Það er bara að koma vor krakkar!

Sönnunargagn A:

vorid-2016-er-komid

Kannski sérð þú ekkert nema óskýra hríslu og einhverja greina-kaos á þessari mynd en ég sé greinar sem hafa verið gráar í allan vetur en eru núna orðnar svona fallega ljósgrænar að hluta.

Sönnunargagn B:

vorid-2016-er-komid-exipit-b

Pínulítið gult blóm að njóta sín þarna í drullunni. Ég er svo að fílaðetta.

Það er reyndar fruntalega kalt ennþá. En að það sé orðið bjart uppúr 6:30 og að það er búið að vera há-sólskin hér síðustu tvo daga og er eiginlega meira sólskin núna er að gera mér lífið svo auðvelt og bjart og frábært.

Fórum jómfrúarferð ársins 2016 á ströndina um daginn. Fórum fyrst bara ég og Bjútíbína.

fallegt-vedur

Þetta var vort útsýni. Henni var ekki alveg sama, þó hún hefði munninn fyrir neðan nefið, meðan við vorum þarna alveg í flæðamálinu. Hún varð mega spennt þegar hún sá hvert við vorum að fara, sem ég skil ekki því við höfum ekkert talað um strönd né farið þangað síðan síðasta sumar, gargaði alveg “Standönnn” og benti og fleygði sér til beggja hliða í barnasætinu. Ég mátti passa mig að liggja ekki killiflöt í jörðinni með bæði hana og hjólið ofaná mér, við hamaganginn í henni.

Við vorum með fötu og skóflu. Hún belgdi sig við hafið en þegar hafið belgdi sig á móti, bæði á móti henni þegar hún horfði beint útá það og líka á móti henni þegar hún svo sneri sér til vinstri, tók hún ákvörðun um að við, ég og hún þá, myndum frekar moka annarsstaðar, nálægt steini, en ekki nálægt hafi.

arna-a-strondinni

Sjáðu bara, þráðbeinn reykur úr einhverri verksmiðju og vindmillurnar í kaffipásu allan daginn.

Ég er ekki frá því að Fagri hafi öfundað okkur af ferðalögum okkar því, eins og honum einum er lagið, laumaði því að mér (milljónsinnum) hvort við gætum ekki farið aftur. Og það gerðum við í gær.

Við fórum eftir vinnu og fengum oss kaffi á bekk þarna niðurfrá.

heitur-madur-og-born

Hvað ég elska svona daga.

Einhverntíma sagði ég frá því að Bjútíbína væri sennilega morgun og næturfúlasta barn sem ég hef á ævinni hitt. Hún hafði það fyrir venju, alveg síðan hún hætti á túttunni (fyrir ári) að vakna mega fúl á morgnana, vera ótrúlega pirruð yfir daginn og ganga mjög illa að sofa á nóttunni. Við erum að tala um að við vorum að vitja hennar oftar heldur en þegar hún var 2 mánaða og þurfti sopann sinn á 3 tíma fresti. Við vorum að fara frammúr kannski 8 sinnum á nóttu! 4 sinnum ef við vorum  heppin og hún mis brjáluð, en aldrei bara að pissa eða fá að drekka, heldur alltaf alveg tjúlluð. Það var nú ekki til þess að bæta ástandið.

Til þess að gera langa sögu stutta þá hefur komið í ljós að hún er sennilega með mjólkuróþol. Já. Þetta er tipikal fyrir mig, því ég hef alltaf haldið því fram að mjólkuróþol sé bara uppgerð í fólki sem vill láta vorkenna sér (ok, ekki alveg en stundum hugsa ég bara svona, það þýðir ekki að mér þyki ekki væntum ykkur, ég hef ekki alltaf stjórn á því hvað er að gerast þarna uppi) og svo er bara mjólkuróþol á heimilinu. Við tókum af henni allar mjólkurvörur, hún fær af og til ost og smjör á brauð eða á pizzu, en enga mjólk, yogurt né skyr.

Glaðara barn er ekki að finna á jörðinni skal ég ykkur segja. Hún vaknar núna bara 1-2 á nóttunni, sennilega bara af vana og sennilega útaf því að hún talar svo mikið uppúr svefni að hún er líklega að vekja sjálfa sig. Hún hefur alltaf verið hrædd um að nú muni einhver koma og taka af henni dótið eða að nú muni næsta barn koma inn fyrir svæðið sem hún var búin að ákveða að væri sitt og bara sitt, þannig að títt heyrum við “neeeeeej Gumma, den er miiiiiiin”, eða “neeeeeej….MIIIIIIIN!!!!”

Lagið sem glaðasta barn jarðar söng á leiðinni heim frá ströndinni í gær:

(lag: Meistari Jakob)

Slår du prut
slår du prut

Slår du prut
slår du prut
Mor slår prut
Mor slår prut.

Prut: prump.
Slår du prut: prumpar þú
Jeg har slået prut: ég prumaði.