… var það sem aðallega varð á vegi mínum til vinnu í dag. Menn í vínrauðum buxum og svo höfðu blessuð snuddubörnin misst snuðin sín á göturnar alveg hægri vinstri.

Öllum finnst óþægilegt að vera nakinn. Mér finnst ég stundum nakin þegar ég skrifa hér. Ég bara einhvernveginn get ekki skrifað um nema það sem vill út. Það eru ekki alltaf myndir af börnunum að gera sæta hluti sem vill út.

Ég er svo full af hugsunum að ég hef meira að segja íhugað að taka upp það sem ég er að hugsa og búa til podcast (það er svona sem hægt er að hlusta á).

Ég er bara svo oft, eins og vonandi fleiri, því annars væri ég eitthvað skrítin nefnilega, að hugsa hvað öðrum finnst, og hvort ég “má” skrifa hvað sem er. Mun það sem ég skrifa hér hafa áhrif á blogg Fjárhússins? Mun það sem ég skrifa hér, sem eru oft lýsingar á því hve mikill rugludallur ég er hafa áhrif á hvort ég fái vef-verkefni eða ekki?

Ef ég er bara allsber fyrir framan alla (nei ekki bókstaflega) og sýni akkúrat það sem í mér býr, mun ég þá verða dæmd fyrir það?

Jahh, ekki veit ég neitt um það. Ég er búin að vera með óvenju góðu sjálfsmatsmóti undanfarið. Ég vann nefnilega samkeppni um hönnun vefs. Það voru peningar í verðlaun, ekki þótti mér það verra og þetta var akkúrat það sem ég þurfti.

Forsagan er samt þessi: ég er búin að vera að DEYJA! Krakkar! Drepast undan sjálfri mér og hve mér finnst ég vera svo svakalega léleg í öllu, bara nó gúd, gæti alveg eins hent mér fram af brúnni, stokkið fram af svölunum með tilþrifum eða bara lagst á gólfið og farið að grenja.

Reyndar, eins og svo oft áður, fór ég að grenja. Ég var búin að sjá frammá að þurfa að hætta við allt þetta skemmtilega sem ég er að gera og fara að vinna einhverja svakalega leiðinlega 9-5 vinnu. Ég byrjaði umsvifalaust að syrgja óorðinn draum minn um að vinna fyrir sjálfa mig, vinna við skapandi störf, kenna öðrum og græða peninga (við viljum öll græða pening, ég er hætt að sjá það þannig að það að vilja græða pening sé eitthvað sem ekki má segja eða tala um eða óska sér).

Númm, þegar ég hafði þurrkað tárin heyrði ég af þessari samkeppni. Ég tók þátt. Örlitlu síðar fékk ég tvær vefsíður til þess að vinna í og eftir augnablik þá þriðju. Akkúrat núna þá verð ég að halda mjög vel á spöðunum ef vel á að fara.

Einhverju hlýt ég að hafa sleppt tökunum á. Ég bara veit ekki hverju.