsmóðir með skúringarstarf sem innkomu æð, þá er ég jú búin að þurfa að taka hitann af öllu tali barnanna. Ég var hér alla síðustu helgi þegar Bóndinn var að vinna og líka miðviku og fimmtudag. Ein voða súr , hehe. En ég var einmitt líka að vinna alla þessa daga og líka að sjálfsögðu dagana sem hann var heima.. svo afsakaðu mig fyrir að vera orðin soooooldið krankí hér undir það síðasta, já eða var það kannsi undir bara byrjun þessa tímabils.

Allavegana endaði það þannig að þau fóru öll út og ég var inni. Notaði sem flugbeitt vopn afsakana að ég var við þrif og enginn nennti að hjálpa mér, ég kæmi sko ekki út. En þegar þau komu til baka komu þau inn með þennan líka frábæra vínarbrauðsdreng. Þá höfðu þau komið við í Kvickly (matvöruversluninni) og fengið að skreyta hann sjálf og það kostaði bara 25 krónur. Haha, þau voru alveg með þetta á hreinu. Það var alveg nóg til að bræða fúla mömmu hjartað, en ég lét samt engan sjá það. Hörð sem grjót.

Mörgum verkefnum þurfti að sinna. Til dæmis að undirbúa Kálgarða Félagsbúsins fyrir veturinn. Tilraun eitt: hafa jarðaberja plöntu umpottaða bæði úti og inni og vita hver gefur mér amk eitt jarðaber næsta sumar. Það kom ekki einusinni vísir að beri.

Tilraun tvö: hvor gefur betur af sér steinseljan sem ég sáði fyrir tveimur árum síðan og hef ýmist vanrækt eða ofvökvað og nú fært inn eða búða steinseljan

Tilraun þrjú: er hægt að sá basilíku núna þó það standi á pakkanum að það eigi ekki að gera það fyrr en í febrúar.

Tilraun fjögur: er karsi góður.

Og Örverpið er með mér ALLTAF þegar ég græja garðinn. Það eru til fullt af myndum af mér og honum við þessa unaðslegu iðju. Já og af honum að vökva Kálgarðinn. Það var ekkert öðruvísi núna. Hann er meira að segja búinn að korta á upphandlegginn á sér til að passa betur inn í teymi þeirra sem sjá um Kálgarðinn. Ég hef oft velt fyrir mér hvað börnin koma til með að verða og tel að Frumburðuri verði maður sem veit óskaplega mikið og fær öllu sínu framgengt, Sprengjan verður listamaður eða leikari (annars verð ég að fara með hana til veggjakrots og skitsófreníu læknis hið snarasta) en ég held kannski að Örverpið verði einhverskonar náttúru unnandi, grænn maður, eða bara mamma sín.

Þá fórum við yfir á Íslandsbryggju að nota hjólabretti, hlaupahjól, hjól og línuskauta á braut til þess ætlaðri. Þetta er í fyrsta skipti sem við förum í skóginn eftir að við vorum bitin þar í tætlur fyrr í haust. Þessi mynd er semsagt tekin núna á laugardaginn…

.. en þessi fyrir mánuði síðan. Það er alveg greinilegur litadýrðar munur á skóginum.

Hvað er hann að gera..?

Hann er prinsessan á bauninni. Þarna situr hann í einka fararskjóta sínum sem er knúinn áfram af einkabílstjóra hans. Í kassanum er líka hjólið hans og hlaupahjól.

Og við komumst að lokum á leiðarenda og Bóndinn sýndi gamla takta á hjólabretti.

Svali.

Litli Svali.

Já, þetta er búið að vera alveg ágætt frí þó ég hafi ætlað að ganga af göflunum af öllu talinu. Nú hefst ég handa við að kenna afkvæmunum að þögn er gulls ígildi. Bara að þau vissu að ég er alltaf að fylgjast með þeim og alltaf að hugsa um þau, þá þyrftu þau ekki að vera með athyglissýki á háu stigi hér heima við. Og hvað tekur svo við núna, jú bara hið venjulega líferni. Það er allt í lagi, ég er ekkert meiriháttar ósátt við það.

Góðar stundir!